Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja

Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja í Vestmannaeyjum.

Landakirkja í Vestmannaeyjum er þriðja elsta steinkirkja á Íslandi, byggð á árunum 1774-1778. Kirkjan var teiknuð af hirðhúsameistaranum C.D. Anthon og telst vera barrok-kirkja.

Á árunum 1955-1959 voru forkirkjan og turninn sem að einkenna kirkjuna í dag, byggð. Þá var líka lagt yfir steingólfið og nýir bekkir smíðaðir. Þessar breytingar teiknaði Ólafur Á. Kristjánsson, fyrrum bæjarstjóri í Eyjum. Til eru einstakar myndir af þessum framkvæmdum sem að sýna kirkjuna með tveimur turnum á sama tíma og birtist ein þeirra hér að ofan.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Heimilisfólkið á Hólum stendur við gróðurhúsið í garðinum. Íbúðarhúsið sést uppá hólnum

Hólar í Stokkseyrarhreppi

Á Hólum í Stokkseyrarhreppi stendur reisulegt íbúðarhús byggt árið 1949. Um er að ræða járnvarið timburhús með kjallara, hæð og risi sem stendur á lágum bæjarhól. Nýja húsið tók við af eldri bæ þar sem fjós, hlaða, baðstofa, hlóðaeldhús og skemma voru sambyggð í einni þyrpingu torf og timburhúsa. Nýja húsið hefur verið kærkomið enda oft mannmargt á Hólum rétt eins og á öðrum sveitaheimilum á þessum tíma.

Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er varðveitt mikið magn af skjölum frá Hólum. Þar má meðal annars finna reikninga tengda smíði nýja íbúðarhússins. Þar má sjá frá hvaða fyrirtækjum efni til byggingarinnar var keypt og eins hversu mikið það kostaði. T.d. má sjá að gluggar í húsið voru keyptir hjá Trésmiðju Eyrarbakka og kostuðu 1.840 kr, eldhúsvaskurinn var keyptur í Plastic hf. á 495 kr og asbestplötur fengust sendar til landsins frá Hull með Eimskipafélaginu. Á sér blaði er tekin saman heildarkostnaður húsbyggingarinnar. Þar kemur fram að efniskostnaður sé 52.000 kr, akstur 4.000 kr og vinnulaun 27.000 kr. Heildarkostnaður húsbyggingarinnar hafi því verið 83.000 kr.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Reikningar vegna smíði nýja íbúðarhússins á Hólum.

Allir þessir reikningar eru skrifaðir á Magnús Hannesson en hann var bóndi á Hólum á þessum tíma eða frá 1927-1971. Hann var giftur Helgu Helgadóttur frá Súluholti í Villingaholtshreppi. Þeim varð ekki barna auðið í sinni sambúð en tóku að sér bróðurson Helgu. Sá hét Helgi Ívarsson og var fæddur árið 1929. Helgi tók síðar við búi fósturforeldra sinna og var bóndi á Hólum til ársins 2003. Við andlát Helga arfleiddi hann Héraðsskjalasafn Árnesinga og Byggðasafn Árnesinga að öllum eigum sínum og þannig eignaðist Héraðsskjalasafnið öll hans skjöl, ljósmyndir o.fl. Á Héraðsskjalasafni Árnesinga er einnig varðveitt mikið magn af skjölum og ljósmyndum frá Guðfinnu Hannesdóttur frá Hólum, systur Magnúsar Hannessonar.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Helgi Ívarsson og Jóna Hannesdóttir í Garðinum á Hólum. Fjær sést gamla baðstofan ásamt útihúsum.

Út frá þessum tveimur söfnum og skrifum Helga sem hann stundaði á efri árum er gaman að gera sér í hugarlund hvernig heimilishaldið á Hólum hefur verið í tíð þessarar fjölskyldu. Að innan er húsið mjög hefðbundið, útsaumsmyndir og málverk á veggjum og begóníur í gluggum. Flestar ljósmyndirnar innan úr húsinu sýna veislur og kaffiboð en þar sést að ekkert hefur verið til sparað þegar gest bar að garði. Í horni stofunnar stendur orgel og nokkrar myndir sýna þegar leikið er á það. Það sem athygli vekur þegar myndirnar eru skoðaðar er garðurinn á Hólum. Garðurinn við nýja húsið á Hólum er sérstæður og mætti jafnvel kalla skrúðgarð. Í honum var gróðurhús og fjölmargar myndir eru til af fólki í garðinum, ýmist að yrkja hann eða njóta samveru. Ljósmyndirnar bera þess merki að garðurinn hafi í raun verið framlenging á heimilinu. Heimili þarf ekki að markast af útveggjum íbúðarhúss heldur getur heimili teygt anga sína víðar eins og í tilviki garðsins á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Veislukaffi á Hólum.

Heimildir

  • Sigurgrímur Jónsson. Stokkseyrarhreppur. Sunnlenskar byggðir. Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands, 1981. 219.
  • Páll Lýðsson. Formáli útgefanda. Sagnabrot Helga í Hólum. Selfoss: Sunnlenska bókaútgáfan,2009.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga

 

Skeggstaðir í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu

Sveitabær árið 1935

Mynd að ofan: Skeggstaðir í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu.

Bruno Schweizer fæddist 3. maí 1897 í Dissen við Ammervatn í Bæjaralandi. Hann stundaði nám í germönskum fræðum við háskólana í Munchen, Innsbruck og Freiburg og lauk doktorsprófi í þjóðfræði árið 1925.

Á árunum 1927-1931 starfaði hann við Sprachatlas málvísindastofnunina í Marburg en 1931 sneri Bruno aftur á heimaslóðir og starfaði við háskólann í Munchen. Á árunum 1935-1936 ferðaðist Bruno á eigin vegum um Ísland þar sem hann gat stundað þjóðfræðirannsóknir. Í ferðunum tók hann yfir 1000 ljósmyndir, sem margar hverjar eru einstakar í sinni röð, enda lýsa þær samfélagi sem var á hverfanda hveli, en tæknibyltingin hafði þegar hafið innreið sína í íslenskar sveitir. Í ferðum sínum um Ísland kynntist hann konu sinni Þorbjörgu Jónsdóttur frá Heiðarseli á Síðu, Flutti Þorbjörg með manni sínum til Þýskalands og eignuðust þau tvo syni, Helga og Gunnar.

Ljósmyndir Brunos eru einstakar á margan hátt. Hann var nákvæmur þegar kom að því að taka myndir af fornum byggingum eða starfsháttum en hafði einnig auga fyrir myndbyggingu og skemmtilegum augnablikum. Mannamyndir hans eru sterkar og svipbrigðin njóta sín vel ekki síst í myndum af börnum.

Auk ljósmyndanna gerði hann uppdrætti af torfbæjum, einkum í Austur-Húnavatnssýslu, sem sýna vel innra skipulag bæjanna.

  • Sigvaldi Björnsson (1891-1947) á Skeggstöðum í Svartárdal
    Sigvaldi Björnsson (1891-1947) á Skeggstöðum í Svartárdal.

Myndir Brunos bera með sér að hann hugðist nýta þær í kynningu á Íslandi og íslenskri menningu, þess vegna eru landslagsmyndir nokkuð fyrirferðamiklar. Hann lét handlita nokkrar filmur og hélt ófáa fyrirlestra um Ísland í Þýskalandi þar sem myndirnar voru sýndar.

Sonur Brunos, Helgi, gaf Héraðsskjalasafni Skagfirðinga myndirnar um mitt ár 2006. Um ævi og störf Brunos má lesa frekar í stórvirkinu: Úr torfbæjum inn í tækniöld III. bindi, sem bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út árið 2003 og bárust myndirnar safninu fyrir milligöngu Örlygs Hálfdanarsonar bókaútgefanda. Nánari upplýsingar um myndirnar er að finna á þessari vefslóð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

 

Blönduós 1898.

Blönduós 1898

Blönduós 1898.

Blönduós 1898.

Frá vinstri á myndinni er Blönduóskirkja vígð 1895, við ströndina eru bræðsluskúrar Höephnerverslunarinnar þá er hús verslunarstjóra Höephnerverslunar reist 1882 stendur enn, nefnist Hemmertshús, endurbætt en það brann uppúr 2000. Þá er pakkhús sömu verslunar reist 1877 og stendur það einnig enn og nefnist Pétursborg. Fyrir aftan húsin er svo verslunarhúsið, reist 1881, síðar rifið og viðurinn notaður í íbúðarhús á Blöndudalshólum. Fremst er hús sem nefndist síðar Böðvarshús og var lengi pósthús. Húsið var rifið þegar 1968 og byggt þar hús fyrir brauðgerðina Krútt. Húsið var reist af Bjarna Hallgrímssyni 1898 en hann fluttist vestur um haf næsta ár.

Gengið frá Hemmertshúsi.

Gengið frá Hemmertshúsi.

Á árbakkanum er fyrst íbúðarhús sem Thomas J Thomsen reisti 1876 og var það jafnframt fyrsta byggingin ásamt verslunarhúsinu sem er þar til hægri. Íbúðarhúsið brann 1913 og verslunarhúsið brann 21.12.1914. Þar sem íbúðarhúsið var reisti Evald Sæmundsen sér síðan hús sem stendur enn. Á grunni verslunarhússins var reist samkomuhús.

Vestan við verslunarhúsið eru útihús Möllers kaupmanns, en sunnan undir veggnum er sumarskrifstofa Möllers. Þá kemur Bræðsluhús Möllers sem síðar varð íbúðarhús og nefndist Lágafell þar fyrir austan er hús sem nefndist Kista (Líkkistan) vegna byggingarlagsins en þar var jafnframt fyrsta sjúkraskýlið á staðnum. Þar fyrir aftan er Hillebrandtshús sem flutt var frá Skagaströnd 1877 og reist hér. Það er talið vera að stofni til frá 1733 og þá eitt fyrsta hús lausakaupmanna á Skagaströnd. Húsið stendur enn og er annað af tveimur elstu byggingunum hér sem reistar voru á fyrsta og öðru ári hins nýja kaupsstaðar. Þar fyrir framan er hús, en ekki eru menn á einu máli um hvaða hús það er, en það gæti hafa verið hús starfsmanna Möllers verslunar. Við Hillebrandtshús er hús sem nefndist Langiskúr, en það var upphaflega reist sem fiskverkunarhús og saltgeymsla Möllers og seinna var það gert að íbúðarhúsi. Lengst til hægri á myndinni er hús sem Möller kaupmaður lét reisa fyrir lækna en hérðslæknisembættið var flutt á Blönduós 1897.

Vert er að veita því athygli að fjaran og ósinn eru síbreytileg og er þetta eitt formið. Sandströndin er hinsvegar fyrir löngu horfin.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu.

 

Goðasteinn á árunum 1950-1960. Suðurhlið, horft í norður.

Goðasteinn

Goðasteinn á árunum 1950-1960. Suðurhlið, horft í norður.

Kirkjubæjarbraut 11 í Vestmannaeyjum, öðru nafni Goðasteinn, var byggt á árunum 1945-1947. Húsið er nefnt eftir Goðasteini í Eyjafjallajökli. Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum og kona hans Ingigerður Jóhannsdóttir byggðu húsið.

Til er mjög merkileg dagbók yfir byggingarsögu hússins á árunum 1945-1947, þar sem að gerð var grein fyrir hverri krónu sem að fór í húsbygginguna og sýnir hvernig menn byggðu húsin sín á þessum árum nánast frá grunni með eigin höndum. Þessi dagbók er varðveitt í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja með merku, yfirgripsmiklu einkaskjalasafni Þorsteins.

  • Úr bókhaldi Þorsteins Þ. Víglundssonar, vegna byggingar Goðasteins árin 1945-1947.
    Úr bókhaldi Þorsteins Þ. Víglundssonar, vegna byggingar Goðasteins árin 1945-1947.

Þorsteinn og Ingigerður bjuggu í húsinu fram að gosinu 1973, síðustu árin með dóttur sinni, tengdasyni og dætrum þeirra. Í kjallara Goðasteins fór lengi fram kennsla í meðferð véla, netabætingum og tóvinnu. Eftir gosið var húsið dæmt ónýtt vegna mikilla hitaskemmda, en seinna var það endurnýjað og er búið í því í dag.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Templarahúsið á Ísafirði, byggt árið 1905.

Templarahúsin

Hrannargata er ein af fimm götum sem liggja á milli Hafnarstrætis og Fjarðarstrætis á Ísafirði. Efst er Sólgata (áður Steypuhúsagata), þá Hrannargata (áður Templaragata), Mánagata (áður Spítalagata, Bankagata), Mjallargata (áður Læknisgata, Póstgata) og Pólgata sem dregur nafn af Norðurpólnum, húsi sem stendur við götuna.

Templaragata fékk nafn sitt af af húsi sem félagsmenn í stúkunni Dagsbrún reistu árið 1896 og nýttu til samkomuhalds og leiksýninga. Stóð það við Templaragötu 1 en gatan var einnig kölluð Bindindisgata og Dagsbrúnargata. Árið 1905 byggðu templarar nýtt og glæsilegt samkomuhús við sömu götu, teiknað og byggt af Ragúel Á. Bjarnasyni húsasmið. Brynjólfur Jóhannesson leikari, sem steig þarna sín fyrstu spor á leiksviði, sagði um húsið: „Templarar komu sér upp ágætu leikhúsi, líklega einhverju því bezta á landinu þá; þetta var hús á stærð við Iðnaðarmannahúsið í Reykjavík, nema með stærra sviði, og þar voru ágæt búningsherbergi fyrir leikarana. Mér þótti viðbrigði síðar meir að koma þaðan í moldarkjallarann í Iðnó.“ (Morgunblaðið 16. ágúst 1986, 15)

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 11. mars 1905 þar sem góðtemplarastúkurnar Nanna og Dagsbrún sækja um leyfi til að byggja hús á lóð milli Templaragötu og Steypuhúsagötu.

Úr gerðabók byggingarnefndar Ísafjarðar 11. mars 1905 þar sem góðtemplarastúkurnar Nanna og Dagsbrún sækja um leyfi til að byggja hús á lóð milli Templaragötu og Steypuhúsagötu.

Ragúel keypti eldra húsið og opnaði þar trésmíðaverkstæði vorið 1906 en stuttu síðar brann það til grunna eftir að eldur kom upp á verkstæðinu. Það urðu einnig örlög nýja samkomuhússins að verða eldi að bráð tæpum aldarfjórðungi síðar. Húsið var þá komið í eigu Helga Guðbjartssonar og Matthíasar Sveinssonar sem ráku þar kvikmyndahús auk þess sem Leikfélag Ísafjarðar hafði þar aðstöðu. Góðtemplarar höfðu hins vegar flutt sig yfir í Steypuhúsagötu þar sem þeir höfðu keypt reisulegt steinhús sem gekk undir nafninu Hebron.

Virðing á samkomuhúsi góðtemplara árið 1906.

Virðing á samkomuhúsi góðtemplara árið 1906.

Það var upp úr hádegi miðvikudaginn 23. apríl 1930 sem elds varð vart í Bíóhúsinu, eins og Templarahúsið var þá kallað. Kviknaði eldurinn út frá rafleiðslu og breiddist svo hratt út að röskum tveimur tímum seinna var húsið brunnið til grunna. Höfðu eigendurnir nýlega lokið við miklar endurbætur á húsinu og ætluðu að hefja kvikmyndasýningar að nýju daginn eftir, á sumardaginn fyrsta.

Í meðfylgjandi myndbandi eru frekari upplýsingar um húsin við Hrannargötu.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.

 

Ljósmyndin er tekin af Sveinbirni Jónssyni á Sunnuhvolstúninnu

Annarskonar heimili í kjölfar náttúruhamfara

Dalvíkurskjálftinn, eða skjálftarnir öllu heldur, ættu að vera flestum kunnir. Þeir stóðu yfir nokkurra mánaða tímabil þó sá stærsti hafi hrist jörðina þann örlagaríka laugardag 2. júní árið 1934. Talið er að nánast hvert einasta hús á Dalvík hafi ýmist stórskemmst eða eyðilagst í hamförunum.

Það má segja að ásýnd Dalvíkur hafi tekið miklum breytingum strax í kjölfar skjálftanna enda bæði fallin hús, sprungin og önnur að hruni komin hvert sem litið var. Fjölmargir misstu heimili sín líkt og hendi væri veifað og samhliða því hvarf allt öryggi sem jafnan fylgir því að eiga sinn griðarstað. Það má hreint ótrúlegt teljast að engin alvarleg slys hafi orðið á líkömum fólks, en sennilega verður hið sama ekki sagt um andlega líðan þeirra sem voru á staðnum enda lifir minningin enn í fersku minni eldri Dalvíkinga.

Strax seinnipart dagsins sem skjálftinn reið yfir var hafist handa við að reisa tjöld fyrir fólk sem stóð uppi húsnæðislaust auk þess sem margir óttuðust að fleiri skjálftar væru yfirvofandi. Þó að að flest húsþök bæjarins héngju uppi var það oft aðeins á bláþræði og ekki þótti öruggt að dvelja innan þeirra flestra ef einhverra eftirskjálfta væri von.

Þegar fólk hafði áttað sig á því hvað hafði í gerst í raun og veru reyndu margir að bjarga munum og öðru heillegu úr húsum sínum með misjöfnum heimtum. Nærri 200 manns stóðu uppi húsnæðislaus og höfðu þau flest safnast saman undir berum himni í tjaldbúðum þar sem allir gátu hjálpast að.

Matmálstímar urðu flóknari en áður þar sem mikið af leirtaui og eldunaráhöldum hafði brotnað í skjálftanum. Fólk aðhafðist að mestu undir berum himni en til allrar hamingju viðraði vel á þessum tíma sem gerði allt óneitanlegra léttara um vik.

Hér verðir drepið niður í Sögu Dalvíkur þar sem landslagi Dalvíkur eru gerð ágæt skil þann 3. júní 1934.

Þeir voru fáir sem hvíldust í húsum inni aðfaranótt 3. júní, en sem betur fór var veður hið bezta þá og næstu daga. Bjarki Elíasson lýsir fyrsta málsverðinum daginn þann: Júlíus í Sunnuhvoli og Egill sonur hans voru með útgerð og áttu því stór segl, sem notuð voru til þess að breiða yfir saltfisk, sem verið var að þurrka. Voru nú sett upp tjöld úr þessum seglum á túninu fyrir sunnan Sunnuhvol og þangað fluttu fjölskyldurnar úr Víkurhóli og Sunnuhvoli; og voru sængurfötin flutt þangað. Mér er minnisstæð máltíðin, sem var sameiginlega framreidd daginn eftir. Um nóttina höfðu góðir menn farið á sjó og skotið æðarfugl, plokkað og sviðið, og var svo allt soðið í stórum þvottapotti, og súpa gerð úr soðinu. Fátt var um diska eða bolla, því mest af því brotnaði. Voru menn því með fuglinn í höndunum, en súpuna í dósum og hverju því sem að notum mátti koma. Til þessarar mátíðar mættu allir úr nágrenninu.
(Kristmundur Bjarnason, 1984: 214-215).

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson. Myndin er tekin á Sunnuhvolstúninu og á myndinni eru f.v. Hrönn Kristjánsdóttir, María Júlíusdóttir, Hreinn Jónsson, Jón Arngrímsson, Frímann Sigurðsson, Hallfríður Sigurjónsdóttir, Arna Jónsdóttir, Svanbjörg Jónsdóttir, Lovísa Jónsdóttir og Snjólaug Valdimarsdóttir

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson. Myndin er tekin á Sunnuhvolstúninu og á myndinni eru f.v. Hrönn Kristjánsdóttir, María Júlíusdóttir, Hreinn Jónsson, Jón Arngrímsson, Frímann Sigurðsson, Hallfríður Sigurjónsdóttir, Arna Jónsdóttir, Svanbjörg Jónsdóttir, Lovísa Jónsdóttir og Snjólaug Valdimarsdóttir.

Það var þó ekki aðeins í tjöldum sem fólk bjó sér til ný heimili heldur máttu um 30 manns úr fjölskyldum Kristjáns Jóhannessonar, Sigurjóns Valdvinssonar, Sveinbjörn Vigfússonar, Jóhanns Þorkelssonar og Jóhanns Jónssonar gera sér heimili í fiskhúsi kaupfélagsins. Enn aðrar fjölskyldur gerðu sig heimakomnar í gamla barnaskólanum en seinna meir var skólahúsið ætlað sjúklingum ef til þyrfti að taka.

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér gefur að líta ljósmynd úr Hvömmunum. F.v. er mötuneytusskáli jarðskjálftanefndar, bíll Þorsteins Jóhannessonar, Barð, Árhóll og sjóhús Friðleifs og Jóhanns

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér gefur að líta ljósmynd úr Hvömmunum. F.v. er mötuneytusskáli jarðskjálftanefndar, bíll Þorsteins Jóhannessonar, Barð, Árhóll og sjóhús Friðleifs og Jóhanns.

Það má með sanni segja að allir hafi lagst á eitt, en allar þær björgunaraðgerðir sem unnar voru hefðu aldrei verið mögulegar ef ekki allir bæjarbúar hefðu lagt sitt að mörkum og unnið saman að endurbótum. Öll skýlin þar sem fólk gat leitað skjóls voru reist á aðeins örfáum dögum með styrk heimamanna og sjálfboðaliða frá nærumhverfnu. Nærliggjandi sveitafélög sendu m.a. tjöld og segl og auk þess barst aðstoð frá ríkisstjórninni og hinum ýmsu forustumönnum þjóðarinnar. „Kristján Jónsson bakarameistari á Akureyri sendi 135 kg af hörðu brauði, 500 kg af smjörlíki bárust frá Smjörlíkisgerð Akureyrar og eldhúsáhöld fyrir 1250 krónur frá Mjólkursamlagi Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt“.

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér mjá sjá fremst Laxamýri en vinstra megin er Brimnes og Upsir

Ljósmyndari var Sveinbjörn Jónsson en hér mjá sjá fremst Laxamýri en vinstra megin er Brimnes og Upsir.

Húsasaga Dalvíkur markast að miklu leyti við uppbyggingu eftir Dalvíkurskjálftann þar sem þá hefst stórfelld endurnýjun húsakosts á Dalvík og í nærliggjandi sveitum. Í Sögu Dalvíkur segir að húsakostur hafi verið einn sá besti sem þekktist í norðlenskum byggðum um árið 1940. (Kristmundur Bjarnason, 1984: 226). Á meðan mörg hús voru gerð upp voru önnur reist algerlega að nýju. Önnur enduðu lífdaga sína í skjálftanum. Þrátt fyrir að endurreisnarstarfið hafi gengið vonum framar verður þessi ógurlega lífsreynsla ekki tekin úr huga fólks og hefur hún mótað bæjarfélagið í heild sinni. Enn í dag má heyra fólk í daglegu tali ræða fyrir og eftir skjálfta á kaffistofum og samkomustöðum bæjarins.

Heimildir

  • Ljósmyndir úr safni Héraðsskjalasafns Svarfdæla.
  • Kristmundur Bjarnason. (1984). Saga Dalvíkur (3). Dalvík: Dalvíkurbær. (blaðsíður 200-227).

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla.

 

Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.

Bernskuheimili Selmu Jónsdóttur

Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.

Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.

Selma Jónsdóttir (1917-1987) listfræðingur fæddist og ólst upp í Borgarnesi í húsi sem kallast Kaupangur og er við Suðurneskletta sem liggja út að Brákarsundi. Kaupangur er nú elsta hús Borgarness, reist árið 1877 af Jóni Jónssyni kaupmanni (Akra-Jóni). Húsið er stórt og reisulegt byggt úr viði sem fluttur var frá Noregi. Í dag er þar rekið gisti- og kaffihús.

Kaupangur.

Kaupangur.

Foreldrar Selmu voru kaupmannshjónin Jón Björnsson frá Bæ og Helga María Björnsdóttir frá Svarfhóli og var hún fjórða og yngsta barn þeirra. Eldri voru Björn Franklín f. 1908, Guðrún Laufey (Blaka) f. 1910 og Halldór Haukur f. 1912.

Húsin undir Suðurnesklettum. Frá vinstri: Íbúðarhúsið, fyrir framan það sést hesthúsið, síðan kemur verslunarhúsið og pakkhúsið. Lengst til hægri er sláturhúsið. Ljósmyndari: Danskur landmælingarmaður árið 1910.

Húsin undir Suðurnesklettum. Frá vinstri: Íbúðarhúsið, fyrir framan það sést hesthúsið, síðan kemur verslunarhúsið og pakkhúsið. Lengst til hægri er sláturhúsið. Ljósmyndari: Danskur landmælingarmaður árið 1910.

Mikill gestagangur var á heimilinu sem var í þjóðbraut. Bæði var mikið um að fólk kæmi víðsvegar úr Borgarfjarðarhéraði til að reka verslunarerindi sín hjá Jóni Björnssyni og co. eða Verslunarfélagi Borgarfjarðar eins og verslunin hét síðar. Eins var fólk að koma eða fara með farþegaskipinu og dvöldu gestir jafnvel í nokkra daga þegar þannig stóð á ferðum.

Mæðgurnar Selma, Helga María og Blaka.

Mæðgurnar Selma, Helga María og Blaka.

Í bréfasafni sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar koma fram mikil og góð tengsl á milli Selmu og foreldra hennar og systkina. Þar sem hún var yngst þurfti hún að sjá eftir systkinum sínum sem fóru snemma að heiman til að mennta sig en Jón faðir þeirra lagði sig fram um að tryggja börnum sínum góða menntun og reynslu hérlendis og erlendis. Á sumrin komu syskinin heim og gjarnan með vini sína meðferðis og var þá enn meira líf og fjör á kaupmannsheimilinu en endranær.

  • Bréf frá Selmu (Demmu) 9 ára til Blöku systur.
    Bréf frá Selmu (Demmu) 9 ára til Blöku systur.

Selma varð ekki eftirbátur systkina sinna og stundaði nám í Englandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Hún var fyrst Íslendinga til að ljúka námi í listfræði og starfa við fræðigrein sína hérlendis og hún varð fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands, árið 1960. Selma varð forstöðumaður Listasafns Íslands árið 1950 til dánardags.

Selma giftist Sigurði Péturssyni gerlafræðingi árið 1955. Þau voru barnlaus.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.

 

Húsið Sigtún á Selfossi

Sigtún á Selfossi

Árið 1934 reis hús sem í þá daga þótti glæsilegasta húsið á Suðurlandi. Um er að ræða húsið Sigtún á Selfossi. Húsið byggði Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og varð húsið þá strax stöðutákn fyrir Egil sem var mesti athafnamaður Sunnlendinga á þeim tíma.

Egill Grímur Thorarensen

Egill Grímur Thorarensen.

Egill var fæddur að Kirkjubæ á Rangárvöllum 1897, sonur Gríms Skúlasonar Thorarensen, bónda og hreppsstjóra á Kirkjubæ og Jónínu Egilsdóttur frá Múla í Biskupstungum. Hann var í tvö ár í verslunarnámi í Kaupmannahöfn og vann svo við verslunarstörf í Reykjavík í nokkra mánuði þegar heim var komið. Hann fór til sjós árið 1916 og ætlaði að leggja sjómennsku fyrir sig en veiktist af berklum og varð að leggja sjómennskuna á hilluna. Haustið 1918 keypti hann Sigtún hið eldra af tengdaföður sínum og hóf þar verslun um haustið. Hugmyndin um stofnun Kaupfélags Árnesinga kom upp í samtali Egils við Helga Ágústsson í Birtingaholti þar sem þeir voru sammála um það að ekki myndi líða á löngu þar til ákveðið yrði að stofna kaupfélag í héraðinu. Egill sagðist frekar vilja taka þátt í þeirri þróun heldur en að halda áfram að reka verslun sína í samkeppni við öflugt kaupfélag. 1. nóvember 1930 var svo Kaupfélag Árnesinga stofnað og daginn eftir var Egill ráðinn kaupfélagsstjóri. Í janúar árið eftir seldi Egill svo og afsalaði Kaupfélaginu fasteignum sínum á Selfossi. Í Sögu Selfoss er heil blaðsíða sett eingöngu í það að lýsa Agli, enda var hann gæddur miklum mannkostum. Í lýsingunni stendur meðal annars skrifað:

Egill var skapmaður mikill og ráðríkur og fór sínu fram um framkvæmdir, sem hann hafði trú á. Hann gat orðið óvæginn og hlífðarlaus við þá, sem stóðu á móti honum, einkum í málum, sem hann taldi til heilla fyrir héraðið. Hann hafði viðkvæma lund og fann til með þeim, sem áttu bágt vegna sjúkdóma eða einstæðingsskapar en ekki með þeim, sem voru hraustir og gátu unnið. Við starfsmenn var hann ljúfur og hress og lofaði óspart dugnað þeirra og framtak, og orð hans stóðu sem stafur á bók.

Egill stjórnaði Kaupfélagi Árnesinga í nánu samstarfi við Mjólkurbú Flóamanna í 30 ár og þau ár hafa þótt mesti uppgangstími sem hefur gengið yfir sveitir Suðurlands, stundum kallað Egilstímabilið. Egill tók einnig virkan þátt í sveitarstjórnarmálum og öðrum félagsmálum og átti til dæmis sæti í fyrstu hreppsnefnd Selfosshrepps og var formaður stjórnar mjólkurbúsins í 30 ár. Þegar Egill andaðist 1961 skrifaði Björn Sigurbjarnarson í dagbók sína að nú væri „hniginn í hadd jarðar mesti héraðshöfðingi Sunnlendinga síðan á öld Sturlunga.“

Húsið Sigtún var teiknað af Einari Sveinssyni og Sigmundi Halldórssyni arkitekt. Það er 118m² að stærð, stendur á kjallara og hefur tvær hæðir með valmaþaki. Bílskúr er áfastur við húsið. Byggingarstíll hússins hefur verið kallaður “aðlagaður funkis” eða síðfunkis/valmafunkis eins og sumir vilja kalla það. Hefðbundinn funkis byggist á því að form hlutanna á að endurspegla nýtinguna, öllu skrauti var því útrýmt og aðeins hugsað um hvernig skildi nýta húsin. Grunnform húsagerðarinnar var kubburinn þar sem flöt þök og horngluggar voru áberandi. Funkisinn var síðar aðlagaður íslenskum aðstæðum og þá var valmaþakið sett á húsin í stað flata þaksins sem yfirleitt hafði reynst illa, þannig varð “aðlagaði funkisinn” til. Kristinn Vigfússon var fenginn til þess að sjá um smíði hússins og fékk hann nokkra menn til að vinna með sér verkið. Þeir voru Guðbjörn Sigurjónsson í Jórvík, Bjarni Ásbjörnsson í Haugakoti, Guðmundur Alexandersson í Ásakoti, Höskuldur Sigurgeirsson á Fossi og bræðurnir Hannes og Guðmundur Guðjónssynir frá Dísarstöðum. Í bókinni Kristinn Vigfússon staðarsmiður stendur skrifað um bygginguna á Sigtúni:

Allir veggir voru hafðir 15 sm þykkir og járnbentir, bæði inn- og útveggir og steyptir með loftsteypu 1:5. Steypuefnið var sótt að Hraunsá og steypan hrærð á bretti og rétt upp í fötum, pall af palli. Þegar við steyptum plötuna yfir kjallarann, var komið fram í nóvember og veðurútlit tvísýnt. Við hituðum mikið af vatni og létum tvær fötur af sjóðandi vatni í hverja lögun. Seinni daginn rauk hann upp með frosti, svo að við urðum að hætta við hálfnað loftið. Negldum við fyrir alla glugga og dysjuðum loftið með sementspokum og borðum. Þannig stóð steypan í hálfan mánuð. Þá brá til þíðu í nokkra daga svo að við gátum lokið steypunni. Þá gerði aftur molharðindi sem stóðu lengi.

Jens Eyjólfsson byggingarmeistari sem meðal annars byggði Landakotskirkju hafði nýverið fundið upp nýja aðferð við að steypa holsteina úr vikri til einangrunar húsa. Steinarnir voru 10 sm þykkir með mjóum holrúmum og voru steyptir í sérstakri vél sem þeir fengu lánaða austur ásamt manni. Það var Gísli Magnússon, síðar á Bjargi. Það er ekki hægt að segja að þessi aðferð hafi breiðst víða út og þess vegna er Sigtún eina húsið á Selfossi sem byggt var með þessari einangrun.

Kristín Daníelsdóttir Thorarensen, húsfreyja í Sigtúni

Kristín Daníelsdóttir Thorarensen, húsfreyja í Sigtúni.

Egill Thorarensen og Kristín Daníelsdóttir bjuggu í húsinu ásamt börnum sínum Grími, Erlu, Benedikt og Jónínu Guðrúnu. Kristín, kona Egils var listfeng og sást það mjög vel á heimili þeirra sem var vel búið glæsilegu handverki eftir hana sjálfa. Hún hafði einnig yndi af góðum bókum auk þess sem hún lék á orgel. Egill lét útbúa í húsinu stórt og fallegt bókaherbergi þar sem hann geymdi um 1700 bækur auk þess sem hann lét innrétta vínkjallara í einu kjallaraherbergi. Það má því segja að Sigtún hafi verið menningarheimili. Í Sigtúni var ávalt margt vinnuhjúa sem sá um þrifin og það sem gera þurfti innan sem utanhúss og þau hjónin höfðu meira að segja bílstjóra. Segja má að Egill og Kristín hafi verið sannkallað hefðarfólk, enda báru þau sig alla tíð sem slíkt. Heimilisbragurinn í Sigtúni var þess vegna mjög frábrugðinn því sem þekktist á öðrum heimilum í nágrenninu. Sigtún var ekki bara heimili heldur var það jafnframt miðstöð kaupmennsku og pólitíkur á Suðurlandi. Þar voru haldnar veislur og móttökur ásamt ýmsum fundum. Húsið Sigtún var heimili allra kaupfélagsstjóra kaupfélags Árnesinga allt til ársins 2000.

Héraðsskjalasafn Árnesinga hefur fengið til varðveislu teikningar af nær öllum íbúðarhúsum á Selfossi frá Skipulags- og byggingafulltrúa Árborgar. Þar á meðal teikningar af húsinu Sigtúni. Einnig eru varðveitt á safninu hin ýmsu skjöl tengd Kaupfélagi Árnesinga.

Heimildir

  • Árni Sverrir Erlingsson. Stiklað um íslenska húsagerðarsögu með áherslu á sunnlenskar byggingar. Selfoss, 2006. Óútgefið efni.
  • Erla Egilsdóttir. Morgunblaðið 5. desember 2003.
  • Guðmundur Kristinsson. Kristinn Vigfússon staðarsmiður. Selfoss: Árnesútgáfan, 1987.
  • Guðmundur Kristinsson. Saga Selfoss, 1-2. Selfoss: Selfosskaupstaður, 1991.
  • Kristín D. Thorarensen. Morgunblaðið 6. janúar 1994, 36.
  • Oddur Sigurbergsson. Morgunblaðið 24. ágúst 2001, 36.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Árnesinga.

 

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Geislandi kona við Birkimel

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Borgarskjalasafn hefur á undanförnum árum sérstaklega leitast eftir að fá til varðveislu skjalasöfn kvenna, enda hafa færri skjalasöfn kvenna varðveist í gegn um tíðina.

Eitt af áhugaverðum skjalasöfnum sem hafa borist er safn Hólmfríðar Ólafsdóttur Kragh og Kristjáns bróður hennar. Hólmfríður var í daglegu tali kölluð Fríða Kragh og fæddist 29. ágúst 1913 í Reykjavík. Skjalasafnið nær yfir árin 1908 til 199 og er fjölbreytt að efni, meðal annars sendibréf, ljósmyndir og fleira efni.

Hólmfríður giftist árið 1933 Hans Kragh, tæknifulltrúa hjá Símstöðinni í Reykjavík. Hans hóf ungur störf hjá Landsímanum og því eru margar ljósmyndir í safninu tengdar ferðalögum vegna starfs hans.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Hólmfríður og Hans bjuggu megnið af sínum hjúskap á Birkimel 6B, 3. hæð til hægri. Kristján bróðir hennar bjó hjá þeim þar til hann keypti íbúð í sama húsi, 1. hæð til vinstri. Það var því mikill samgangur á milli þeirra systkinanna og Hans. Fjölbýlishúsið Birkimelur 6 var byggt af Byggingarfélagi símamanna og í safninu er mikið af skjölum sem tengjast byggingu hússins, fjármögnun og samningum um kaup á íbúðunum.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Í safni þeirra er töluvert af ljósmyndunum af húsinu að Birkimel og fögru heimili þeirra hjóna. Í gegnum minningargreinar um Fríðu má lesa hversu ástfangin og samhent hjónin voru. Fríða var heimavinnandi og gekk Hans í hverju hádegi Suðurgötuna meðfram gamla kirkjugarðinum til að hitta Fríðu, borða með henni og ræða málin.

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6.

Fríðu er þannig lýst í minningargreinum að hún hafi haft yfir sér heimsborgaralegt yfirbragð og framkoma hennar verið “elegant” og fáguð. Hún hafi verið geislandi falleg, brosmild og jákvæð.

Í ljósmyndum sem fylgja safninu er töluvert af ljósmyndum af þeim hjónunum og heimili þeirra að Birkimel 6 og má sjá nokkrar þeirra hér.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Varðveisla á skjalasöfnum einstaklinga er mikilvæg, sérstaklega ef þau eru heilleg og þau gefa aðra sögu af lífi fólksins í borginni en opinberu skjölin.

Fríða Kragh lést þann 22. júní 1997.

Höf: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.