Óskarsbraggi á Raufarhöfn.

Óskarsbraggi/Óskarsstöð á Raufarhöfn

Óskarsbraggi er staðsettur á fallegum stað nálægt höfninni, með útsýni yfir hafið og Höfðann. Óskar Halldórsson síldargrósser reisti fyrsta hluta þessa húss 1949 og lauk byggingunni 1950. Timbrið kom með skútu í eigu Óskars. Mögulega er þetta síðasta húsið sem sótt er með seglskipi til Noregs eins og tíðkast hafði með mörg íslensk stórhýsi allt frá miðöldum. Í húsinu voru um 22 svefnherbergi (fyrir 2-6), því má ætla að 80-100 manns hafi haft þar aðsetur þegar síldarumsvifin voru mest á Raufarhöfn. Árið 2008 var húsið orðið lélegt og hætt að þjóna hlutverki sínu sem í seinni tíð hafði verið hrognkelsavinnsla og veiðafærageymsla, þá er það að nokkur hópur áhugamanna tekur húsið að sér til að bjarga því frá glötun. Það mikla verk hefur staðið óslitið síðan. Húsið er að fullu klætt að utan og allir nýir gluggar komnir í það en eftir að setja fög og falda í síðasta áfanga að utan. Hugmyndin er að nýta húsið á fjölbreytilegan hátt undir gestavinnustofur, sýningahald, námskeið og fleira tengt listum.

Óskar Halldórsson er talinn er að einverju leyti fyrirmynd Bersa Hjálmarssonar (Íslandsbersa) í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness. Í bókinni Til fundar við skáldið Halldór Laxness, sem kom út 2007, segir Halldór um bókina Guðsgjafaþula:

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Bókin er skáldskapur en ég hef aldrei farið í launkofa með það að þegar ég sauð saman Íslandsbersa hafði ég til fyrirmyndar víða í Guðsgjafaþulu gamlan kunningja minn, Óskar Halldórsson, útgerðarmann og síldargróssera, sem ég kynntist allvel í Kaupmannahöfn á ungum árum mínum. En þetta er vitaskuld ekki ævisaga Óskars Halldórssonar. Óskar var afskaplega flott maður og stór í sniðum, alltaf sama stórmennið hvort sem gekk vel eða illa í síldarbraskinu. Hann var höfðingi á alla lund, hafði mikla risnu og bjó aldrei á lágt standandi hótelum. Hann var bunandi mælskur og sannfærandi, hafði mikla en dálítið framandi geislun og veittist auðvelt að töfra fólk í návist sinni. Ýmislegt keimlíkt má segja um Íslandsbersa. Menn mega þó ekki slá því föstu að það sem drífur á daga Íslandsbersa í Guðsgjafaþulu hafi endilega komið fyrir Óskar, þann stóra mann.

Þegar Halldór er spurður hvort Bersi sé ekki líkur Óskari á margan hátt svarar hann:

Þeir voru báðir miklir áhættumenn sem höfðu unun af spákaupmennsku og veðmálum. Þetta voru sannir síldarkóngar, milljónerar einn daginn, blásnauðir þann næsta. Þeir áttu það sammerkt að hafa farið margsinnis á höfuðið í síldartöpum en komist á fæturna að nýju í hvert sinn. Báðir lentu í stóra krakkinu sem kallað var, verðhruninu á síldinni 1920. Einstakt lán að ég skyldi kynnast persónulega svo stórbrotnum manni sem Óskari á þeim dögum. Ég skil enn ekki hvernig hann kom upp í hendurnar á mér; við hrærðumst sinn í hvorum heiminum. Ég var varla samboðinn svona stórlaxi, auralaus og allslaus, – átti varla túskilding með gati!

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

 

Svartárkot 1932.

Endurminningar úr Svartárkoti

Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna skjalið E-496/10 Endurminningar úr Svartárkoti eftir Jón Frímann Einarsson bónda í Reykjahlíð. Jón Frímann var fæddur 11. maí 1871 og lést 20. mars 1950. Faðir Jóns, Einar Friðriksson, flutti í Svartárkot vorið 1871. Þar bjuggu þau fram til 1894 er þau seldu Svartárkot og keyptu hluta Reykjahlíðar í Mývatnssveit.

Jón Frímann Einarsson.

Jón Frímann Einarsson.

Í endurminningunum rifjar Jón Frímann m.a. upp heimaslátrun í Svartárkoti:

Venjulega var slátrað á haustin, sauðum, en eftir að farið var að selja þá á fæti var minna um að þeim væri slátrað heima. Haustið 1878 var fyrst selt fé á fæti á Úlfsbæ, þá var þó slátrað heima:

8 sauðum sem gerðu að meðaltali 30 kg ket og 9 kg mör.
2 ám geldum —-II—- 29,5 kg —-II—- 10 kg —-II—-
4 lambáum —-II—- 27,5 kg —-II—- 8 kg —-II—-
6 ám mylkjum —-II—- 23,5 kg —-II—- 5,3 —-II—-

Sennilega hefur verið slátrað fleiru þetta haust þó ég hafi ekki skýrslu um það. Þegar sauðir voru valdir úr til heimaslátrunar var þreifað á þeim framan undir bógnum hvað tuggan væri mikil því eftir því var talið að mörinn væri. Þegar slátrað var átti að vanda sig við það að taka sem stærsta magála. Mörinn var settur saman volgur í sérstakan skjöld úr hverri kind og geymdur stundum dálítið lengi og ekki talið saka þó hann væri farinn að freyra þegar hann var bræddur og hamsinn yrði þá minni.

Þegar farið var að vaka við ljós á kvöldin fóru piltarnir að brytja mörinn, að því búnu kom bræðsludagurinn og var það hátíðardagur fyrir okkur krakkana sem minnti á jólin því þá voru Jólakertin steypt og líka hlökkuðum við til að fá hamsann. Kertinn voru steypt þannig: lykkja úr ljósagarni var látin á prón sinn á hvern enda hans. Þessum lykkjum var svo dýpt ofan í tólgarpottinn til skiptis þangað til kertin þóttu vera orðin nógu væn. Á milli þess sem lykkjunum var drepið ofan í tólgina voru þær hengdar upp á rá sem var yfir pottinum. Tvö kerti voru á hverjum prjón og þeir hafðir svo margir sem tala kerta var sem steypa átti. Móðir mín var vanalega sjálf við að steypa þau.

Þegar búið var að bræða var tólgin látin í ærbelgi (af vænum ám) og þeir flattir sem mest út. Þegar búið var að láta í þá og binda fyrir svo þeir færu sem best í klyfjum eða sleða. Vanalega var látið í 2 til 3 belgi og mun hver hafa verið 60 – 65 kíló. Alla bótuggur og huppa svo og önnur feiti innan úr skrokknum var brytjað og haft í blóðið til að spara mörinn svo tólgin yrði sem mest(ur), því hann var þá þýðingarmikið verslunarinnlegg.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

 

Kvíabekkur 1921. Mynd: Ljósmyndasafn Þingeyinga

Kvíabekkur

Kvíabekkur heitir efsta húsið í skrúðgarðinum á Húsavík. Torfbær upphaflega, reistur 1893 af hjónunum Baldínu Hallgrímsdóttur og Jósep Kristjánssyni. Ekki eru til heimildir um byggð á þessum stað fyrr og samkvæmt fasteignarmati frá 1930 samanstendur torfbærinn af þremur burstum. Íveruhús með baðstofu og eldhúsi, bæði alþiljuð og með timburgólfum, gangur og geymsluhús og óþiljaðar bæjardyr, fjárhús fyrir 30 kindur og heyhlaða eru áföst bænum. Þessar tvær burstir eru úr torfi og með þaki úr borðum og járni. Um er að ræða frekar “hefðbundinn” alþýðu burstabæ frá þeim tíma. Tekið er fram að íveruhúsið er úr torfi, veggir og þak og tvær stafnhyrnur úr timbri. Þetta útlit má glögglega sjá á ljósmynd af Kvíabekk frá árinu 1921 (sjá mynd að ofan).

Framhúsið og tóftir við það eru mjög áhugaverð heimild um byggingarsögu húss á Íslandi. Húsið er sennilega eitt af fáum framhúsum sem eftir standa í Þingeyjarsýslum og það eina sem enn stendur á Húsavík.

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951.

Búið var í húsinu til ársins 1979, en sveitafélagið keypti húsið um það leyti og gerði það að hluta af Skrúðgarðinum sem var stofnaður árið 1975. Framkvæmdir við að gera upp Kvíabekk hófust 2011. Hugmyndir um að gera upp Kvíabekk höfðu lengi verið undirliggjandi í hugum starfsmanna Skrúðgarðsins en fóru fyrst verulega að formast upp úr 2010. Til að tryggja að heimildir myndu varðveitast um útlit húsanna áður en endurgerð hófst voru alla byggingar sem þá stóðu mældar upp og teiknaðar vorið 2011. Vorið 2014 var sótt um leyfi hjá Minjastofnun til að taka niður og síðan endurbyggja torf- og grjótveggi fjárhús- og hlöðurústanna. Minjavörður Norðurlands eystra veitti leyfi til að taka veggina niður. Í framhaldi af því voru þeir mældir og myndaðir, og síðan um sumarið voru rústirnar teknar niður og bílskúrinn rifinn.

Kvíabekkur um 1975

Kvíabekkur um 1975.

Kvíabekkur 2015

Kvíabekkur 2015.

Verkefnið hefur að stórum hluta verið fjármagnað af Norðurþingi, en verkefnið hefur í tvígang hlotið styrk frá Minjastofnun Íslands.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.