Í Aðalstræti í Reykjavík. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Listamaðurinn Guðjón Samúelsson

Eins og flestir sem þekkja til íslenskrar byggingarsögu vita markaði Guðjón Samúelsson (1887-1950) arkitekt djúp spor í hönnunarsögu Íslands. Allir þekkja byggingar hans eins og Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands. Guðjón lauk námi í byggingarlist árið 1919, fyrstur Íslendinga. Hann markaði sér sérstöðu með tilvísunum í íslenska náttúru eins og sjá má í verkum hans.

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt skjalasafn Húsameistara ríkisins, þar eru fjölmargar teikningar Guðjóns auk annarra gagna sem tengjast starfi hans. Guðjón gegndi starfi húsameistara frá 1920 til dauðadags og handverk hans má sjá á allmörgum byggingum sem reistar voru á því tímabili. Guðjón sat einnig í skipulagsnefnd ríkisins frá upphafi árið 1921 og hafði hann því sem slíkur mikil áhrif á þróun byggðar á Íslandi og hannaði skipulag flestra bæja á Íslandi oft þó í samstarfi við aðra aðila.

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson.

Guðjón var einnig liðtækur vatnslitamálari. Árið 2015 afhenti Arkitektafélag Íslands Þjóðskjalasafninu nokkrar vatnslitamyndir eftir Guðjón. Myndirnar höfðu verið í eigu Ólafar Vernharðsdóttur ráðskonu Guðjóns. Myndirnar sem hér eru sýndar eru annars vegar frá Reykjavík og hins vegar frá Eyrarbakka, báðar gerðar árið 1912.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar

Búið í bröggum

Þegar bandaríski herinn hvarf frá Íslandi árið 1945 var skilið eftir mikið magn af bröggum og í því húsnæðishallæri sem var viðvarandi á Íslandi sköpuðu yfirgefnu braggarnir fátæku fólki tækifæri til að koma sér þaki yfir höfuðið.

Flestir braggarnir í Reykjavík voru breskir, svokallaðir Nissenbraggar. Þeir hétu í höfuðið á breska námuverkfræðingnum Peter Normann Nissen sem átti stærstan þátt í að hanna skálana í fyrri heimsstyrjöldinni. Erlendu hermennirnir nefndu þessi hús hins vegar oftast “barracks” eða herskála. Íslendingar tóku nafnið upp og íslenskuðu sem “bragga”, enda var orðið þekkt frá fyrri tíð en nafnið var áður notað yfir svefnskála starfsfólks á hval- og síldarstöðvum víða um land.

Bresku Nissen skálarnir voru einkum af fjórum stærðum. Þeir algengustu voru ríflega 50 fermetrar en þeir stærstu voru svokallaðir Romney braggar, tæplega 400 fermetrar. Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervernd Íslands hófust þeir einnig handa við byggingu bragga, sem voru með svipuðu sniði.

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar.

Árið 1944 voru rúmlega 8600 herskálar á Íslandi, þar af voru tæplega 6000 í Reykjavík. Þó skálarnir væru kaldir og sumir hverjir a.m.k. vart mannsæmandi bústaðir varð fljótt mikil eftirspurn eftir húsnæði í skálunum eftir brotthvarf hersins. Léleg hús voru jú betri en engin og raunar voru braggarnir í sumum tilfellum ekki verra húsnæði en það sem fólki bauðst á almennum markaði. Þegar árið 1943 fór húsnæðisnefnd Reykjavíkur að falast eftir hermannaskálum til að leysa húsnæðisvanda Reykvíkinga. Að sjálfsögðu voru braggarnir einungis hugsaðir sem bráðabirgðaúrræði til að leysa úr bráðum vanda. Aldrei var hugmyndin að braggarnir yrðu framtíðarbústaðir.

Gjörðabók samtaka herskálabúa 1953-1960. ÞÍ 1990/39

Gjörðabók samtaka herskálabúa 1953-1960. ÞÍ 1990/39.

Eftirspurn eftir braggaíbúðum jókst hins vegar þegar leið á fimmta áratuginn. Um miðjan september 1945 voru íbúar í braggabyggðum taldir um 1.250 en árið 1955 voru íbúar orðnir um 2.300 í 543 íbúðum. Hins vegar höfðu sumar braggabyggðirnar verið endurbættar.tekið endurbótum. Byggt hafði verið við marga skálanna og sumir voru forskalaðir. Árið 1953 voru stofnuð Samtök herskálabúa og höfðu þau að markmiði að bæta aðbúnað íbúa og knýja yfirvöld Reykjavíkurbæjar til að byggja mannsæmandi íbúðir og að útrýma braggahverfunum. Á sjöunda áratug 20. aldar hafði bröggum verið að mestu útrýmt og lauk þar með sögulegu tímabili í þróun Reykjavíkur.

Heimildir

  • Eggert Þór Bernharðsson: Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940-1970, Rvk. 2000.
  • ÞÍ. 1990/39. Fundagerðabók samtaka herskálabúa 1953-1960.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Hér má sjá fyrstu úttektarbókina sem við birtum á vefnum en það er úttektarbók úr Akrahreppi frá 1840 til 1911.

Lýsingar á húsum – Úttektir

Hér má sjá fyrstu úttektarbókina sem við birtum á vefnum en það er úttektarbók úr Akrahreppi frá 1840 til 1911.

Hér má sjá fyrstu úttektarbókina sem við birtum á vefnum en það er úttektarbók úr Akrahreppi frá 1840 til 1911.

Úttektir eru mikilvægar heimildir um húsakost fyrr á tímum. Leiguliðum bar að viðhalda húsum og öðrum mannvirkjum á þeim jörðum sem þeir leigðu. Við leiguliðaskipi voru jarðirnar teknar út af tveimur úttektarmönnum. Annar var hreppstjóri en hinn útttektarmaðurinn var tilskipaður af sýslumanni. Samkvæmt 32. Grein laga um bygging, ábúð og úttekt jarða frá 1883 skyldu úttektarmenn „… bók hafa, er borgist af sveitarstjóði og sýmaður löggildir; skal rita í hana allar úttektir jarða. Eigi er úttekt lokið fyr, en svo er gjört.“ Samkvæmt 33. Grein sömu laga skyldu úttektarmenn fyrst taka „… út hús þau, er jörðu fylgja og lýsa þeim greinilega, sem og göllum þeim, er á þeim eru. Næst á eptir jarðarhúsum skal taka út önnur mannvirki, þau er jörðu fylgja, svo sem eru túngarðar, vörzlugarðar, matjurtagarðar, fjenaðarrjettir, heygarðar, stíflugarðar og annað þesskonar.“ (Alþingistíðindi 1883 C, Reykjavík, 1883, bls. 429-434. Lögin tóku gildi 1884).

Úttektir gátu einnig verið gerðar þegar verið var að gera upp dánarbú eða við sölu jarða.

Elsta úttekt sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, er frá árinu 1711.

Elsta úttekt sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, er frá árinu 1711.

Í þessum úttektum er að finna mikilvægar heimildir um húsakynni fyrr á öldum og nota til dæmis fornleifafræðingar gjarnan þessar heimildir þegar þeir eru að vinna að skráningu fornleifa.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga varðveitir úttektarbækur frá gömlu hreppunum í Skagafirði og hefur nú hafið ljósmyndun þeirra. Ætlunin er að gefa almenningi kost á að skoða þessar merku heimildir á vefnum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

 

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum nýbyggður.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum nýbyggður.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum var byggður á árunum 1946-1956 og það er merk og mikil saga á bak við verkið, sem að mestu leyti er tengd persónu Þorsteins Þ. Víglundssonar, skólastjóra.

Gjörðabók byggingarnefndar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1947-1953.

Gjörðabók byggingarnefndar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1947-1953.

Meðan á framkvæmdum stóð átti bygging skólans hug hans allan og barðist hann með kjafti og klóm fyrir hverri einustu krónu sem að fór í að reisa húsið. Dæmi um baráttuna er sú staðreynd að þegar að þurfti að grafa fyrir grunni skólans og leikfimisalarins, tók skólastjórinn sig til ásamt nemendum og kennurum, og grófu þau sjálf fyrir grunninum með eigin höndum.

Þorsteinn Víglundsson ásamt nemendum sínum að grafa grunn Gagnfræðaskólans.

Þorsteinn Víglundsson ásamt nemendum sínum að grafa grunn Gagnfræðaskólans.

Til eru myndir (teknar af Gísla Friðrik Johnsen) af framkvæmdunum, sem sýna dugnaðinn og kraftinn sem að einkenndi vinnu unglinganna, kennaranna og læriföður þeirra Þorsteins. Bygging Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum reyndist ein hlutfallslega ódýrasta bygging sem að reist var á vegum hins opinbera á árunum eftir seinna stríð, hér á landi.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum fokheldur.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum fokheldur.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Verkamannabústaðir við Hringbraut.

Byggingafélag verkamanna í Reykjavík

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur má finna mörg áhugaverð gögn sem má nýta til rannsóknar á sögu húsa í Reykjavík. Þar má meðal annars finna áhugaverð skjöl varðandi byggingu fyrstu verkamannabústaðanna á árunum 1931-37, en Byggingafélag verkamanna var stofnað árið 1929. Héðinn Valdimarsson var flutningsmaður frumvarpsins um lög um verkamannabústaði, en hann var einnig formaður Byggingafélags verkamanna í Reykjavík til ársins 1946.

Upphaflega hét félagið „Byggingafélag verkamanna í Reykjavík“, en síðar var því breytt í „Byggingafélag alþýðu“ og að lokum í „Húsfélag alþýðu“. Í öllum tilfellum tengdist nafnabreytingin breyttum lögum um verkamannabústaði. Félagið byggði 172 íbúðir í Vesturbænum í þremur áföngum á árunum 1931 til 1937, þar til lögum um verkamannabústaði var breytt árið 1939, sem varð til þess að félagið fékk ekki lengur lán úr byggingasjóði verkamanna.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.  Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.
Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Húsameistarar ríkisins, Guðjón Samúelsson og Gunnlaugur Halldórsson teiknuðu húsin, ásamt Einari Erlendssyni. Skipulag húsanna og fyrirkomulag þeirra á reitnum var á sínum tíma mjög í samræmi með ríkjandi hugmyndir í skipulagsmálum, sem gerði ráð fyrir samfelldum röðum tveggja og þriggja hæða steinhúsa meðfram flestum götum, víða með stóru aflokuðu svæði í miðju húsareitanna. Á lokaða svæðinu milli húsanna var gert ráð fyrir sameiginlegum barnaleikvelli og almenningssvæði. Einnig var gert ráð fyrir litlum bakgarði við hvert hús. Fjórar íbúðir voru í hverju húsi, með sameiginlega þvotta- og þurrkaðstöðu í kjallara. Við byggingu verkamannabústaðanna var gert ráð fyrir ýmsum nútímaþægindum, eins og rafmagnseldavél og baðherbergi. Einnig var fjarhitun í íbúðunum í gegnum tvær miðstöðvar og þar með heitt rennandi vatn í krönum. Fyrir verkamenn á 4. áratugi 20. aldar voru þetta ótrúleg nútímaþægindi, sem hingað til höfðu ekki þekkst hjá þeim efnaminni.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Skipulag verkamannabústaðanna var í anda fúnkisstefnunnar. Þeir arkitektar sem fylgdu henni, vildu bæta þjóðfélagið með góðri hönnun og útrýma heilsuspillandi húsnæði. Markmið fúnkisma var að útrýma óþarfa skrauti og flúri og hafa hreinleika og nýtingu að leiðarljósi.

Á Borgarskjalasafninu má finna fundargerðarbækur félagsins allt frá árinu 1930 til ársins 2002, bréf, reikninga, kaupsamninga og aðrar upplýsingar er tengjast Byggingafélagi verkamanna í Reykjavík.

Höfundur: Margrét Hildur Þrastardóttir

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

 

Hrannargata um 1920

Brúðargjöfin

Hrannargata á Ísafirði um 1920. Lengst til hægri er húsið að Hrannargötu 9, byggt af Jóni Þorvaldssyni og Gudrunu Nielsen árið 1898. Við hliðina er Templarahúsið, byggt árið 1905. Ljósm. M. Simson.

Húsið að Hrannargötu 9 á Ísafirði var byggt sumarið 1898 af Jóni Þorvaldssyni lækni og Gudrunu Nielsen, norskri eiginkonu hans. Höfðu þau gift sig í september 1897 og var húsið brúðargjöf frá foreldrum hennar. Var það stórt og rúmgott, plankabyggt úr völdum norskum viði með viðbyggingu að norðanverðu þar sem læknirinn hafði stofu sína. Var húsið í daglegu tali kallað Rauða húsið enda eina rauða húsið í bænum á þeim tíma.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 31. mars 1898 þar sem Jón Þorvaldsson sækir um að fá að byggja íbúðarhús og geymsluskúr.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 31. mars 1898 þar sem Jón Þorvaldsson sækir um að fá að byggja íbúðarhús og geymsluskúr.

Skömmu eftir að ungu hjónin fluttu inn í húsið fæddist þeim andvana sveinbarn og setti sorgin mark sitt á heimilislífið um veturinn. Áföllin áttu þó eftir að verða fleiri því næsta vor gaus taugaveiki upp á heimilinu. Jón lagðist fyrstur en náði bata eftir að hafa legið milli heims og helju en Gudrun og vinnustúlka á heimilinu létust með nokkurra daga millibili í maí. Jón gat þá ekki hugsað sér að búa lengur í húsinu og flutti alfarinn norður á Hesteyri í Jökulfjörðum þar sem hann var skipaður læknir. Það gekk hins vegar illa að selja húsið þar sem sögur fóru á kreik um reimleika í því.

Virðing á húsi Jóns Þorvaldssonar í desember 1898.

Virðing á húsi Jóns Þorvaldssonar í desember 1898.

Árið 1905 keypti Skúli Einarsson húsið og flutti þangað með fjölskyldu sína. Í viðbyggingunni opnaði hann verslun sem fékk heitið Glasgow og með tímanum festist það nafn á húsinu sjálfu. Marís Gilsfjörð keypti verslunina af Skúla árið 1909 og var hún til að byrja með í smáum stíl en varð umfangsmeiri eftir að hann sneri sér að sölu húsgagna og húsgagnaviðgerðum. Auglýsingar frá versluninni birtust reglulega í bæjarblöðunum og vöktu oft athygli fyrir skemmtilega framsetningu. Skúli seldi verslunina í ársbyrjun 1933 en kaupandanum farnaðist ekki vel reksturinn og varð gjaldþrota árið 1936. Mun ekki hafa verið rekin verslun í húsinu eftir það.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.

 

Eyrin í kringum 1907. Ljósmyndari Ingrid Hansen. Varðveitt í HSk.

Af minni efnum

Eyrin í kringum 1907. Ljósmyndari Ingrid Hansen. Varðveitt í HSk.

Eyrin IV
Hafliðabær
Brekkubær

Við Gönguskarðsárósinn á Sauðárkróki var nyrsta byggð þéttbýlisins sem var að myndaðist fyrir og um aldamótin 1900. Svæðið gekk alla jafna undir heitinu „Eyrin“. Ein af elstu myndum sem við eigum af Eyrinni er tekin árið 1907 en því miður sést ekki sá bær er hér er fjallað um.Við Gönguskarðsárósinn á Sauðárkróki var nyrsta byggð þéttbýlisins sem var að myndaðist fyrir og um aldamótin 1900. Svæðið gekk alla jafna undir heitinu „Eyrin“. Ein af elstu myndum sem við eigum af Eyrinni er tekin árið 1907 en því miður sést ekki sá bær er hér er fjallað um.
Húsin á Eyrinni voru ekki mörg og yfirleitt byggð af litlum efnum. Eitt þessara húsa var reist í kringum 1900 og byggt af Hafliða Gunnarssyni.

Hafliðabær í kringum 1940, lengst til vinstri. Ljósmynd frá Michelsen-fjölskyldunni, varðveitt á HSk.

Hafliðabær í kringum 1940, lengst til vinstri. Ljósmynd frá Michelsen-fjölskyldunni, varðveitt á HSk.

Það er erfitt að fjalla um heimili án þess að geta þeirra sem þar bjuggu. Í Sögu Sauðárkróks stendur að Hafliði sá er reisti bæinn árið 1900 hafi verið „geggjaður og þyngsti ómagi í Sauðárhreppi“. Fóstursonur hans, Sigurður Helgason, er sagður vera „flogaveikur aumingi“ og fékk síðar nefnið „krunkur“ (Saga Sauðárkróks I, bls. 198). Sigurður krunkur sá um að tæma kamra íbúanna á Sauðárkróki lengi vel. Í manntali ársins 1920 nefnist bærinn Brekkubær og búa þar hjónin Runólfur Jónsson, oft nefndur predikari, og Soffía Ólafsdóttir ásamt syni þeirra Lárusi.
Á ljósmynd úr fórum Andrésar Valbergs er að finna mynd af Hafliðabæ, sem er sennilega tekin um miðja síðustu öld (HSk, askja 594). Árið 1927 flytja í Hafliðabæ Gísli Jóhann Gíslason og fóstursystir hans Anna Sigríður Jónsdóttir en þau bjuggu í Hafliðabæ til dánardægurs. Á ljósmyndinni má sjá að Hafliðabær var með fjósbaðstofu, á neðri hæð var sem sagt fjós og fyrir ofan fjósið var íverustaður heimilisfólks. Þessi tilhögun á húsnæði var til þess að nýta ylinn frá skepnunum.

Hafliðabær.

Hafliðabær.

Andrés Valberg (1919-2002) var mikill safnari og hafði mikinn áhuga á fornmunum og bókum. Hann fór inn í Hafliðabæ eftir andlát fóstursystkinanna og lýsir ferð sinni þangað inn á eftirfarandi hátt:

Ég sem er forfallinn safnari, sérstaklega á  á forngripi var ég forvitin að líta yfir þetta dót, en hafði  slæma aðstöðu á nýlegum fólksbúl og í hreinum ferðafötum og bærinn læstur. Ég var kunnugur húsaskipan, því ég hafði komið inn til Gísla einu sinni. Ég komst inn um kofadyr sem voru vestaná bænum, þaðan inn í bakhús og inn í íbúðina sem var eldhúsbora, og suðurherbergið, þar sem gömlu hjúin höfðu verið milli 40- 50 ár [leiðrétting um 30 ár bjuggu þau Anna og Gísli í Hafliðabæ]. Þar var allt í röð og reglu. Bæði rúmin, sem voru föst á veggjunum með rúmfötum og breitt yfir með tíglóttum heimaofnum ábreiðum. Kommóða Önnu með hreinum samanbrotnum rúmfötum og öðrum fatnaði hennar. Þessi kommóða hafði verið rauðbrún með dekkri skúffum, fjórum að tölu, renndum fótum, sverum ca. 8-10 sm. Háum og útflúruðum köntum beggja megin að framan. Sennilega hefur þessi kjörgripur verið arfur frá forfeðrum hennar.  Undir glugganum hægra megin vara borð með renndum fótum. Hilla yfir rúmi Gísla var beint á móti stofuglugganum. Þar á var eitthvað smádót, en ekki var hægt að sjá nokkra lögun á því fyrir þykku, dökku ryklagi. Mig langaði til að sjá hvað þar væri, svo ég andaði djúpt að mér og blés af miklum krafti á rykið og flúði undan mekkinum fram í bakhúsið. Þar hékk forláta skreppu hesputré og fleira dót á bigum, kollur og kyrnur meðfram veggjum,og svo margt sem ég mátti ekki vera að að skoða, því ég vissi að konan beið mín með börnin hjá mínu fólki. Eftir nokkra stund fór ég inn á baðstofuna aftur, sem var þiljuð með panel, og bitar neðan í lofti, og loftgólfið ofan á þeim. Mjó stigakrækla var þar upp, sem ég laði ekki í að klifra. Ekki lagði ég heldur í að opna kjallaralúguna sem var undir stiganum með sverum koparhring til að taka í. Ég reiknaði með að í þessum vistarverum væru hlutir sem mig langaði til að eiga ogværi aðeins til að hryggja mig að geta ekki bjargað frá glötun. Það gat ég ekki með góðu móti.  Hafði ekki leyfi til að hirða þaðan neitt nema þá að stela því, og af þeirri söfnunaraðferð hef ég aldrei verið hrifinn.

Rykið var ekki allt fallið og settist á föt mín. Þó sá ég að á hillunni yfir rúmi Gísla gamla voru gleraugu hans með svigum innan við glerin. Undir þeim lá gamla vasablokkin hans, dökkbrún að elli og óhreinum  fingraförum. Lét ég duga að halda á þessu með mér, en þegar ég kom fram í dyrnar og leit yfir þetta gamla, yfirgefna heimili, rak ég augun í hlandkollu Gísla undir rúmi hans, eina af þessum ævafornum, sem girt var með þremur gjörðum og víðari að neðan. Ég hafði heyrt um þær talað, en aldrei reiknað með að eignast í mitt safn. Ég beygði mig og dró kolluna fram á gólf. Í henni var þykkur hlandsteinn, 1-1 1/2  sm. Ég leit gleraugun og síðustu leifar af andaagift þessa sérkennilega hagyrðings ofaní kolluna og fór út, hryggur og niðurlútur eins og ég væri að fylgja gömlum vini til grafar. Þegar ég gekk með feng minn, dýrmæta minjagripi um Gísla Lága, og sennilega þá einu sem gætu minnt á hérvist hans á vorri jörð datt mér í hug er ég lét kofahurina falla að stöfu, kannske í síðasta sinn. Vísa Ólínu Jónasdóttur er hún gerði, eina af morgum er gerðu heiili hennar, Krókagerði í Norðurárdal, Akrahreppi, ódauðlegt. Vísuna tautaði ég niður túnblettin að bílnum.

Auðna og þróttur oft má sjá
eru fljótt á þrotum.
Gakktu hljótt um garða hjá
gömlum tóftarbrotum.

Það var svo um árið 1990 að mikið hreinsunarafrek hefði verið framið í Skagafirði, þar sem gamla Gíslabænum (Hafliðabær), eins og hann var jafnan kallaður eftir að Gísli kom þangað, hefði verið rutt með jarðýtu af hólnum með jarðýtu af hólnum í lægð í túnblettinum norðan við, með öllu sem í var og þótti mikil landhreinsun. Þá voru Skagfirðingar búnir að losa sig við síðasta torfhúsið á eyrinni og um leið á Króknum. (Andrés Valberg, óskráð gögn, varðveitt á HSk).

Þess ber að geta að þeir munir sem Andrés tók eru nú geymdir á Byggðasafni Skagfirðinga.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

 

Óskarsbraggi á Raufarhöfn.

Óskarsbraggi/Óskarsstöð á Raufarhöfn

Óskarsbraggi er staðsettur á fallegum stað nálægt höfninni, með útsýni yfir hafið og Höfðann. Óskar Halldórsson síldargrósser reisti fyrsta hluta þessa húss 1949 og lauk byggingunni 1950. Timbrið kom með skútu í eigu Óskars. Mögulega er þetta síðasta húsið sem sótt er með seglskipi til Noregs eins og tíðkast hafði með mörg íslensk stórhýsi allt frá miðöldum. Í húsinu voru um 22 svefnherbergi (fyrir 2-6), því má ætla að 80-100 manns hafi haft þar aðsetur þegar síldarumsvifin voru mest á Raufarhöfn. Árið 2008 var húsið orðið lélegt og hætt að þjóna hlutverki sínu sem í seinni tíð hafði verið hrognkelsavinnsla og veiðafærageymsla, þá er það að nokkur hópur áhugamanna tekur húsið að sér til að bjarga því frá glötun. Það mikla verk hefur staðið óslitið síðan. Húsið er að fullu klætt að utan og allir nýir gluggar komnir í það en eftir að setja fög og falda í síðasta áfanga að utan. Hugmyndin er að nýta húsið á fjölbreytilegan hátt undir gestavinnustofur, sýningahald, námskeið og fleira tengt listum.

Óskar Halldórsson er talinn er að einverju leyti fyrirmynd Bersa Hjálmarssonar (Íslandsbersa) í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness. Í bókinni Til fundar við skáldið Halldór Laxness, sem kom út 2007, segir Halldór um bókina Guðsgjafaþula:

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Bókin er skáldskapur en ég hef aldrei farið í launkofa með það að þegar ég sauð saman Íslandsbersa hafði ég til fyrirmyndar víða í Guðsgjafaþulu gamlan kunningja minn, Óskar Halldórsson, útgerðarmann og síldargróssera, sem ég kynntist allvel í Kaupmannahöfn á ungum árum mínum. En þetta er vitaskuld ekki ævisaga Óskars Halldórssonar. Óskar var afskaplega flott maður og stór í sniðum, alltaf sama stórmennið hvort sem gekk vel eða illa í síldarbraskinu. Hann var höfðingi á alla lund, hafði mikla risnu og bjó aldrei á lágt standandi hótelum. Hann var bunandi mælskur og sannfærandi, hafði mikla en dálítið framandi geislun og veittist auðvelt að töfra fólk í návist sinni. Ýmislegt keimlíkt má segja um Íslandsbersa. Menn mega þó ekki slá því föstu að það sem drífur á daga Íslandsbersa í Guðsgjafaþulu hafi endilega komið fyrir Óskar, þann stóra mann.

Þegar Halldór er spurður hvort Bersi sé ekki líkur Óskari á margan hátt svarar hann:

Þeir voru báðir miklir áhættumenn sem höfðu unun af spákaupmennsku og veðmálum. Þetta voru sannir síldarkóngar, milljónerar einn daginn, blásnauðir þann næsta. Þeir áttu það sammerkt að hafa farið margsinnis á höfuðið í síldartöpum en komist á fæturna að nýju í hvert sinn. Báðir lentu í stóra krakkinu sem kallað var, verðhruninu á síldinni 1920. Einstakt lán að ég skyldi kynnast persónulega svo stórbrotnum manni sem Óskari á þeim dögum. Ég skil enn ekki hvernig hann kom upp í hendurnar á mér; við hrærðumst sinn í hvorum heiminum. Ég var varla samboðinn svona stórlaxi, auralaus og allslaus, – átti varla túskilding með gati!

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

 

Brekkubær.

Brekkubær

Húsið var reist í brekkunni norðvestan við kirkjuna 1920 og bjó þar lengst af Stefán Guðmundsson (1860-1952) sem keypti bæinn 1922, Ewald Sæmundsen hafði látið reisa hann.

F.v. Páll Valdimar Guðmundsson Kolka (1895-1971), Björg Kolka Haraldsdóttir (1944), Ingibjörg Guðlaug (Þórðardóttir?), Guðbjörg Guðmundsdóttir Kolka (1888-1974), Barnabarn Páls Kolka, Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996), Gunnlaugur Einar Snædal (1924-2010).

F.v. Páll Valdimar Guðmundsson Kolka (1895-1971), Björg Kolka Haraldsdóttir (1944), Ingibjörg Guðlaug (Þórðardóttir?), Guðbjörg Guðmundsdóttir Kolka (1888-1974), Barnabarn Páls Kolka, Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996), Gunnlaugur Einar Snædal (1924-2010).

„Ýmsir sjúklingar eru mér minnisstæðir, t. d. Stebbi straumur, sem svo var kallaður. Það var hann, sem Kjarval málaði af alveg meistaralegt málverk. Kjarval var einhvern tíma gestur hjá læknishjónunum og kynntist Stebba á sjúkrahúsinu. Stebbi hafði stórar hendur og pataði með þeim út í loftið, þegar hann var alltaf að tala um hvítu merina sína, sem hann hefur ef til vill einhvern tíma átt. Á myndinni sat Stebbi á hvítu merinni með englameyjarnar kringum sig og dýr merkurinnar hér og þar. Kallaði Kjarval málverkið „Hugmyndaflugið hans Stebba“.“ Viðtal við Önnu Reiners (myndin birtist nýlega í sjónvarpinu þar sem fjallað var um Kjarval).

F.v. Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996) og Filippía Magnea Björnsdóttir (1885-1969).

F.v. Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996) og Filippía Magnea Björnsdóttir (1885-1969).

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu.

 

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað – skólaheimili innréttað

Sigrún Pálsdóttir Blöndal við skriftir.

Sigrún Pálsdóttir Blöndal við skriftir.

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað tók til starfa 1930. Brautryðjendur að stofnun hans voru þau hjónin frú Sigrún og Benedikt Blöndal. Skólahúsið var byggt á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Jóhanns Franklíns Kristjánssonar. Yfirsmiður byggingarinnar var Guðjón Jónsson trésmiður á Reyðarfirði. Skólahúsnæðið var ekki fullklárað þegar skólinn tók til starfa og á næstu árum var unnið við að smíða innréttingar og fleira. Eftirfarandi eru ítarlegir kaflar um framkvæmdir skráðir af Sigrúnu Blöndal forstöðukonu.

Úr skýrslu 1930-1931

Þegar skólinn tók til starfa 1. nóv. vantaði mikið á að skólahúsið væri fullbúið. Leiddu af því ýmis óþægindi fyrir nemendur og kennara og nokkur töf varð að því við nám og kennslu. Þannig voru engin svefnherbergi fullbúin, og ekki handavinnustofa. Var því til bráðabirgða búið um nemendur á fjalabekk í baðstofunni og sváfu flestar þar á flatsængum, þangað til 22. nóv. að svefnherbergin voru svo búin að flytja mátti í þau, 25. s.m. var slegið upp skilrúmi milli kennslustofunnar og skrifstofu forstöðukonu. En baðstofan (en svo er vinnustofa skólans nefnd) var ekki fullbúin fyr en um hátíðir. Er það hið prýðilegasta hús. Þiljað innan með kvistlausri furu, sem unnt var. Súðin ferniseruð. Gluggar á stöfnum og suðurhlið. Af þessu leiddi það, að vefnaðarkennsla gat ekki byrjað fyr en eftir áramót, svo nokkru næmi. Að vísu voru settir upp vefstólar niðri í kjallara fyrir jól, en ekki varð það að miklu liði. Saumakennsla var í skólastofunni fram að jólum, mestmegnis hannyrðir. En er kennsla byrjaði aftur eftir jólafríið var flutt öll handavinnukennsla í baðstofuna og unnið þar með 8 vefstólum, 1 prjónavél og 3 saumavélum.

Dagstofa skólans, sem jafnframt verður samkomusalur hans, varð ekki notuð fyr en að nokkru undir vor, því gólf var ekki lagt í hana fyr. Voru því allar skemmtanir og kvöldvökur þangað til í skólastofunni. Margir smiðir unnu hér fram að jólum og 1 smiður allan veturinn. Vann hann að skápasmíði í eldhúsi og búri og var því fulllokið í vor og einnig í baðstofu, en fyrir þá skápa vantar hurðir. Nokkur borð smíðaði hann líka í vinnustofu og svefnherbergi.

Baðstofan. Ljósmynd: Sveinn Guðnason.

Baðstofan. Ljósmynd: Sveinn Guðnason.

Úr skýrslu 1931-1932

Á þessu ári var nokkuð unnið að því að ljúka skólabyggingunni. Sumarið 1931 var húsið “pússað af” utan. Vann Guðni Þorsteinsson múrari mestmegnis að því undir umsjón Guðmundar Þorbjarnarsonar, er haft hafði forstöðu á öllu múrverki byggingarinnar. Um haustið setti Guðm. upp arinn í “Höllina”, en svo er dagstofa skólans nefnd. Þá flíslagði hann veggi í eldhúsi, búri, baðstofu og mjólkurhúsi, og færði eldstórnar á betri stað í eldhúsinu og hagkvæmara en verið hafði.

Um veturinn voru hér 2 smiðir, þeir Ósvald Nielsen bóndi í Gíslastaðagerði og Karl Ólafsson frá Urriðavatni. Unnu þeir að ýmiskonar smíðum innanhúss. Þetta var hið helzta er þeir gerðu: Smíðuð borð, bekkir og bókahillur í litlu baðstofurnar á háaloftinu. Smíðaðir þvottaskápar í Línbúðina og hún máluð. Er það nú bæði snoturt herbergi og haganlegur útbúnaður til snyrtingar á þvotti, stórt borð til að brjóta þvott, 2 strokborð, og svo þvottaskápar 12, með öðrum hliðarvegg herbergisins, hver með 3 hillum, er hverjum nemanda ætluð 1 hilla. Þá var þiljuð forstofa og smíðaðar þar hillur.

Í Eldhús voru smíðuð 2 matborð og bekkir og vinnuborð bæði í eldhús og baðstofu. Þá voru að lokum smíðaðir bekkir fastir í Höllina með stoppuðu baki og sæti. Eru það 3 hornbekkir og 1 bekkur fyrir miðjum vegg. Eru bekkirnir fóðraðir með heimaofnu Salóni úr ull. Þvottaskálarnar 2, sem voru í horninu undir stiganum voru teknir burt og hornbekkur settur þar í staðinn. En þvottaskálarnar voru fluttar í gestaherbergi og svefnherbergi forstöðukonu og vatn leitt inn í þau herbergi, 3 borð voru smíðuð í “Höllina”. Er að þessu öllu hin mesta hýbýlaprýði og þægindi. Þá málaði Guðjón Jónsson, yfirsmiður skólabyggingarinnar, Höllina, og gaf þá vinnu skólanum. Sömuleiðis var málað eldhúsið með skápum, borðum og bekkjum.

Úr skólaskýrslu 1931-1932.

Úr skólaskýrslu 1931-1932.

Sjá einnig grein um daglegt líf í skólanum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.