Þegar sr. Matthías Jochumsson og fjölskylda flutti til Akureyrar árið 1887 settust þau að í Aðalstræti 50. Í desember 1902 flutti Gjallarhorn Akureyringum þær fréttir að Matthías hyggðist næsta vor byggja íbúðarhús í brekkunni fyrir sunnan og ofan Bergsteinshús (Hafnarstræti 88). Blaðið heldur áfram og segir „Það verður í fangið að sækja, „upp á sigurhæðir“, fyrir þá, sem heimsækja hann“. Þarna var vísað til vísu sem Matthías orti í Lundúnum 1873. Nafnið festist við húsið þrátt fyrir að Matthíasi hafi leiðst þessi sigurhæðafyndni.
Fjölskyldan flutti í Sigurhæðir 20. september 1903. Guðrún húsfreyja kunni strax vel við sig en Matthías var lengur að aðlagast nýja heimilinu en var alsæll með útsýnið. Matthías skrifar Magnúsi bróður sínum á Ísafirði skömmu síðar og segir frá húsinu: Húsið er 16 x 12 metrar að gólffleti, með kjallara, hæð og risi. Það er portbyggt og vel hátt með niðurslútandi þakbrún og snotri verönd við suðurendann og gluggarúðurnar þar mislitar. Af veröndinni eru tvær dyr, önnur inn á skrifstofuna og fram af henni er gengt inn í eldhúsið. Aðrar dyr eru af veröndinni inn í betri stofuna, og milli hennar og daglegu stofunnar er tvísett hurð með ,,portiera” yfir. Börn geta hlaupið í hring á fyrstu hæðinni. Uppi eru herbergi í suður- og norðurenda og auk þess fjögur smákamers. Svo er í húsinu háaloft og ,,duglegur” kjallari með fimm afþiljuðum hólfum.
Samkvæmt íbúaskrá 1917 taldi heimilisfólkið í Sigurhæðum ellefu manns. Það passar við það sem Matthías skrifar í bréfi til Jóns Laxdals, tengdasonar síns, og segir að til þess að spara séu þau ellefu í sömu stofunni. Matthías heldur áfram og segir „er það æðimikið kraðak ef krakkarnir eru í almætti sínu, fyrst er ég að hengilmænast við borðið, svo er Þóra með sitt dót og fyllir allt matborðið, en svo er amma í horninu með rífandi prjónavél, svo gamla Þóra með rokkgarm sinn, svo Matta með fatasaum, svo stúlkur okkar tvær með handavinnu og loks óþekki Matti og telpur Þóru allt í dynjandi Evrópu ófriði.“
Heimildir
- Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, 2006: Upp á Sigurhæðir – Saga Matthíasar Jochumssonar. Reykjavík, JPV útgáfa 2006.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri.