Heimilisfólkið á Hólum stendur við gróðurhúsið í garðinum. Íbúðarhúsið sést uppá hólnum

Hólar í Stokkseyrarhreppi

Á Hólum í Stokkseyrarhreppi stendur reisulegt íbúðarhús byggt árið 1949. Um er að ræða járnvarið timburhús með kjallara, hæð og risi sem stendur á lágum bæjarhól. Nýja húsið tók við af eldri bæ þar sem fjós, hlaða, baðstofa, hlóðaeldhús og skemma voru sambyggð í einni þyrpingu torf og timburhúsa. Nýja húsið hefur verið kærkomið enda oft mannmargt á Hólum rétt eins og á öðrum sveitaheimilum á þessum tíma.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er varðveitt mikið magn af skjölum frá Hólum. Þar má meðal annars finna reikninga tengda smíði nýja íbúðarhússins. Þar má sjá frá hvaða fyrirtækjum efni til byggingarinnar var keypt og eins hversu mikið það kostaði. T.d. má sjá að gluggar í húsið voru keyptir hjá Trésmiðju Eyrarbakka og kostuðu 1.840 kr, eldhúsvaskurinn var keyptur í Plastic hf. á 495 kr og asbestplötur fengust sendar til landsins frá Hull með Eimskipafélaginu. Á sér blaði er tekin saman heildarkostnaður húsbyggingarinnar. Þar kemur fram að efniskostnaður sé 52.000 kr, akstur 4.000 kr og vinnulaun 27.000 kr. Heildarkostnaður húsbyggingarinnar hafi því verið 83.000 kr.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Allir þessir reikningar eru skrifaðir á Magnús Hannesson en hann var bóndi á Hólum á þessum tíma eða frá 1927-1971. Hann var giftur Helgu Helgadóttur frá Súluholti í Villingaholtshreppi. Þeim varð ekki barna auðið í sinni sambúð en tóku að sér bróðurson Helgu. Sá hét Helgi Ívarsson og var fæddur árið 1929. Helgi tók síðar við búi fósturforeldra sinna og var bóndi á Hólum til ársins 2003. Við andlát Helga arfleiddi hann Héraðsskjalasafn Árnesinga og Byggðasafn Árnesinga að öllum eigum sínum og þannig eignaðist Héraðsskjalasafnið öll hans skjöl, ljósmyndir o.fl. Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er einnig varðveitt mikið magn af skjölum og ljósmyndum frá Guðfinnu Hannesdóttur frá Hólum, systur Magnúsar Hannessonar.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Út frá þessum tveimur söfnum og skrifum Helga sem hann stundaði á efri árum er gaman að gera sér í hugarlund hvernig heimilishaldið á Hólum hefur verið í tíð þessarar fjölskyldu. Að innan er húsið mjög hefðbundið, útsaumsmyndir og málverk á veggjum og begóníur í gluggum. Flestar ljósmyndirnar innan úr húsinu sýna veislur og kaffiboð en þar sést að ekkert hefur verið til sparað þegar gest bar að garði. Í horni stofunnar stendur orgel og nokkrar myndir sýna þegar leikið er á það. Það sem athygli vekur þegar myndirnar eru skoðaðar er garðurinn á Hólum. Garðurinn við nýja húsið á Hólum er sérstæður og mætti jafnvel kalla skrúðgarð. Í honum var gróðurhús og fjölmargar myndir eru til af fólki í garðinum, ýmist að yrkja hann eða njóta samveru. Ljósmyndirnar bera þess merki að garðurinn hafi í raun verið framlenging á heimilinu. Heimili þarf ekki að markast af útveggjum íbúðarhúss heldur getur heimili teygt anga sína víðar eins og í tilviki garðsins á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Heimildir

  • Sigurgrímur Jónsson. Stokkseyrarhreppur. Sunnlenskar byggðir. Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands, 1981. 219.
  • Páll Lýðsson. Formáli útgefanda. Sagnabrot Helga í Hólum. Selfoss: Sunnlenska bókaútgáfan,2009.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

 

Húsið Sigtún á Selfossi

Sigtún á Selfossi

Árið 1934 reis hús sem í þá daga þótti glæsilegasta húsið á Suðurlandi. Um er að ræða húsið Sigtún á Selfossi. Húsið byggði Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og varð húsið þá strax stöðutákn fyrir Egil sem var mesti athafnamaður Sunnlendinga á þeim tíma.

Egill Grímur Thorarensen

Egill Grímur Thorarensen.

Egill var fæddur að Kirkjubæ á Rangárvöllum 1897, sonur Gríms Skúlasonar Thorarensen, bónda og hreppsstjóra á Kirkjubæ og Jónínu Egilsdóttur frá Múla í Biskupstungum. Hann var í tvö ár í verslunarnámi í Kaupmannahöfn og vann svo við verslunarstörf í Reykjavík í nokkra mánuði þegar heim var komið. Hann fór til sjós árið 1916 og ætlaði að leggja sjómennsku fyrir sig en veiktist af berklum og varð að leggja sjómennskuna á hilluna. Haustið 1918 keypti hann Sigtún hið eldra af tengdaföður sínum og hóf þar verslun um haustið. Hugmyndin um stofnun Kaupfélags Árnesinga kom upp í samtali Egils við Helga Ágústsson í Birtingaholti þar sem þeir voru sammála um það að ekki myndi líða á löngu þar til ákveðið yrði að stofna kaupfélag í héraðinu. Egill sagðist frekar vilja taka þátt í þeirri þróun heldur en að halda áfram að reka verslun sína í samkeppni við öflugt kaupfélag. 1. nóvember 1930 var svo Kaupfélag Árnesinga stofnað og daginn eftir var Egill ráðinn kaupfélagsstjóri. Í janúar árið eftir seldi Egill svo og afsalaði Kaupfélaginu fasteignum sínum á Selfossi. Í Sögu Selfoss er heil blaðsíða sett eingöngu í það að lýsa Agli, enda var hann gæddur miklum mannkostum. Í lýsingunni stendur meðal annars skrifað:

Egill var skapmaður mikill og ráðríkur og fór sínu fram um framkvæmdir, sem hann hafði trú á. Hann gat orðið óvæginn og hlífðarlaus við þá, sem stóðu á móti honum, einkum í málum, sem hann taldi til heilla fyrir héraðið. Hann hafði viðkvæma lund og fann til með þeim, sem áttu bágt vegna sjúkdóma eða einstæðingsskapar en ekki með þeim, sem voru hraustir og gátu unnið. Við starfsmenn var hann ljúfur og hress og lofaði óspart dugnað þeirra og framtak, og orð hans stóðu sem stafur á bók.

Egill stjórnaði Kaupfélagi Árnesinga í nánu samstarfi við Mjólkurbú Flóamanna í 30 ár og þau ár hafa þótt mesti uppgangstími sem hefur gengið yfir sveitir Suðurlands, stundum kallað Egilstímabilið. Egill tók einnig virkan þátt í sveitarstjórnarmálum og öðrum félagsmálum og átti til dæmis sæti í fyrstu hreppsnefnd Selfosshrepps og var formaður stjórnar mjólkurbúsins í 30 ár. Þegar Egill andaðist 1961 skrifaði Björn Sigurbjarnarson í dagbók sína að nú væri „hniginn í hadd jarðar mesti héraðshöfðingi Sunnlendinga síðan á öld Sturlunga.“

Húsið Sigtún var teiknað af Einari Sveinssyni og Sigmundi Halldórssyni arkitekt. Það er 118m² að stærð, stendur á kjallara og hefur tvær hæðir með valmaþaki. Bílskúr er áfastur við húsið. Byggingarstíll hússins hefur verið kallaður “aðlagaður funkis” eða síðfunkis/valmafunkis eins og sumir vilja kalla það. Hefðbundinn funkis byggist á því að form hlutanna á að endurspegla nýtinguna, öllu skrauti var því útrýmt og aðeins hugsað um hvernig skildi nýta húsin. Grunnform húsagerðarinnar var kubburinn þar sem flöt þök og horngluggar voru áberandi. Funkisinn var síðar aðlagaður íslenskum aðstæðum og þá var valmaþakið sett á húsin í stað flata þaksins sem yfirleitt hafði reynst illa, þannig varð “aðlagaði funkisinn” til. Kristinn Vigfússon var fenginn til þess að sjá um smíði hússins og fékk hann nokkra menn til að vinna með sér verkið. Þeir voru Guðbjörn Sigurjónsson í Jórvík, Bjarni Ásbjörnsson í Haugakoti, Guðmundur Alexandersson í Ásakoti, Höskuldur Sigurgeirsson á Fossi og bræðurnir Hannes og Guðmundur Guðjónssynir frá Dísarstöðum. Í bókinni Kristinn Vigfússon staðarsmiður stendur skrifað um bygginguna á Sigtúni:

Allir veggir voru hafðir 15 sm þykkir og járnbentir, bæði inn- og útveggir og steyptir með loftsteypu 1:5. Steypuefnið var sótt að Hraunsá og steypan hrærð á bretti og rétt upp í fötum, pall af palli. Þegar við steyptum plötuna yfir kjallarann, var komið fram í nóvember og veðurútlit tvísýnt. Við hituðum mikið af vatni og létum tvær fötur af sjóðandi vatni í hverja lögun. Seinni daginn rauk hann upp með frosti, svo að við urðum að hætta við hálfnað loftið. Negldum við fyrir alla glugga og dysjuðum loftið með sementspokum og borðum. Þannig stóð steypan í hálfan mánuð. Þá brá til þíðu í nokkra daga svo að við gátum lokið steypunni. Þá gerði aftur molharðindi sem stóðu lengi.

Jens Eyjólfsson byggingarmeistari sem meðal annars byggði Landakotskirkju hafði nýverið fundið upp nýja aðferð við að steypa holsteina úr vikri til einangrunar húsa. Steinarnir voru 10 sm þykkir með mjóum holrúmum og voru steyptir í sérstakri vél sem þeir fengu lánaða austur ásamt manni. Það var Gísli Magnússon, síðar á Bjargi. Það er ekki hægt að segja að þessi aðferð hafi breiðst víða út og þess vegna er Sigtún eina húsið á Selfossi sem byggt var með þessari einangrun.

Kristín Daníelsdóttir Thorarensen, húsfreyja í Sigtúni

Kristín Daníelsdóttir Thorarensen, húsfreyja í Sigtúni.

Egill Thorarensen og Kristín Daníelsdóttir bjuggu í húsinu ásamt börnum sínum Grími, Erlu, Benedikt og Jónínu Guðrúnu. Kristín, kona Egils var listfeng og sást það mjög vel á heimili þeirra sem var vel búið glæsilegu handverki eftir hana sjálfa. Hún hafði einnig yndi af góðum bókum auk þess sem hún lék á orgel. Egill lét útbúa í húsinu stórt og fallegt bókaherbergi þar sem hann geymdi um 1700 bækur auk þess sem hann lét innrétta vínkjallara í einu kjallaraherbergi. Það má því segja að Sigtún hafi verið menningarheimili. Í Sigtúni var ávalt margt vinnuhjúa sem sá um þrifin og það sem gera þurfti innan sem utanhúss og þau hjónin höfðu meira að segja bílstjóra. Segja má að Egill og Kristín hafi verið sannkallað hefðarfólk, enda báru þau sig alla tíð sem slíkt. Heimilisbragurinn í Sigtúni var þess vegna mjög frábrugðinn því sem þekktist á öðrum heimilum í nágrenninu. Sigtún var ekki bara heimili heldur var það jafnframt miðstöð kaupmennsku og pólitíkur á Suðurlandi. Þar voru haldnar veislur og móttökur ásamt ýmsum fundum. Húsið Sigtún var heimili allra kaupfélagsstjóra kaupfélags Árnesinga allt til ársins 2000.

Héraðsskjalasafn Árnesinga hefur fengið til varðveislu teikningar af nær öllum íbúðarhúsum á Selfossi frá Skipulags- og byggingafulltrúa Árborgar. Þar á meðal teikningar af húsinu Sigtúni. Einnig eru varðveitt á safninu hin ýmsu skjöl tengd Kaupfélagi Árnesinga.

Heimildir

  • Árni Sverrir Erlingsson. Stiklað um íslenska húsagerðarsögu með áherslu á sunnlenskar byggingar. Selfoss, 2006. Óútgefið efni.
  • Erla Egilsdóttir. Morgunblaðið 5. desember 2003.
  • Guðmundur Kristinsson. Kristinn Vigfússon staðarsmiður. Selfoss: Árnesútgáfan, 1987.
  • Guðmundur Kristinsson. Saga Selfoss, 1-2. Selfoss: Selfosskaupstaður, 1991.
  • Kristín D. Thorarensen. Morgunblaðið 6. janúar 1994, 36.
  • Oddur Sigurbergsson. Morgunblaðið 24. ágúst 2001, 36.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga.