Í Aðalstræti í Reykjavík. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Listamaðurinn Guðjón Samúelsson

Eins og flestir sem þekkja til íslenskrar byggingarsögu vita markaði Guðjón Samúelsson (1887-1950) arkitekt djúp spor í hönnunarsögu Íslands. Allir þekkja byggingar hans eins og Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands. Guðjón lauk námi í byggingarlist árið 1919, fyrstur Íslendinga. Hann markaði sér sérstöðu með tilvísunum í íslenska náttúru eins og sjá má í verkum hans.

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt skjalasafn Húsameistara ríkisins, þar eru fjölmargar teikningar Guðjóns auk annarra gagna sem tengjast starfi hans. Guðjón gegndi starfi húsameistara frá 1920 til dauðadags og handverk hans má sjá á allmörgum byggingum sem reistar voru á því tímabili. Guðjón sat einnig í skipulagsnefnd ríkisins frá upphafi árið 1921 og hafði hann því sem slíkur mikil áhrif á þróun byggðar á Íslandi og hannaði skipulag flestra bæja á Íslandi oft þó í samstarfi við aðra aðila.

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson.

Guðjón var einnig liðtækur vatnslitamálari. Árið 2015 afhenti Arkitektafélag Íslands Þjóðskjalasafninu nokkrar vatnslitamyndir eftir Guðjón. Myndirnar höfðu verið í eigu Ólafar Vernharðsdóttur ráðskonu Guðjóns. Myndirnar sem hér eru sýndar eru annars vegar frá Reykjavík og hins vegar frá Eyrarbakka, báðar gerðar árið 1912.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar

Búið í bröggum

Þegar bandaríski herinn hvarf frá Íslandi árið 1945 var skilið eftir mikið magn af bröggum og í því húsnæðishallæri sem var viðvarandi á Íslandi sköpuðu yfirgefnu braggarnir fátæku fólki tækifæri til að koma sér þaki yfir höfuðið.

Flestir braggarnir í Reykjavík voru breskir, svokallaðir Nissenbraggar. Þeir hétu í höfuðið á breska námuverkfræðingnum Peter Normann Nissen sem átti stærstan þátt í að hanna skálana í fyrri heimsstyrjöldinni. Erlendu hermennirnir nefndu þessi hús hins vegar oftast “barracks” eða herskála. Íslendingar tóku nafnið upp og íslenskuðu sem “bragga”, enda var orðið þekkt frá fyrri tíð en nafnið var áður notað yfir svefnskála starfsfólks á hval- og síldarstöðvum víða um land.

Bresku Nissen skálarnir voru einkum af fjórum stærðum. Þeir algengustu voru ríflega 50 fermetrar en þeir stærstu voru svokallaðir Romney braggar, tæplega 400 fermetrar. Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervernd Íslands hófust þeir einnig handa við byggingu bragga, sem voru með svipuðu sniði.

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar

Braggahverfi í Reykjavík. ÞÍ. Ljósmyndasafn Jóns Bjarnasonar.

Árið 1944 voru rúmlega 8600 herskálar á Íslandi, þar af voru tæplega 6000 í Reykjavík. Þó skálarnir væru kaldir og sumir hverjir a.m.k. vart mannsæmandi bústaðir varð fljótt mikil eftirspurn eftir húsnæði í skálunum eftir brotthvarf hersins. Léleg hús voru jú betri en engin og raunar voru braggarnir í sumum tilfellum ekki verra húsnæði en það sem fólki bauðst á almennum markaði. Þegar árið 1943 fór húsnæðisnefnd Reykjavíkur að falast eftir hermannaskálum til að leysa húsnæðisvanda Reykvíkinga. Að sjálfsögðu voru braggarnir einungis hugsaðir sem bráðabirgðaúrræði til að leysa úr bráðum vanda. Aldrei var hugmyndin að braggarnir yrðu framtíðarbústaðir.

Gjörðabók samtaka herskálabúa 1953-1960. ÞÍ 1990/39

Gjörðabók samtaka herskálabúa 1953-1960. ÞÍ 1990/39.

Eftirspurn eftir braggaíbúðum jókst hins vegar þegar leið á fimmta áratuginn. Um miðjan september 1945 voru íbúar í braggabyggðum taldir um 1.250 en árið 1955 voru íbúar orðnir um 2.300 í 543 íbúðum. Hins vegar höfðu sumar braggabyggðirnar verið endurbættar.tekið endurbótum. Byggt hafði verið við marga skálanna og sumir voru forskalaðir. Árið 1953 voru stofnuð Samtök herskálabúa og höfðu þau að markmiði að bæta aðbúnað íbúa og knýja yfirvöld Reykjavíkurbæjar til að byggja mannsæmandi íbúðir og að útrýma braggahverfunum. Á sjöunda áratug 20. aldar hafði bröggum verið að mestu útrýmt og lauk þar með sögulegu tímabili í þróun Reykjavíkur.

Heimildir

  • Eggert Þór Bernharðsson: Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940-1970, Rvk. 2000.
  • ÞÍ. 1990/39. Fundagerðabók samtaka herskálabúa 1953-1960.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.