Heimilisfólkið á Hólum stendur við gróðurhúsið í garðinum. Íbúðarhúsið sést uppá hólnum

Hólar í Stokkseyrarhreppi

Á Hólum í Stokkseyrarhreppi stendur reisulegt íbúðarhús byggt árið 1949. Um er að ræða járnvarið timburhús með kjallara, hæð og risi sem stendur á lágum bæjarhól. Nýja húsið tók við af eldri bæ þar sem fjós, hlaða, baðstofa, hlóðaeldhús og skemma voru sambyggð í einni þyrpingu torf og timburhúsa. Nýja húsið hefur verið kærkomið enda oft mannmargt á Hólum rétt eins og á öðrum sveitaheimilum á þessum tíma.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er varðveitt mikið magn af skjölum frá Hólum. Þar má meðal annars finna reikninga tengda smíði nýja íbúðarhússins. Þar má sjá frá hvaða fyrirtækjum efni til byggingarinnar var keypt og eins hversu mikið það kostaði. T.d. má sjá að gluggar í húsið voru keyptir hjá Trésmiðju Eyrarbakka og kostuðu 1.840 kr, eldhúsvaskurinn var keyptur í Plastic hf. á 495 kr og asbestplötur fengust sendar til landsins frá Hull með Eimskipafélaginu. Á sér blaði er tekin saman heildarkostnaður húsbyggingarinnar. Þar kemur fram að efniskostnaður sé 52.000 kr, akstur 4.000 kr og vinnulaun 27.000 kr. Heildarkostnaður húsbyggingarinnar hafi því verið 83.000 kr.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Allir þessir reikningar eru skrifaðir á Magnús Hannesson en hann var bóndi á Hólum á þessum tíma eða frá 1927-1971. Hann var giftur Helgu Helgadóttur frá Súluholti í Villingaholtshreppi. Þeim varð ekki barna auðið í sinni sambúð en tóku að sér bróðurson Helgu. Sá hét Helgi Ívarsson og var fæddur árið 1929. Helgi tók síðar við búi fósturforeldra sinna og var bóndi á Hólum til ársins 2003. Við andlát Helga arfleiddi hann Héraðsskjalasafn Árnesinga og Byggðasafn Árnesinga að öllum eigum sínum og þannig eignaðist Héraðsskjalasafnið öll hans skjöl, ljósmyndir o.fl. Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er einnig varðveitt mikið magn af skjölum og ljósmyndum frá Guðfinnu Hannesdóttur frá Hólum, systur Magnúsar Hannessonar.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Út frá þessum tveimur söfnum og skrifum Helga sem hann stundaði á efri árum er gaman að gera sér í hugarlund hvernig heimilishaldið á Hólum hefur verið í tíð þessarar fjölskyldu. Að innan er húsið mjög hefðbundið, útsaumsmyndir og málverk á veggjum og begóníur í gluggum. Flestar ljósmyndirnar innan úr húsinu sýna veislur og kaffiboð en þar sést að ekkert hefur verið til sparað þegar gest bar að garði. Í horni stofunnar stendur orgel og nokkrar myndir sýna þegar leikið er á það. Það sem athygli vekur þegar myndirnar eru skoðaðar er garðurinn á Hólum. Garðurinn við nýja húsið á Hólum er sérstæður og mætti jafnvel kalla skrúðgarð. Í honum var gróðurhús og fjölmargar myndir eru til af fólki í garðinum, ýmist að yrkja hann eða njóta samveru. Ljósmyndirnar bera þess merki að garðurinn hafi í raun verið framlenging á heimilinu. Heimili þarf ekki að markast af útveggjum íbúðarhúss heldur getur heimili teygt anga sína víðar eins og í tilviki garðsins á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Heimildir

  • Sigurgrímur Jónsson. Stokkseyrarhreppur. Sunnlenskar byggðir. Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands, 1981. 219.
  • Páll Lýðsson. Formáli útgefanda. Sagnabrot Helga í Hólum. Selfoss: Sunnlenska bókaútgáfan,2009.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga