Ljósmyndin er tekin af Sveinbirni Jónssyni á Sunnuhvolstúninnu

Annarskonar heimili í kjölfar náttúruhamfara

Dalvíkurskjálftinn, eða skjálftarnir öllu heldur, ættu að vera flestum kunnir. Þeir stóðu yfir nokkurra mánaða tímabil þó sá stærsti hafi hrist jörðina þann örlagaríka laugardag 2. júní árið 1934. Talið er að nánast hvert einasta hús á Dalvík hafi ýmist stórskemmst eða eyðilagst í hamförunum.

Það má segja að ásýnd Dalvíkur hafi tekið miklum breytingum strax í kjölfar skjálftanna enda bæði fallin hús, sprungin og önnur að hruni komin hvert sem litið var. Fjölmargir misstu heimili sín líkt og hendi væri veifað og samhliða því hvarf allt öryggi sem jafnan fylgir því að eiga sinn griðarstað. Það má hreint ótrúlegt teljast að engin alvarleg slys hafi orðið á líkömum fólks, en sennilega verður hið sama ekki sagt um andlega líðan þeirra sem voru á staðnum enda lifir minningin enn í fersku minni eldri Dalvíkinga.

Strax seinnipart dagsins sem skjálftinn reið yfir var hafist handa við að reisa tjöld fyrir fólk sem stóð uppi húsnæðislaust auk þess sem margir óttuðust að fleiri skjálftar væru yfirvofandi. Þó að að flest húsþök bæjarins héngju uppi var það oft aðeins á bláþræði og ekki þótti öruggt að dvelja innan þeirra flestra ef einhverra eftirskjálfta væri von.

Þegar fólk hafði áttað sig á því hvað hafði í gerst í raun og veru reyndu margir að bjarga munum og öðru heillegu úr húsum sínum með misjöfnum heimtum. Nærri 200 manns stóðu uppi húsnæðislaus og höfðu þau flest safnast saman undir berum himni í tjaldbúðum þar sem allir gátu hjálpast að.

Matmálstímar urðu flóknari en áður þar sem mikið af leirtaui og eldunaráhöldum hafði brotnað í skjálftanum. Fólk aðhafðist að mestu undir berum himni en til allrar hamingju viðraði vel á þessum tíma sem gerði allt óneitanlegra léttara um vik.

Hér verðir drepið niður í Sögu Dalvíkur þar sem landslagi Dalvíkur eru gerð ágæt skil þann 3. júní 1934.

Þeir voru fáir sem hvíldust í húsum inni aðfaranótt 3. júní, en sem betur fór var veður hið bezta þá og næstu daga. Bjarki Elíasson lýsir fyrsta málsverðinum daginn þann: Júlíus í Sunnuhvoli og Egill sonur hans voru með útgerð og áttu því stór segl, sem notuð voru til þess að breiða yfir saltfisk, sem verið var að þurrka. Voru nú sett upp tjöld úr þessum seglum á túninu fyrir sunnan Sunnuhvol og þangað fluttu fjölskyldurnar úr Víkurhóli og Sunnuhvoli; og voru sængurfötin flutt þangað. Mér er minnisstæð máltíðin, sem var sameiginlega framreidd daginn eftir. Um nóttina höfðu góðir menn farið á sjó og skotið æðarfugl, plokkað og sviðið, og var svo allt soðið í stórum þvottapotti, og súpa gerð úr soðinu. Fátt var um diska eða bolla, því mest af því brotnaði. Voru menn því með fuglinn í höndunum, en súpuna í dósum og hverju því sem að notum mátti koma. Til þessarar mátíðar mættu allir úr nágrenninu.
(Kristmundur Bjarnason, 1984: 214-215).

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson. Myndin er tekin á Sunnuhvolstúninu og á myndinni eru f.v. Hrönn Kristjánsdóttir, María Júlíusdóttir, Hreinn Jónsson, Jón Arngrímsson, Frímann Sigurðsson, Hallfríður Sigurjónsdóttir, Arna Jónsdóttir, Svanbjörg Jónsdóttir, Lovísa Jónsdóttir og Snjólaug Valdimarsdóttir

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson. Myndin er tekin á Sunnuhvolstúninu og á myndinni eru f.v. Hrönn Kristjánsdóttir, María Júlíusdóttir, Hreinn Jónsson, Jón Arngrímsson, Frímann Sigurðsson, Hallfríður Sigurjónsdóttir, Arna Jónsdóttir, Svanbjörg Jónsdóttir, Lovísa Jónsdóttir og Snjólaug Valdimarsdóttir.

Það var þó ekki aðeins í tjöldum sem fólk bjó sér til ný heimili heldur máttu um 30 manns úr fjölskyldum Kristjáns Jóhannessonar, Sigurjóns Valdvinssonar, Sveinbjörn Vigfússonar, Jóhanns Þorkelssonar og Jóhanns Jónssonar gera sér heimili í fiskhúsi kaupfélagsins. Enn aðrar fjölskyldur gerðu sig heimakomnar í gamla barnaskólanum en seinna meir var skólahúsið ætlað sjúklingum ef til þyrfti að taka.

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér gefur að líta ljósmynd úr Hvömmunum. F.v. er mötuneytusskáli jarðskjálftanefndar, bíll Þorsteins Jóhannessonar, Barð, Árhóll og sjóhús Friðleifs og Jóhanns

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér gefur að líta ljósmynd úr Hvömmunum. F.v. er mötuneytusskáli jarðskjálftanefndar, bíll Þorsteins Jóhannessonar, Barð, Árhóll og sjóhús Friðleifs og Jóhanns.

Það má með sanni segja að allir hafi lagst á eitt, en allar þær björgunaraðgerðir sem unnar voru hefðu aldrei verið mögulegar ef ekki allir bæjarbúar hefðu lagt sitt að mörkum og unnið saman að endurbótum. Öll skýlin þar sem fólk gat leitað skjóls voru reist á aðeins örfáum dögum með styrk heimamanna og sjálfboðaliða frá nærumhverfnu. Nærliggjandi sveitafélög sendu m.a. tjöld og segl og auk þess barst aðstoð frá ríkisstjórninni og hinum ýmsu forustumönnum þjóðarinnar. „Kristján Jónsson bakarameistari á Akureyri sendi 135 kg af hörðu brauði, 500 kg af smjörlíki bárust frá Smjörlíkisgerð Akureyrar og eldhúsáhöld fyrir 1250 krónur frá Mjólkursamlagi Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt“.

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér mjá sjá fremst Laxamýri en vinstra megin er Brimnes og Upsir

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér mjá sjá fremst Laxamýri en vinstra megin er Brimnes og Upsir.

Húsasaga Dalvíkur markast að miklu leyti við uppbyggingu eftir Dalvíkurskjálftann þar sem þá hefst stórfelld endurnýjun húsakosts á Dalvík og í nærliggjandi sveitum. Í Sögu Dalvíkur segir að húsakostur hafi verið einn sá besti sem þekktist í norðlenskum byggðum um árið 1940. (Kristmundur Bjarnason, 1984: 226). Á meðan mörg hús voru gerð upp voru önnur reist algerlega að nýju. Önnur enduðu lífdaga sína í skjálftanum. Þrátt fyrir að endurreisnarstarfið hafi gengið vonum framar verður þessi ógurlega lífsreynsla ekki tekin úr huga fólks og hefur hún mótað bæjarfélagið í heild sinni. Enn í dag má heyra fólk í daglegu tali ræða fyrir og eftir skjálfta á kaffistofum og samkomustöðum bæjarins.

Heimildir

  • Ljósmyndir úr safni Héraðsskjalasafns Svarfdæla.
  • Kristmundur Bjarnason. (1984). Saga Dalvíkur (3). Dalvík: Dalvíkurbær. (blaðsíður 200-227).

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla.