Leiðari

Leiðari

Allt er breytingum undirorpið stendur einhvers staðar. En hvernig sem allt velkist er heimilið sá miðpunktur sem líf flestra hverfist um. Hvort sem fólk býr í hreysi eða höll er það staðurinn þar sem fjölskyldur eiga sinn samastað.

Flestir búa, sem betur fer, við það öryggi að geta farið heim að loknum vinnudegi og fundið sér skjól innan veggja heimilisins og notið friðar frá amstri hversdagsins. Sennilega eru fæstir sem hugsa daglega um þau lífsgæði sem felast í því að eiga heimili. Það er þó ekki sjálfgefið að allir eigi möguleika á því sem við þó teljum sjálfsagðan rétt okkar.

Heimilishald hefur breyst gríðarlega á Íslandi á tiltölulega stuttum tíma. Húsnæði hefur batnað og stækkað. Á fyrri hluta 20. aldar var ekki óalgengt að tvær til þrjár fjölskyldur byggju undir sama þaki í 80-100 fermetra húsum. Hætt er við að í dag þættu slíkar kringumstæður sníða okkur þröngan stakk. Raunar hefur umræða um húsnæðismál fylgt þéttbýlismyndun frá fyrstu tíð og enn í dag eru húsnæðis- og skipulagsmál það umfjöllunarefni stjórnmála sem hvað mesta athygli fær. Má segja að yfirskrift Norræna skjaladagsins 2017, Hús og heimili, sé innlegg í umræðunna í sögulegu ljósi.

Verið velkomin á vef Norræna skjaladagsins og á þá viðburði sem haldnir verða í tilefni dagsins.