Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Glæsivellir

Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Árið 1911 voru Þórhannes Gíslason og Þóra Benónía Jónsdóttir kona hans, ásamt sex börnum þeirra og móður Þóru flutt fátækraflutningum úr Ögurhreppi við Djúp til Miðdalahrepps í Dölum. Þórhannes hafði átt meirihluta ævi sinnar heima við Ísafjarðardjúp, en flutti sig þar milli hreppa eftir því hvar vinnu var að fá og náði þannig aldrei tilskyldum 10 árum til sveitfestu. Sveitfesta húsbóndans réði þá til um framfærsluskyldu allrar fjölskyldunnar.

Á þessum tíma var ekki óalgengt að fjölskyldum á framfærslu hreppsins væri skipt upp milli heimila. Hreppsnefnd Miðdalahrepps ákveður þess í stað að byggja yfir fjölskylduna og freista þess að Þórhannes nái að vinna fyrir fjölskyldunni. Fær býlið nafnið Glæsivellir og er í landi Sauðafells. Byggð var þriggja stafgólfa þiljuð baðstofa, gangur inn með hlið bæjarins og lítið hlóðaeldhús.

Rústir Glæsivalla undir Sauðafelli. Ljósm. Valdís Einarsdóttir október 2017.

Rústir Glæsivalla undir Sauðafelli. Ljósm. Valdís Einarsdóttir október 2017.

Fyrsti veturinn á Glæsivöllum var þolanlegur framan af. En síðari hluta vetrar gerði asahláku á svellaða jörð og flæddi keldan heim og inn í bæinn. Eftir miklar vangaveltur var tekið til þess ráðs að rífa torfveggina utan af bænum. Safnað var hópi manna úr sveitinni og öllum tiltækum reipum. Bundið var um fótstykkið á bænum og hann borinn á betra bæjarstæði. Þar voru aftur hlaðnir torfveggir, byggður gangur og eldhús og sett kabísa í baðstofuna.

Í þessu húsi bjó fjölskyldan næstu árin, en þó ekki áfallalaust. Þrjú elstu börnin fara að vinna fyrir sér um fermingu. Yngsta dóttirnin hafði dottið ofan í pott með sjóðandi vatni og var örkumla, hún var fyrst í Bæ, en endar á Vífilsstöðum. Húsfreyjan deyr 1916 og tveir yngstu bræðurnir einnig árið eftir. Þegar fjölskyldan flytur frá Glæsivöllum 1919 er þau tvö eftir í heimili, Þórhannes og Ingibjörg tengdamóðir hans.

Heimildir

Bréfa- og fundargerðarbækur Miðdalahrepps. Prestþjónustubækur Suðurdalaþings. Skjalasafn Guðmundar Baldvinssonar. Kristín Ágústsdóttir og Hörður Haraldsson á Sauðafelli 16.10.2017.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu.