Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum nýbyggður.
Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum var byggður á árunum 1946-1956 og það er merk og mikil saga á bak við verkið, sem að mestu leyti er tengd persónu Þorsteins Þ. Víglundssonar, skólastjóra.
Meðan á framkvæmdum stóð átti bygging skólans hug hans allan og barðist hann með kjafti og klóm fyrir hverri einustu krónu sem að fór í að reisa húsið. Dæmi um baráttuna er sú staðreynd að þegar að þurfti að grafa fyrir grunni skólans og leikfimisalarins, tók skólastjórinn sig til ásamt nemendum og kennurum, og grófu þau sjálf fyrir grunninum með eigin höndum.
Til eru myndir (teknar af Gísla Friðrik Johnsen) af framkvæmdunum, sem sýna dugnaðinn og kraftinn sem að einkenndi vinnu unglinganna, kennaranna og læriföður þeirra Þorsteins. Bygging Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum reyndist ein hlutfallslega ódýrasta bygging sem að reist var á vegum hins opinbera á árunum eftir seinna stríð, hér á landi.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.