Goðasteinn á árunum 1950-1960. Suðurhlið, horft í norður.
Kirkjubæjarbraut 11 í Vestmannaeyjum, öðru nafni Goðasteinn, var byggt á árunum 1945-1947. Húsið er nefnt eftir Goðasteini í Eyjafjallajökli. Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum og kona hans Ingigerður Jóhannsdóttir byggðu húsið.
Til er mjög merkileg dagbók yfir byggingarsögu hússins á árunum 1945-1947, þar sem að gerð var grein fyrir hverri krónu sem að fór í húsbygginguna og sýnir hvernig menn byggðu húsin sín á þessum árum nánast frá grunni með eigin höndum. Þessi dagbók er varðveitt í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja með merku, yfirgripsmiklu einkaskjalasafni Þorsteins.
Þorsteinn og Ingigerður bjuggu í húsinu fram að gosinu 1973, síðustu árin með dóttur sinni, tengdasyni og dætrum þeirra. Í kjallara Goðasteins fór lengi fram kennsla í meðferð véla, netabætingum og tóvinnu. Eftir gosið var húsið dæmt ónýtt vegna mikilla hitaskemmda, en seinna var það endurnýjað og er búið í því í dag.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.