Eyrin í kringum 1907. Ljósmyndari Ingrid Hansen. Varðveitt í HSk.

Af minni efnum

Eyrin í kringum 1907. Ljósmyndari Ingrid Hansen. Varðveitt í HSk.

Eyrin IV
Hafliðabær
Brekkubær

Við Gönguskarðsárósinn á Sauðárkróki var nyrsta byggð þéttbýlisins sem var að myndaðist fyrir og um aldamótin 1900. Svæðið gekk alla jafna undir heitinu „Eyrin“. Ein af elstu myndum sem við eigum af Eyrinni er tekin árið 1907 en því miður sést ekki sá bær er hér er fjallað um.Við Gönguskarðsárósinn á Sauðárkróki var nyrsta byggð þéttbýlisins sem var að myndaðist fyrir og um aldamótin 1900. Svæðið gekk alla jafna undir heitinu „Eyrin“. Ein af elstu myndum sem við eigum af Eyrinni er tekin árið 1907 en því miður sést ekki sá bær er hér er fjallað um.
Húsin á Eyrinni voru ekki mörg og yfirleitt byggð af litlum efnum. Eitt þessara húsa var reist í kringum 1900 og byggt af Hafliða Gunnarssyni.

Hafliðabær í kringum 1940, lengst til vinstri. Ljósmynd frá Michelsen-fjölskyldunni, varðveitt á HSk.

Hafliðabær í kringum 1940, lengst til vinstri. Ljósmynd frá Michelsen-fjölskyldunni, varðveitt á HSk.

Það er erfitt að fjalla um heimili án þess að geta þeirra sem þar bjuggu. Í Sögu Sauðárkróks stendur að Hafliði sá er reisti bæinn árið 1900 hafi verið „geggjaður og þyngsti ómagi í Sauðárhreppi“. Fóstursonur hans, Sigurður Helgason, er sagður vera „flogaveikur aumingi“ og fékk síðar nefnið „krunkur“ (Saga Sauðárkróks I, bls. 198). Sigurður krunkur sá um að tæma kamra íbúanna á Sauðárkróki lengi vel. Í manntali ársins 1920 nefnist bærinn Brekkubær og búa þar hjónin Runólfur Jónsson, oft nefndur predikari, og Soffía Ólafsdóttir ásamt syni þeirra Lárusi.
Á ljósmynd úr fórum Andrésar Valbergs er að finna mynd af Hafliðabæ, sem er sennilega tekin um miðja síðustu öld (HSk, askja 594). Árið 1927 flytja í Hafliðabæ Gísli Jóhann Gíslason og fóstursystir hans Anna Sigríður Jónsdóttir en þau bjuggu í Hafliðabæ til dánardægurs. Á ljósmyndinni má sjá að Hafliðabær var með fjósbaðstofu, á neðri hæð var sem sagt fjós og fyrir ofan fjósið var íverustaður heimilisfólks. Þessi tilhögun á húsnæði var til þess að nýta ylinn frá skepnunum.

Hafliðabær.

Hafliðabær.

Andrés Valberg (1919-2002) var mikill safnari og hafði mikinn áhuga á fornmunum og bókum. Hann fór inn í Hafliðabæ eftir andlát fóstursystkinanna og lýsir ferð sinni þangað inn á eftirfarandi hátt:

Ég sem er forfallinn safnari, sérstaklega á  á forngripi var ég forvitin að líta yfir þetta dót, en hafði  slæma aðstöðu á nýlegum fólksbúl og í hreinum ferðafötum og bærinn læstur. Ég var kunnugur húsaskipan, því ég hafði komið inn til Gísla einu sinni. Ég komst inn um kofadyr sem voru vestaná bænum, þaðan inn í bakhús og inn í íbúðina sem var eldhúsbora, og suðurherbergið, þar sem gömlu hjúin höfðu verið milli 40- 50 ár [leiðrétting um 30 ár bjuggu þau Anna og Gísli í Hafliðabæ]. Þar var allt í röð og reglu. Bæði rúmin, sem voru föst á veggjunum með rúmfötum og breitt yfir með tíglóttum heimaofnum ábreiðum. Kommóða Önnu með hreinum samanbrotnum rúmfötum og öðrum fatnaði hennar. Þessi kommóða hafði verið rauðbrún með dekkri skúffum, fjórum að tölu, renndum fótum, sverum ca. 8-10 sm. Háum og útflúruðum köntum beggja megin að framan. Sennilega hefur þessi kjörgripur verið arfur frá forfeðrum hennar.  Undir glugganum hægra megin vara borð með renndum fótum. Hilla yfir rúmi Gísla var beint á móti stofuglugganum. Þar á var eitthvað smádót, en ekki var hægt að sjá nokkra lögun á því fyrir þykku, dökku ryklagi. Mig langaði til að sjá hvað þar væri, svo ég andaði djúpt að mér og blés af miklum krafti á rykið og flúði undan mekkinum fram í bakhúsið. Þar hékk forláta skreppu hesputré og fleira dót á bigum, kollur og kyrnur meðfram veggjum,og svo margt sem ég mátti ekki vera að að skoða, því ég vissi að konan beið mín með börnin hjá mínu fólki. Eftir nokkra stund fór ég inn á baðstofuna aftur, sem var þiljuð með panel, og bitar neðan í lofti, og loftgólfið ofan á þeim. Mjó stigakrækla var þar upp, sem ég laði ekki í að klifra. Ekki lagði ég heldur í að opna kjallaralúguna sem var undir stiganum með sverum koparhring til að taka í. Ég reiknaði með að í þessum vistarverum væru hlutir sem mig langaði til að eiga ogværi aðeins til að hryggja mig að geta ekki bjargað frá glötun. Það gat ég ekki með góðu móti.  Hafði ekki leyfi til að hirða þaðan neitt nema þá að stela því, og af þeirri söfnunaraðferð hef ég aldrei verið hrifinn.

Rykið var ekki allt fallið og settist á föt mín. Þó sá ég að á hillunni yfir rúmi Gísla gamla voru gleraugu hans með svigum innan við glerin. Undir þeim lá gamla vasablokkin hans, dökkbrún að elli og óhreinum  fingraförum. Lét ég duga að halda á þessu með mér, en þegar ég kom fram í dyrnar og leit yfir þetta gamla, yfirgefna heimili, rak ég augun í hlandkollu Gísla undir rúmi hans, eina af þessum ævafornum, sem girt var með þremur gjörðum og víðari að neðan. Ég hafði heyrt um þær talað, en aldrei reiknað með að eignast í mitt safn. Ég beygði mig og dró kolluna fram á gólf. Í henni var þykkur hlandsteinn, 1-1 1/2  sm. Ég leit gleraugun og síðustu leifar af andaagift þessa sérkennilega hagyrðings ofaní kolluna og fór út, hryggur og niðurlútur eins og ég væri að fylgja gömlum vini til grafar. Þegar ég gekk með feng minn, dýrmæta minjagripi um Gísla Lága, og sennilega þá einu sem gætu minnt á hérvist hans á vorri jörð datt mér í hug er ég lét kofahurina falla að stöfu, kannske í síðasta sinn. Vísa Ólínu Jónasdóttur er hún gerði, eina af morgum er gerðu heiili hennar, Krókagerði í Norðurárdal, Akrahreppi, ódauðlegt. Vísuna tautaði ég niður túnblettin að bílnum.

Auðna og þróttur oft má sjá
eru fljótt á þrotum.
Gakktu hljótt um garða hjá
gömlum tóftarbrotum.

Það var svo um árið 1990 að mikið hreinsunarafrek hefði verið framið í Skagafirði, þar sem gamla Gíslabænum (Hafliðabær), eins og hann var jafnan kallaður eftir að Gísli kom þangað, hefði verið rutt með jarðýtu af hólnum með jarðýtu af hólnum í lægð í túnblettinum norðan við, með öllu sem í var og þótti mikil landhreinsun. Þá voru Skagfirðingar búnir að losa sig við síðasta torfhúsið á eyrinni og um leið á Króknum. (Andrés Valberg, óskráð gögn, varðveitt á HSk).

Þess ber að geta að þeir munir sem Andrés tók eru nú geymdir á Byggðasafni Skagfirðinga.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

 

Brekkubær.

Brekkubær

Húsið var reist í brekkunni norðvestan við kirkjuna 1920 og bjó þar lengst af Stefán Guðmundsson (1860-1952) sem keypti bæinn 1922, Ewald Sæmundsen hafði látið reisa hann.

F.v. Páll Valdimar Guðmundsson Kolka (1895-1971), Björg Kolka Haraldsdóttir (1944), Ingibjörg Guðlaug (Þórðardóttir?), Guðbjörg Guðmundsdóttir Kolka (1888-1974), Barnabarn Páls Kolka, Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996), Gunnlaugur Einar Snædal (1924-2010).

F.v. Páll Valdimar Guðmundsson Kolka (1895-1971), Björg Kolka Haraldsdóttir (1944), Ingibjörg Guðlaug (Þórðardóttir?), Guðbjörg Guðmundsdóttir Kolka (1888-1974), Barnabarn Páls Kolka, Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996), Gunnlaugur Einar Snædal (1924-2010).

„Ýmsir sjúklingar eru mér minnisstæðir, t. d. Stebbi straumur, sem svo var kallaður. Það var hann, sem Kjarval málaði af alveg meistaralegt málverk. Kjarval var einhvern tíma gestur hjá læknishjónunum og kynntist Stebba á sjúkrahúsinu. Stebbi hafði stórar hendur og pataði með þeim út í loftið, þegar hann var alltaf að tala um hvítu merina sína, sem hann hefur ef til vill einhvern tíma átt. Á myndinni sat Stebbi á hvítu merinni með englameyjarnar kringum sig og dýr merkurinnar hér og þar. Kallaði Kjarval málverkið „Hugmyndaflugið hans Stebba“.“ Viðtal við Önnu Reiners (myndin birtist nýlega í sjónvarpinu þar sem fjallað var um Kjarval).

F.v. Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996) og Filippía Magnea Björnsdóttir (1885-1969).

F.v. Berta Andrea Jónsdóttir Snædal (1924-1996) og Filippía Magnea Björnsdóttir (1885-1969).

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu.