Hrannargata um 1920

Brúðargjöfin

Hrannargata á Ísafirði um 1920. Lengst til hægri er húsið að Hrannargötu 9, byggt af Jóni Þorvaldssyni og Gudrunu Nielsen árið 1898. Við hliðina er Templarahúsið, byggt árið 1905. Ljósm. M. Simson.

Húsið að Hrannargötu 9 á Ísafirði var byggt sumarið 1898 af Jóni Þorvaldssyni lækni og Gudrunu Nielsen, norskri eiginkonu hans. Höfðu þau gift sig í september 1897 og var húsið brúðargjöf frá foreldrum hennar. Var það stórt og rúmgott, plankabyggt úr völdum norskum viði með viðbyggingu að norðanverðu þar sem læknirinn hafði stofu sína. Var húsið í daglegu tali kallað Rauða húsið enda eina rauða húsið í bænum á þeim tíma.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 31. mars 1898 þar sem Jón Þorvaldsson sækir um að fá að byggja íbúðarhús og geymsluskúr.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 31. mars 1898 þar sem Jón Þorvaldsson sækir um að fá að byggja íbúðarhús og geymsluskúr.

Skömmu eftir að ungu hjónin fluttu inn í húsið fæddist þeim andvana sveinbarn og setti sorgin mark sitt á heimilislífið um veturinn. Áföllin áttu þó eftir að verða fleiri því næsta vor gaus taugaveiki upp á heimilinu. Jón lagðist fyrstur en náði bata eftir að hafa legið milli heims og helju en Gudrun og vinnustúlka á heimilinu létust með nokkurra daga millibili í maí. Jón gat þá ekki hugsað sér að búa lengur í húsinu og flutti alfarinn norður á Hesteyri í Jökulfjörðum þar sem hann var skipaður læknir. Það gekk hins vegar illa að selja húsið þar sem sögur fóru á kreik um reimleika í því.

Virðing á húsi Jóns Þorvaldssonar í desember 1898.

Virðing á húsi Jóns Þorvaldssonar í desember 1898.

Árið 1905 keypti Skúli Einarsson húsið og flutti þangað með fjölskyldu sína. Í viðbyggingunni opnaði hann verslun sem fékk heitið Glasgow og með tímanum festist það nafn á húsinu sjálfu. Marís Gilsfjörð keypti verslunina af Skúla árið 1909 og var hún til að byrja með í smáum stíl en varð umfangsmeiri eftir að hann sneri sér að sölu húsgagna og húsgagnaviðgerðum. Auglýsingar frá versluninni birtust reglulega í bæjarblöðunum og vöktu oft athygli fyrir skemmtilega framsetningu. Skúli seldi verslunina í ársbyrjun 1933 en kaupandanum farnaðist ekki vel reksturinn og varð gjaldþrota árið 1936. Mun ekki hafa verið rekin verslun í húsinu eftir það.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.

 

Templarahúsið á Ísafirði, byggt árið 1905.

Templarahúsin

Hrannargata er ein af fimm götum sem liggja á milli Hafnarstrætis og Fjarðarstrætis á Ísafirði. Efst er Sólgata (áður Steypuhúsagata), þá Hrannargata (áður Templaragata), Mánagata (áður Spítalagata, Bankagata), Mjallargata (áður Læknisgata, Póstgata) og Pólgata sem dregur nafn af Norðurpólnum, húsi sem stendur við götuna.

Templaragata fékk nafn sitt af af húsi sem félagsmenn í stúkunni Dagsbrún reistu árið 1896 og nýttu til samkomuhalds og leiksýninga. Stóð það við Templaragötu 1 en gatan var einnig kölluð Bindindisgata og Dagsbrúnargata. Árið 1905 byggðu templarar nýtt og glæsilegt samkomuhús við sömu götu, teiknað og byggt af Ragúel Á. Bjarnasyni húsasmið. Brynjólfur Jóhannesson leikari, sem steig þarna sín fyrstu spor á leiksviði, sagði um húsið: „Templarar komu sér upp ágætu leikhúsi, líklega einhverju því bezta á landinu þá; þetta var hús á stærð við Iðnaðarmannahúsið í Reykjavík, nema með stærra sviði, og þar voru ágæt búningsherbergi fyrir leikarana. Mér þótti viðbrigði síðar meir að koma þaðan í moldarkjallarann í Iðnó.“ (Morgunblaðið 16. ágúst 1986, 15)

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 11. mars 1905 þar sem góðtemplarastúkurnar Nanna og Dagsbrún sækja um leyfi til að byggja hús á lóð milli Templaragötu og Steypuhúsagötu.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 11. mars 1905 þar sem góðtemplarastúkurnar Nanna og Dagsbrún sækja um leyfi til að byggja hús á lóð milli Templaragötu og Steypuhúsagötu.

Ragúel keypti eldra húsið og opnaði þar trésmíðaverkstæði vorið 1906 en stuttu síðar brann það til grunna eftir að eldur kom upp á verkstæðinu. Það urðu einnig örlög nýja samkomuhússins að verða eldi að bráð tæpum aldarfjórðungi síðar. Húsið var þá komið í eigu Helga Guðbjartssonar og Matthíasar Sveinssonar sem ráku þar kvikmyndahús auk þess sem Leikfélag Ísafjarðar hafði þar aðstöðu. Góðtemplarar höfðu hins vegar flutt sig yfir í Steypuhúsagötu þar sem þeir höfðu keypt reisulegt steinhús sem gekk undir nafninu Hebron.

Virðing á samkomuhúsi góðtemplara árið 1906.

Virðing á samkomuhúsi góðtemplara árið 1906.

Það var upp úr hádegi miðvikudaginn 23. apríl 1930 sem elds varð vart í Bíóhúsinu, eins og Templarahúsið var þá kallað. Kviknaði eldurinn út frá rafleiðslu og breiddist svo hratt út að röskum tveimur tímum seinna var húsið brunnið til grunna. Höfðu eigendurnir nýlega lokið við miklar endurbætur á húsinu og ætluðu að hefja kvikmyndasýningar að nýju daginn eftir, á sumardaginn fyrsta.

Í meðfylgjandi myndbandi eru frekari upplýsingar um húsin við Hrannargötu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.