Verkamannabústaðir við Hringbraut.

Byggingafélag verkamanna í Reykjavík

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur má finna mörg áhugaverð gögn sem má nýta til rannsóknar á sögu húsa í Reykjavík. Þar má meðal annars finna áhugaverð skjöl varðandi byggingu fyrstu verkamannabústaðanna á árunum 1931-37, en Byggingafélag verkamanna var stofnað árið 1929. Héðinn Valdimarsson var flutningsmaður frumvarpsins um lög um verkamannabústaði, en hann var einnig formaður Byggingafélags verkamanna í Reykjavík til ársins 1946.

Upphaflega hét félagið „Byggingafélag verkamanna í Reykjavík“, en síðar var því breytt í „Byggingafélag alþýðu“ og að lokum í „Húsfélag alþýðu“. Í öllum tilfellum tengdist nafnabreytingin breyttum lögum um verkamannabústaði. Félagið byggði 172 íbúðir í Vesturbænum í þremur áföngum á árunum 1931 til 1937, þar til lögum um verkamannabústaði var breytt árið 1939, sem varð til þess að félagið fékk ekki lengur lán úr byggingasjóði verkamanna.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.  Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.
Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Húsameistarar ríkisins, Guðjón Samúelsson og Gunnlaugur Halldórsson teiknuðu húsin, ásamt Einari Erlendssyni. Skipulag húsanna og fyrirkomulag þeirra á reitnum var á sínum tíma mjög í samræmi með ríkjandi hugmyndir í skipulagsmálum, sem gerði ráð fyrir samfelldum röðum tveggja og þriggja hæða steinhúsa meðfram flestum götum, víða með stóru aflokuðu svæði í miðju húsareitanna. Á lokaða svæðinu milli húsanna var gert ráð fyrir sameiginlegum barnaleikvelli og almenningssvæði. Einnig var gert ráð fyrir litlum bakgarði við hvert hús. Fjórar íbúðir voru í hverju húsi, með sameiginlega þvotta- og þurrkaðstöðu í kjallara. Við byggingu verkamannabústaðanna var gert ráð fyrir ýmsum nútímaþægindum, eins og rafmagnseldavél og baðherbergi. Einnig var fjarhitun í íbúðunum í gegnum tvær miðstöðvar og þar með heitt rennandi vatn í krönum. Fyrir verkamenn á 4. áratugi 20. aldar voru þetta ótrúleg nútímaþægindi, sem hingað til höfðu ekki þekkst hjá þeim efnaminni.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Skipulag verkamannabústaðanna var í anda fúnkisstefnunnar. Þeir arkitektar sem fylgdu henni, vildu bæta þjóðfélagið með góðri hönnun og útrýma heilsuspillandi húsnæði. Markmið fúnkisma var að útrýma óþarfa skrauti og flúri og hafa hreinleika og nýtingu að leiðarljósi.

Á Borgarskjalasafninu má finna fundargerðarbækur félagsins allt frá árinu 1930 til ársins 2002, bréf, reikninga, kaupsamninga og aðrar upplýsingar er tengjast Byggingafélagi verkamanna í Reykjavík.

Höfundur: Margrét Hildur Þrastardóttir

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

 

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Geislandi kona við Birkimel

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Borgarskjalasafn hefur á undanförnum árum sérstaklega leitast eftir að fá til varðveislu skjalasöfn kvenna, enda hafa færri skjalasöfn kvenna varðveist í gegn um tíðina.

Eitt af áhugaverðum skjalasöfnum sem hafa borist er safn Hólmfríðar Ólafsdóttur Kragh og Kristjáns bróður hennar. Hólmfríður var í daglegu tali kölluð Fríða Kragh og fæddist 29. ágúst 1913 í Reykjavík. Skjalasafnið nær yfir árin 1908 til 199 og er fjölbreytt að efni, meðal annars sendibréf, ljósmyndir og fleira efni.

Hólmfríður giftist árið 1933 Hans Kragh, tæknifulltrúa hjá Símstöðinni í Reykjavík. Hans hóf ungur störf hjá Landsímanum og því eru margar ljósmyndir í safninu tengdar ferðalögum vegna starfs hans.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Hólmfríður og Hans bjuggu megnið af sínum hjúskap á Birkimel 6B, 3. hæð til hægri. Kristján bróðir hennar bjó hjá þeim þar til hann keypti íbúð í sama húsi, 1. hæð til vinstri. Það var því mikill samgangur á milli þeirra systkinanna og Hans. Fjölbýlishúsið Birkimelur 6 var byggt af Byggingarfélagi símamanna og í safninu er mikið af skjölum sem tengjast byggingu hússins, fjármögnun og samningum um kaup á íbúðunum.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Í safni þeirra er töluvert af ljósmyndunum af húsinu að Birkimel og fögru heimili þeirra hjóna. Í gegnum minningargreinar um Fríðu má lesa hversu ástfangin og samhent hjónin voru. Fríða var heimavinnandi og gekk Hans í hverju hádegi Suðurgötuna meðfram gamla kirkjugarðinum til að hitta Fríðu, borða með henni og ræða málin.

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6.

Fríðu er þannig lýst í minningargreinum að hún hafi haft yfir sér heimsborgaralegt yfirbragð og framkoma hennar verið “elegant” og fáguð. Hún hafi verið geislandi falleg, brosmild og jákvæð.

Í ljósmyndum sem fylgja safninu er töluvert af ljósmyndum af þeim hjónunum og heimili þeirra að Birkimel 6 og má sjá nokkrar þeirra hér.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Varðveisla á skjalasöfnum einstaklinga er mikilvæg, sérstaklega ef þau eru heilleg og þau gefa aðra sögu af lífi fólksins í borginni en opinberu skjölin.

Fríða Kragh lést þann 22. júní 1997.

Höf: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.