Húsmæðraskólinn á Hallormsstað

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað – skólaheimili innréttað

Sigrún Pálsdóttir Blöndal við skriftir.

Sigrún Pálsdóttir Blöndal við skriftir.

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað tók til starfa 1930. Brautryðjendur að stofnun hans voru þau hjónin frú Sigrún og Benedikt Blöndal. Skólahúsið var byggt á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Jóhanns Franklíns Kristjánssonar. Yfirsmiður byggingarinnar var Guðjón Jónsson trésmiður á Reyðarfirði. Skólahúsnæðið var ekki fullklárað þegar skólinn tók til starfa og á næstu árum var unnið við að smíða innréttingar og fleira. Eftirfarandi eru ítarlegir kaflar um framkvæmdir skráðir af Sigrúnu Blöndal forstöðukonu.

Úr skýrslu 1930-1931

Þegar skólinn tók til starfa 1. nóv. vantaði mikið á að skólahúsið væri fullbúið. Leiddu af því ýmis óþægindi fyrir nemendur og kennara og nokkur töf varð að því við nám og kennslu. Þannig voru engin svefnherbergi fullbúin, og ekki handavinnustofa. Var því til bráðabirgða búið um nemendur á fjalabekk í baðstofunni og sváfu flestar þar á flatsængum, þangað til 22. nóv. að svefnherbergin voru svo búin að flytja mátti í þau, 25. s.m. var slegið upp skilrúmi milli kennslustofunnar og skrifstofu forstöðukonu. En baðstofan (en svo er vinnustofa skólans nefnd) var ekki fullbúin fyr en um hátíðir. Er það hið prýðilegasta hús. Þiljað innan með kvistlausri furu, sem unnt var. Súðin ferniseruð. Gluggar á stöfnum og suðurhlið. Af þessu leiddi það, að vefnaðarkennsla gat ekki byrjað fyr en eftir áramót, svo nokkru næmi. Að vísu voru settir upp vefstólar niðri í kjallara fyrir jól, en ekki varð það að miklu liði. Saumakennsla var í skólastofunni fram að jólum, mestmegnis hannyrðir. En er kennsla byrjaði aftur eftir jólafríið var flutt öll handavinnukennsla í baðstofuna og unnið þar með 8 vefstólum, 1 prjónavél og 3 saumavélum.

Dagstofa skólans, sem jafnframt verður samkomusalur hans, varð ekki notuð fyr en að nokkru undir vor, því gólf var ekki lagt í hana fyr. Voru því allar skemmtanir og kvöldvökur þangað til í skólastofunni. Margir smiðir unnu hér fram að jólum og 1 smiður allan veturinn. Vann hann að skápasmíði í eldhúsi og búri og var því fulllokið í vor og einnig í baðstofu, en fyrir þá skápa vantar hurðir. Nokkur borð smíðaði hann líka í vinnustofu og svefnherbergi.

Baðstofan. Ljósmynd: Sveinn Guðnason.

Baðstofan. Ljósmynd: Sveinn Guðnason.

Úr skýrslu 1931-1932

Á þessu ári var nokkuð unnið að því að ljúka skólabyggingunni. Sumarið 1931 var húsið “pússað af” utan. Vann Guðni Þorsteinsson múrari mestmegnis að því undir umsjón Guðmundar Þorbjarnarsonar, er haft hafði forstöðu á öllu múrverki byggingarinnar. Um haustið setti Guðm. upp arinn í “Höllina”, en svo er dagstofa skólans nefnd. Þá flíslagði hann veggi í eldhúsi, búri, baðstofu og mjólkurhúsi, og færði eldstórnar á betri stað í eldhúsinu og hagkvæmara en verið hafði.

Um veturinn voru hér 2 smiðir, þeir Ósvald Nielsen bóndi í Gíslastaðagerði og Karl Ólafsson frá Urriðavatni. Unnu þeir að ýmiskonar smíðum innanhúss. Þetta var hið helzta er þeir gerðu: Smíðuð borð, bekkir og bókahillur í litlu baðstofurnar á háaloftinu. Smíðaðir þvottaskápar í Línbúðina og hún máluð. Er það nú bæði snoturt herbergi og haganlegur útbúnaður til snyrtingar á þvotti, stórt borð til að brjóta þvott, 2 strokborð, og svo þvottaskápar 12, með öðrum hliðarvegg herbergisins, hver með 3 hillum, er hverjum nemanda ætluð 1 hilla. Þá var þiljuð forstofa og smíðaðar þar hillur.

Í Eldhús voru smíðuð 2 matborð og bekkir og vinnuborð bæði í eldhús og baðstofu. Þá voru að lokum smíðaðir bekkir fastir í Höllina með stoppuðu baki og sæti. Eru það 3 hornbekkir og 1 bekkur fyrir miðjum vegg. Eru bekkirnir fóðraðir með heimaofnu Salóni úr ull. Þvottaskálarnar 2, sem voru í horninu undir stiganum voru teknir burt og hornbekkur settur þar í staðinn. En þvottaskálarnar voru fluttar í gestaherbergi og svefnherbergi forstöðukonu og vatn leitt inn í þau herbergi, 3 borð voru smíðuð í “Höllina”. Er að þessu öllu hin mesta hýbýlaprýði og þægindi. Þá málaði Guðjón Jónsson, yfirsmiður skólabyggingarinnar, Höllina, og gaf þá vinnu skólanum. Sömuleiðis var málað eldhúsið með skápum, borðum og bekkjum.

Úr skólaskýrslu 1931-1932.

Úr skólaskýrslu 1931-1932.

Sjá einnig grein um daglegt líf í skólanum.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

 

Skólastúlkur.

Daglegir hættir í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað var settur í fyrsta sinn 1. nóvember 1930. Nemendur þennan fyrsta vetur voru 20 og var kennt í tveim deildum. Í ársskýrslu 1930-1931 kemur fram að kennarar við skólann voru Sigrún P. Blöndal forstöðukona, Guðrún Jensdóttir settur kennari og Benedikt Blöndal aukakennari. Athygli vekur að kennslugreinar snéru ekki aðeins að heimilishaldi heldur einnig bóklegum greinum:

Forstöðukona kenndi íslenzku í báðum deildum, dönsku í eldri deild, heilsufræði og vefnað í yngri deild.
Guðrún Jensdóttir kenndi matreiðslu, hússtjórn og matarfræði í eldri deild og ræstingu í báðum deildum.
Margrét Guðmundsdóttir kenndi hannyrðir og fatasaum í báðum deildum, dönsku í yngri deild og þvott og aðgerð á fötum í báðum deildum.
Benedikt Blöndal kenndi reikning og efnafræði í yngri deild og bókfærzlu í eldri deild.

Auk þess kenndi Sigríður Vilhjálmsdóttir vélprjón mánaðartíma í yngri deild og Ingibjörg Vilhjálmsdóttir aðstoðaði við vefnaðarkennslu í 3 vikur. Guttormur Pálsson kenndi reikning í 6 vikur í forföllum Benedikts Blöndals.

Höllin var samkomustaður í húsinu.

Höllin var samkomustaður í húsinu.

Skólastúlkur voru vaktar klukkan hálf átta á morgnana og síðan tók við dagskrá og kennsla allt fram á kvöld. Nemendur áttu að vera komnir til náða klukkan 11 á kvöldin.

Úr skýrslu 1935-1936.

Úr skýrslu 1935-1936.

Að ýmsu er að hyggja á stóru heimili. Listi yfir haustverkin er áhugaverður:

Úr dagbók 1951 - 1952.

Úr dagbók 1951 – 1952.

Skólinn starfar enn árið 2017 en heitir nú Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.

Að störfum í eldhúsi.

Að störfum í eldhúsi.

Lesa má um innréttingar og smíði skólahússins í annarri grein hér á vefnum.

Ljósmyndir: Sveinn Guðnason.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.