Hrannargata á Ísafirði um 1920. Lengst til hægri er húsið að Hrannargötu 9, byggt af Jóni Þorvaldssyni og Gudrunu Nielsen árið 1898. Við hliðina er Templarahúsið, byggt árið 1905. Ljósm. M. Simson.
Húsið að Hrannargötu 9 á Ísafirði var byggt sumarið 1898 af Jóni Þorvaldssyni lækni og Gudrunu Nielsen, norskri eiginkonu hans. Höfðu þau gift sig í september 1897 og var húsið brúðargjöf frá foreldrum hennar. Var það stórt og rúmgott, plankabyggt úr völdum norskum viði með viðbyggingu að norðanverðu þar sem læknirinn hafði stofu sína. Var húsið í daglegu tali kallað Rauða húsið enda eina rauða húsið í bænum á þeim tíma.
Skömmu eftir að ungu hjónin fluttu inn í húsið fæddist þeim andvana sveinbarn og setti sorgin mark sitt á heimilislífið um veturinn. Áföllin áttu þó eftir að verða fleiri því næsta vor gaus taugaveiki upp á heimilinu. Jón lagðist fyrstur en náði bata eftir að hafa legið milli heims og helju en Gudrun og vinnustúlka á heimilinu létust með nokkurra daga millibili í maí. Jón gat þá ekki hugsað sér að búa lengur í húsinu og flutti alfarinn norður á Hesteyri í Jökulfjörðum þar sem hann var skipaður læknir. Það gekk hins vegar illa að selja húsið þar sem sögur fóru á kreik um reimleika í því.
Árið 1905 keypti Skúli Einarsson húsið og flutti þangað með fjölskyldu sína. Í viðbyggingunni opnaði hann verslun sem fékk heitið Glasgow og með tímanum festist það nafn á húsinu sjálfu. Marís Gilsfjörð keypti verslunina af Skúla árið 1909 og var hún til að byrja með í smáum stíl en varð umfangsmeiri eftir að hann sneri sér að sölu húsgagna og húsgagnaviðgerðum. Auglýsingar frá versluninni birtust reglulega í bæjarblöðunum og vöktu oft athygli fyrir skemmtilega framsetningu. Skúli seldi verslunina í ársbyrjun 1933 en kaupandanum farnaðist ekki vel reksturinn og varð gjaldþrota árið 1936. Mun ekki hafa verið rekin verslun í húsinu eftir það.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.