Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum nýbyggður.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum nýbyggður.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum var byggður á árunum 1946-1956 og það er merk og mikil saga á bak við verkið, sem að mestu leyti er tengd persónu Þorsteins Þ. Víglundssonar, skólastjóra.

Gjörðabók byggingarnefndar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1947-1953.

Gjörðabók byggingarnefndar Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum 1947-1953.

Meðan á framkvæmdum stóð átti bygging skólans hug hans allan og barðist hann með kjafti og klóm fyrir hverri einustu krónu sem að fór í að reisa húsið. Dæmi um baráttuna er sú staðreynd að þegar að þurfti að grafa fyrir grunni skólans og leikfimisalarins, tók skólastjórinn sig til ásamt nemendum og kennurum, og grófu þau sjálf fyrir grunninum með eigin höndum.

Þorsteinn Víglundsson ásamt nemendum sínum að grafa grunn Gagnfræðaskólans.

Þorsteinn Víglundsson ásamt nemendum sínum að grafa grunn Gagnfræðaskólans.

Til eru myndir (teknar af Gísla Friðrik Johnsen) af framkvæmdunum, sem sýna dugnaðinn og kraftinn sem að einkenndi vinnu unglinganna, kennaranna og læriföður þeirra Þorsteins. Bygging Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum reyndist ein hlutfallslega ódýrasta bygging sem að reist var á vegum hins opinbera á árunum eftir seinna stríð, hér á landi.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum fokheldur.

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum fokheldur.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja

Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja í Vestmannaeyjum er þriðja elsta steinkirkja á Íslandi, byggð á árunum 1774-1778. Kirkjan var teiknuð af hirðhúsameistaranum C.D. Anthon og telst vera barrok-kirkja.

Á árunum 1955-1959 voru forkirkjan og turninn sem að einkenna kirkjuna í dag, byggð. Þá var líka lagt yfir steingólfið og nýir bekkir smíðaðir. Þessar breytingar teiknaði Ólafur Á. Kristjánsson, fyrrum bæjarstjóri í Eyjum. Til eru einstakar myndir af þessum framkvæmdum sem að sýna kirkjuna með tveimur turnum á sama tíma og birtist ein þeirra hér að ofan.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Goðasteinn á árunum 1950-1960. Suðurhlið, horft í norður.

Goðasteinn

Goðasteinn á árunum 1950-1960. Suðurhlið, horft í norður.

Kirkjubæjarbraut 11 í Vestmannaeyjum, öðru nafni Goðasteinn, var byggt á árunum 1945-1947. Húsið er nefnt eftir Goðasteini í Eyjafjallajökli. Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum og kona hans Ingigerður Jóhannsdóttir byggðu húsið.

Til er mjög merkileg dagbók yfir byggingarsögu hússins á árunum 1945-1947, þar sem að gerð var grein fyrir hverri krónu sem að fór í húsbygginguna og sýnir hvernig menn byggðu húsin sín á þessum árum nánast frá grunni með eigin höndum. Þessi dagbók er varðveitt í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja með merku, yfirgripsmiklu einkaskjalasafni Þorsteins.

  • Úr bókhaldi Þorsteins Þ. Víglundssonar, vegna byggingar Goðasteins árin 1945-1947.
    Úr bókhaldi Þorsteins Þ. Víglundssonar, vegna byggingar Goðasteins árin 1945-1947.

Þorsteinn og Ingigerður bjuggu í húsinu fram að gosinu 1973, síðustu árin með dóttur sinni, tengdasyni og dætrum þeirra. Í kjallara Goðasteins fór lengi fram kennsla í meðferð véla, netabætingum og tóvinnu. Eftir gosið var húsið dæmt ónýtt vegna mikilla hitaskemmda, en seinna var það endurnýjað og er búið í því í dag.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Laufás

Laufás

Laufás, sem stóð við Austurveg 5, var eitt fallegasta hús í Vestmannaeyjum. Það var eitt af þeim fjölmörgu, merku og sögulegu húsum sem fóru undir hraunið í eldgosinu í Eyjum árið 1973. Húsið Laufás stóð við Austurveg 5 þar sem að áður stóð vestasti-Hlaðbær á Vilborgarstöðum.

Hjónin Þorsteinn Jónsson (1880-1965), en hann var einn af upphafsmönnum vélbátaútgerðar í Eyjum, og Elínborg Gísladóttir (1883-1974) fluttu að Laufási árið 1905 og keyptu lítið íbúðarhús sem þá stóð þar og Jón Ágúst Kristjánsson, söngstjóri Principalkórsins á árunum 1903-1905 hafði byggt. Sjö árum síðar, árið 1912, lét Þorsteinn rífa húsið og byggði nýtt hús sem stóð fram að gosi 1973.

Þorsteinn var dugmikill skipstjóri og er jafnframt þekktur fyrir bækur sínar, Formannsævi í Eyjum, sem er ævisaga hans og Aldahvörf í Eyjum, sem er útgerðarsaga Vestmannaeyja til ársins 1930.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Laufás var timburhús á steyptum kjallara með rúmgóðu risi og er til nákvæm lýsing á því úr fasteignamatsbók Vestmannaeyja frá 1918. Laufás var vinalegt hús málað með gulum hlýjum lit og hafði hvítmálaða gluggaröð á móti suðri. Yfirsmiður hússins var Magnús Ísleifsson frá London. Aðfararnótt 23. mars 1973 varð Laufás hrauninu að bráð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.