Laufás

Laufás

Laufás, sem stóð við Austurveg 5, var eitt fallegasta hús í Vestmannaeyjum. Það var eitt af þeim fjölmörgu, merku og sögulegu húsum sem fóru undir hraunið í eldgosinu í Eyjum árið 1973. Húsið Laufás stóð við Austurveg 5 þar sem að áður stóð vestasti-Hlaðbær á Vilborgarstöðum.

Hjónin Þorsteinn Jónsson (1880-1965), en hann var einn af upphafsmönnum vélbátaútgerðar í Eyjum, og Elínborg Gísladóttir (1883-1974) fluttu að Laufási árið 1905 og keyptu lítið íbúðarhús sem þá stóð þar og Jón Ágúst Kristjánsson, söngstjóri Principalkórsins á árunum 1903-1905 hafði byggt. Sjö árum síðar, árið 1912, lét Þorsteinn rífa húsið og byggði nýtt hús sem stóð fram að gosi 1973.

Þorsteinn var dugmikill skipstjóri og er jafnframt þekktur fyrir bækur sínar, Formannsævi í Eyjum, sem er ævisaga hans og Aldahvörf í Eyjum, sem er útgerðarsaga Vestmannaeyja til ársins 1930.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Laufás var timburhús á steyptum kjallara með rúmgóðu risi og er til nákvæm lýsing á því úr fasteignamatsbók Vestmannaeyja frá 1918. Laufás var vinalegt hús málað með gulum hlýjum lit og hafði hvítmálaða gluggaröð á móti suðri. Yfirsmiður hússins var Magnús Ísleifsson frá London. Aðfararnótt 23. mars 1973 varð Laufás hrauninu að bráð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.

 

Lágafelsshúsið

Lágafellshúsið – Þinghúsið – Lágamýri 6

Lágafellshúsið. Engin kennileiti úr sveitinni er að sjá, það hefði þá kannski helst verið hlaðan á Blikastöðum sem sést á myndinni en hún var byggð árið 1920. Því er möguleiki á því að myndin sé frá fyrsta áratug 20. aldar. Myndin er tekin úr turni kirkjunnar. Líklega má ætla að sr. Magnús Þorsteinsson sé presturinn sem sést ganga frá húsinu, en hann var prestur í Lágafellssókn á árunum 1904-1922.

Lágafellskirkja var byggð árið 1888 og vígð árið eftir 1889. Talið er að prestbústaðurinn að Lágafelli hafi verið byggður árið 1884.

Í Sögu Kjalarnesprófastsdæmis segir að presturinn sr. Jóhann Þorkelsson hafi flutt að Lágafelli árið 1885 og búið í eigin húsi og sama hafi gengt um eftirmann hans, sr. Ólafs Stephensen sem þjónaði Mosfellingum á árunum 1890-1904. Árið 1898 gerði sr. Ólafur samning við Lestarfélag Lágafellssóknar um viðbyggingu við hús sitt. Viðbyggingin var fest við húsið með langri járnslá sem lá þvert í gegnum það.

 • Samningur milli Einars Guðmundssonar frá Miðdal fyrir hönd Lestrarfélags Lágafellssóknar og sr. Ólafs Stephensen prests á Lágafelli um kaup Lestrarfélagsins á skika austan við prestsetrið til að byggja hús fyrir félagið, dagsettur 8. maí 1898.
  Samningur milli Einars Guðmundssonar frá Miðdal fyrir hönd Lestrarfélags Lágafellssóknar og sr. Ólafs Stephensen prests á Lágafelli um kaup Lestrarfélagsins á skika austan við prestsetrið til að byggja hús fyrir félagið, dagsettur 8. maí 1898.

Árið 1909 keypti Mosfellshreppur hluta Lestrarfélagsins og var það kallað Þinghúsið eftir það. Kirkjan og þinghúsið voru einu samkomustaðir sveitarinnar. Á árunum 1898-1922 fór öll félagsstarfsemi Mosfellinga fram í Þinghúsinu eða þangað til húsið að Brúarlandi var tekið í notkun árið 1922. Hreppsnefndin fundaði í húsinu, Búnaðarfélag Mosfellshrepps átti afdrep í húsinu og í sögu bókasafnsins segir að íþróttamannslegir drengir hafi notað slána til ýmissa æfinga um leið og þeir sóttu sér lesningu á bókasafnið.

 • Á myndinni sem tekin er frá Lágafelli, yfir kirkjuna, bæjar- og útihúsin, má sjá að búið er að setja ofn í kirkjuna.
  Á myndinni sem tekin er frá Lágafelli, yfir kirkjuna, bæjar- og útihúsin, má sjá að búið er að setja ofn í kirkjuna. Það var gert árið 1923. Einnig má sjá að Thor Jensen er búinn að reisa Korpúlfsstaði sem var gert árið 1929. Þannig að myndin er tekin einhvern tíma eftir 1929.

Húsið var flutt árið 1968 á þann stað þar sem það stendur nú. Er það var flutt gerði Pétur Hjálmsson uppdrátt sem sýnir staðsetningu hússins. Einn íbúi býr í hluta hússins sem er í hans eigu. Hinn hluta hússins á Mosfellsbær. Ástand hússins er lélegt og þarfnast mikillar viðgerðar. Lágafellshúsið er aldursfriðað skv. Minjastofnun Íslands.

Heimildir

 • Magnús Guðmundsson: Bókasafn í 100 ár. Saga Lestrarfélags Lágafellssóknar og Héraðsbókasafns Kjósarsýslu 1890-1990, Héraðsbókasafn Kjósarsýslu 1990.
 • Jón Þ. Þór: Saga Kjalarnesprófastsdæmis, Kjalarnesprófastsdæmi 2000.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.

 

Svartárkot 1932.

Endurminningar úr Svartárkoti

Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna skjalið E-496/10 Endurminningar úr Svartárkoti eftir Jón Frímann Einarsson bónda í Reykjahlíð. Jón Frímann var fæddur 11. maí 1871 og lést 20. mars 1950. Faðir Jóns, Einar Friðriksson, flutti í Svartárkot vorið 1871. Þar bjuggu þau fram til 1894 er þau seldu Svartárkot og keyptu hluta Reykjahlíðar í Mývatnssveit.

Jón Frímann Einarsson.

Jón Frímann Einarsson.

Í endurminningunum rifjar Jón Frímann m.a. upp heimaslátrun í Svartárkoti:

Venjulega var slátrað á haustin, sauðum, en eftir að farið var að selja þá á fæti var minna um að þeim væri slátrað heima. Haustið 1878 var fyrst selt fé á fæti á Úlfsbæ, þá var þó slátrað heima:

8 sauðum sem gerðu að meðaltali 30 kg ket og 9 kg mör.
2 ám geldum —-II—- 29,5 kg —-II—- 10 kg —-II—-
4 lambáum —-II—- 27,5 kg —-II—- 8 kg —-II—-
6 ám mylkjum —-II—- 23,5 kg —-II—- 5,3 —-II—-

Sennilega hefur verið slátrað fleiru þetta haust þó ég hafi ekki skýrslu um það. Þegar sauðir voru valdir úr til heimaslátrunar var þreifað á þeim framan undir bógnum hvað tuggan væri mikil því eftir því var talið að mörinn væri. Þegar slátrað var átti að vanda sig við það að taka sem stærsta magála. Mörinn var settur saman volgur í sérstakan skjöld úr hverri kind og geymdur stundum dálítið lengi og ekki talið saka þó hann væri farinn að freyra þegar hann var bræddur og hamsinn yrði þá minni.

Þegar farið var að vaka við ljós á kvöldin fóru piltarnir að brytja mörinn, að því búnu kom bræðsludagurinn og var það hátíðardagur fyrir okkur krakkana sem minnti á jólin því þá voru Jólakertin steypt og líka hlökkuðum við til að fá hamsann. Kertinn voru steypt þannig: lykkja úr ljósagarni var látin á prón sinn á hvern enda hans. Þessum lykkjum var svo dýpt ofan í tólgarpottinn til skiptis þangað til kertin þóttu vera orðin nógu væn. Á milli þess sem lykkjunum var drepið ofan í tólgina voru þær hengdar upp á rá sem var yfir pottinum. Tvö kerti voru á hverjum prjón og þeir hafðir svo margir sem tala kerta var sem steypa átti. Móðir mín var vanalega sjálf við að steypa þau.

Þegar búið var að bræða var tólgin látin í ærbelgi (af vænum ám) og þeir flattir sem mest út. Þegar búið var að láta í þá og binda fyrir svo þeir færu sem best í klyfjum eða sleða. Vanalega var látið í 2 til 3 belgi og mun hver hafa verið 60 – 65 kíló. Alla bótuggur og huppa svo og önnur feiti innan úr skrokknum var brytjað og haft í blóðið til að spara mörinn svo tólgin yrði sem mest(ur), því hann var þá þýðingarmikið verslunarinnlegg.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

 

Sigurhæðir.

Sigurhæðir

Þegar sr. Matthías Jochumsson og fjölskylda flutti til Akureyrar árið 1887 settust þau að í Aðalstræti 50. Í desember 1902 flutti Gjallarhorn Akureyringum þær fréttir að Matthías hyggðist næsta vor byggja íbúðarhús í brekkunni fyrir sunnan og ofan Bergsteinshús (Hafnarstræti 88). Blaðið heldur áfram og segir „Það verður í fangið að sækja, „upp á sigurhæðir“, fyrir þá, sem heimsækja hann“. Þarna var vísað til vísu sem Matthías orti í Lundúnum 1873. Nafnið festist við húsið þrátt fyrir að Matthíasi hafi leiðst þessi sigurhæðafyndni.

Fundargerðabók bygginganefndar, fundur 2. maí 1903. Þarna var kveðið á um hvar hús Matthíasar skyldi vera.

Fundargerðabók bygginganefndar, fundur 2. maí 1903. Þarna var kveðið á um hvar hús Matthíasar skyldi vera.

 

Úr skjalasafni Marteins Sigurðssonar kaupmanns.

Úr skjalasafni Marteins Sigurðssonar kaupmanns.

Fjölskyldan flutti í Sigurhæðir 20. september 1903. Guðrún húsfreyja kunni strax vel við sig en Matthías var lengur að aðlagast nýja heimilinu en var alsæll með útsýnið. Matthías skrifar Magnúsi bróður sínum á Ísafirði skömmu síðar og segir frá húsinu: Húsið er 16 x 12 metrar að gólffleti, með kjallara, hæð og risi. Það er portbyggt og vel hátt með niðurslútandi þakbrún og snotri verönd við suðurendann og gluggarúðurnar þar mislitar. Af veröndinni eru tvær dyr, önnur inn á skrifstofuna og fram af henni er gengt inn í eldhúsið. Aðrar dyr eru af veröndinni inn í betri stofuna, og milli hennar og daglegu stofunnar er tvísett hurð með ,,portiera” yfir. Börn geta hlaupið í hring á fyrstu hæðinni. Uppi eru herbergi í suður- og norðurenda og auk þess fjögur smákamers. Svo er í húsinu háaloft og ,,duglegur” kjallari með fimm afþiljuðum hólfum.

Grunnteikning af Sigurhæðum

Grunnteikning af Sigurhæðum en teikningin var gerð þegar bærinn var raflýstur árið 1922. Svo virðist sem dyr milli skrifstofu og eldhúss, sem Matthías talar um í bréfi 1903, hafi verið fjarlægðar.

Samkvæmt íbúaskrá 1917 taldi heimilisfólkið í Sigurhæðum ellefu manns. Það passar við það sem Matthías skrifar í bréfi til Jóns Laxdals, tengdasonar síns, og segir að til þess að spara séu þau ellefu í sömu stofunni. Matthías heldur áfram og segir „er það æðimikið kraðak ef krakkarnir eru í almætti sínu, fyrst er ég að hengilmænast við borðið, svo er Þóra með sitt dót og fyllir allt matborðið, en svo er amma í horninu með rífandi prjónavél, svo gamla Þóra með rokkgarm sinn, svo Matta með fatasaum, svo stúlkur okkar tvær með handavinnu og loks óþekki Matti og telpur Þóru allt í dynjandi Evrópu ófriði.“

Íbúaskrá 1917.

Íbúaskrá 1917.

 

Borðstofan í Sigurhæðum árið 1995.

Borðstofan í Sigurhæðum árið 1995.

 

Heimildir

 • Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, 2006: Upp á Sigurhæðir – Saga Matthíasar Jochumssonar. Reykjavík, JPV útgáfa 2006.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Læknishúsið og Sauðá Mynd: KCM 213 - Hsk

Læknishúsið á Sauðárkróki – Lundur

Það var á Sauðárkróki árið 1901 sem virðulegt timburhús reis í suðurenda bæjarins við Suðurgötu. Húsið fékk nafnið Lundur og stóð það við árbakka Sauðár sem rann austan við húsið og út í sjó. Það var Sigurður Pálsson héraðslæknir sem lét reisa húsið en hönnuður og yfirsmiður þess var Steindór Jónsson og var þetta fyrsta húsið af mörgum sem Steindór reisti, en hann stundaði húsasmíðar á Sauðárkróki um langt skeið. Hörður Ágústsson segir í Íslenskri byggingararfleifð (1998, bls. 167) að húsið sé hreinræktað sveiserhús að utan en innskipan sé af eldri gerð. Hörður segir jafnframt að húsið gefi góðan vitnisburð um hæfileika Steindórs til húsagerðar.

Fyrsta mynd sem til er af húsinu 1901-1910 Mynd: Hsk

Fyrsta mynd sem til er af húsinu 1901-1910 Mynd: Hsk.

Grunnteikning Steindórs Jónssonar af húsinu mynd: Hsk-KB. 20, fol.

Grunnteikning Steindórs Jónssonar af húsinu mynd: Hsk-KB. 20, fol.

Sigurður héraðslæknir bjó fyrstur í húsinu ásamt konu sinni Þóru Gísladóttur og dóttur þeirra Láru Michelínu. Sigurður starfrækti þar einnig lyfjabúð og hafði skrifstofu í norðvesturenda hússins. Húsið gegndi því tvíþættu hlutverki líkt og mörg önnur hús sem voru reist á Sauðárkróki á þessum tíma. Á næstu áratugum eða allt til ársins 1956 hýsti þetta hús héraðslækna hreppsins ásamt fjölskyldum þeirra og vinnufólk.

Mynd: KCM 428 - Hsk

Mynd: KCM 428 – Hsk.

Læknishúsið eins og það er jafnan kallað í daglegu tali, stendur enn, þó um tíma hafi jafnvel staðið til að rífa húsið vegna mikillar niðurníðslu. Húsinu hefur verið mikið breytt í gegnum tíðina og jafnframt verið flutt af upprunalegum grunni sínum við Suðurgötu. Það var árið 1985 sem húsið var flutt að Skógargötu 10b en það hefur verið einkennandi fyrir húsasögu bæjarins hversu mörg hús hafa verið flutt á milli staða.

Læknishúsið flutt á Skógargötu Mynd: Hsk

Læknishúsið flutt á Skógargötu Mynd: Hsk.

Læknishúsið hefur verið mikið endurbætt síðan það fluttist á Skógargötu og hefur auðsjáanlega verið leitast eftir því að færa húsið í upprunalegan stíl. Í gegnum tíðina hefur fjöldi fólks átt fasta búsetu í Læknishúsinu og haldið þar blómleg heimili með fjölskyldur sínar og er það svo enn þann daginn í dag, 116 árum eftir byggingu þess.

Heimildir

 • Brunavirðingabók Sauðárhrepps. (1916-1917). Reykjavík: Brunabótafélag Íslands.
 • Hörður Ágústsson. (1998). Íslensk byggingararfleifð I – Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.
 • Kristmundur Bjarnason. (1969). Saga Sauðárkróks – Fyrri hluti: fram til ársins 1907. Akureyri: Sauðárkrókskaupstaður.
 • Feykir, 5. tölublað (07.03.1984), Blaðsíða 4.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

 

Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Glæsivellir

Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Þórhannes og Þóra Benónía. Ljósm. Björn Pálsson 1891. Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Árið 1911 voru Þórhannes Gíslason og Þóra Benónía Jónsdóttir kona hans, ásamt sex börnum þeirra og móður Þóru flutt fátækraflutningum úr Ögurhreppi við Djúp til Miðdalahrepps í Dölum. Þórhannes hafði átt meirihluta ævi sinnar heima við Ísafjarðardjúp, en flutti sig þar milli hreppa eftir því hvar vinnu var að fá og náði þannig aldrei tilskyldum 10 árum til sveitfestu. Sveitfesta húsbóndans réði þá til um framfærsluskyldu allrar fjölskyldunnar.

Á þessum tíma var ekki óalgengt að fjölskyldum á framfærslu hreppsins væri skipt upp milli heimila. Hreppsnefnd Miðdalahrepps ákveður þess í stað að byggja yfir fjölskylduna og freista þess að Þórhannes nái að vinna fyrir fjölskyldunni. Fær býlið nafnið Glæsivellir og er í landi Sauðafells. Byggð var þriggja stafgólfa þiljuð baðstofa, gangur inn með hlið bæjarins og lítið hlóðaeldhús.

Rústir Glæsivalla undir Sauðafelli. Ljósm. Valdís Einarsdóttir október 2017.

Rústir Glæsivalla undir Sauðafelli. Ljósm. Valdís Einarsdóttir október 2017.

Fyrsti veturinn á Glæsivöllum var þolanlegur framan af. En síðari hluta vetrar gerði asahláku á svellaða jörð og flæddi keldan heim og inn í bæinn. Eftir miklar vangaveltur var tekið til þess ráðs að rífa torfveggina utan af bænum. Safnað var hópi manna úr sveitinni og öllum tiltækum reipum. Bundið var um fótstykkið á bænum og hann borinn á betra bæjarstæði. Þar voru aftur hlaðnir torfveggir, byggður gangur og eldhús og sett kabísa í baðstofuna.

Í þessu húsi bjó fjölskyldan næstu árin, en þó ekki áfallalaust. Þrjú elstu börnin fara að vinna fyrir sér um fermingu. Yngsta dóttirnin hafði dottið ofan í pott með sjóðandi vatni og var örkumla, hún var fyrst í Bæ, en endar á Vífilsstöðum. Húsfreyjan deyr 1916 og tveir yngstu bræðurnir einnig árið eftir. Þegar fjölskyldan flytur frá Glæsivöllum 1919 er þau tvö eftir í heimili, Þórhannes og Ingibjörg tengdamóðir hans.

Heimildir

Bréfa- og fundargerðarbækur Miðdalahrepps. Prestþjónustubækur Suðurdalaþings. Skjalasafn Guðmundar Baldvinssonar. Kristín Ágústsdóttir og Hörður Haraldsson á Sauðafelli 16.10.2017.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu.

 

Kvíabekkur 1921. Mynd: Ljósmyndasafn Þingeyinga

Kvíabekkur

Kvíabekkur heitir efsta húsið í skrúðgarðinum á Húsavík. Torfbær upphaflega, reistur 1893 af hjónunum Baldínu Hallgrímsdóttur og Jósep Kristjánssyni. Ekki eru til heimildir um byggð á þessum stað fyrr og samkvæmt fasteignarmati frá 1930 samanstendur torfbærinn af þremur burstum. Íveruhús með baðstofu og eldhúsi, bæði alþiljuð og með timburgólfum, gangur og geymsluhús og óþiljaðar bæjardyr, fjárhús fyrir 30 kindur og heyhlaða eru áföst bænum. Þessar tvær burstir eru úr torfi og með þaki úr borðum og járni. Um er að ræða frekar “hefðbundinn” alþýðu burstabæ frá þeim tíma. Tekið er fram að íveruhúsið er úr torfi, veggir og þak og tvær stafnhyrnur úr timbri. Þetta útlit má glögglega sjá á ljósmynd af Kvíabekk frá árinu 1921 (sjá mynd að ofan).

Framhúsið og tóftir við það eru mjög áhugaverð heimild um byggingarsögu húss á Íslandi. Húsið er sennilega eitt af fáum framhúsum sem eftir standa í Þingeyjarsýslum og það eina sem enn stendur á Húsavík.

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951.

Búið var í húsinu til ársins 1979, en sveitafélagið keypti húsið um það leyti og gerði það að hluta af Skrúðgarðinum sem var stofnaður árið 1975. Framkvæmdir við að gera upp Kvíabekk hófust 2011. Hugmyndir um að gera upp Kvíabekk höfðu lengi verið undirliggjandi í hugum starfsmanna Skrúðgarðsins en fóru fyrst verulega að formast upp úr 2010. Til að tryggja að heimildir myndu varðveitast um útlit húsanna áður en endurgerð hófst voru alla byggingar sem þá stóðu mældar upp og teiknaðar vorið 2011. Vorið 2014 var sótt um leyfi hjá Minjastofnun til að taka niður og síðan endurbyggja torf- og grjótveggi fjárhús- og hlöðurústanna. Minjavörður Norðurlands eystra veitti leyfi til að taka veggina niður. Í framhaldi af því voru þeir mældir og myndaðir, og síðan um sumarið voru rústirnar teknar niður og bílskúrinn rifinn.

Kvíabekkur um 1975

Kvíabekkur um 1975.

Kvíabekkur 2015

Kvíabekkur 2015.

Verkefnið hefur að stórum hluta verið fjármagnað af Norðurþingi, en verkefnið hefur í tvígang hlotið styrk frá Minjastofnun Íslands.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

 

Skólastúlkur.

Daglegir hættir í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað var settur í fyrsta sinn 1. nóvember 1930. Nemendur þennan fyrsta vetur voru 20 og var kennt í tveim deildum. Í ársskýrslu 1930-1931 kemur fram að kennarar við skólann voru Sigrún P. Blöndal forstöðukona, Guðrún Jensdóttir settur kennari og Benedikt Blöndal aukakennari. Athygli vekur að kennslugreinar snéru ekki aðeins að heimilishaldi heldur einnig bóklegum greinum:

Forstöðukona kenndi íslenzku í báðum deildum, dönsku í eldri deild, heilsufræði og vefnað í yngri deild.
Guðrún Jensdóttir kenndi matreiðslu, hússtjórn og matarfræði í eldri deild og ræstingu í báðum deildum.
Margrét Guðmundsdóttir kenndi hannyrðir og fatasaum í báðum deildum, dönsku í yngri deild og þvott og aðgerð á fötum í báðum deildum.
Benedikt Blöndal kenndi reikning og efnafræði í yngri deild og bókfærzlu í eldri deild.

Auk þess kenndi Sigríður Vilhjálmsdóttir vélprjón mánaðartíma í yngri deild og Ingibjörg Vilhjálmsdóttir aðstoðaði við vefnaðarkennslu í 3 vikur. Guttormur Pálsson kenndi reikning í 6 vikur í forföllum Benedikts Blöndals.

Höllin var samkomustaður í húsinu.

Höllin var samkomustaður í húsinu.

Skólastúlkur voru vaktar klukkan hálf átta á morgnana og síðan tók við dagskrá og kennsla allt fram á kvöld. Nemendur áttu að vera komnir til náða klukkan 11 á kvöldin.

Úr skýrslu 1935-1936.

Úr skýrslu 1935-1936.

Að ýmsu er að hyggja á stóru heimili. Listi yfir haustverkin er áhugaverður:

Úr dagbók 1951 - 1952.

Úr dagbók 1951 – 1952.

Skólinn starfar enn árið 2017 en heitir nú Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.

Að störfum í eldhúsi.

Að störfum í eldhúsi.

Lesa má um innréttingar og smíði skólahússins í annarri grein hér á vefnum.

Ljósmyndir: Sveinn Guðnason.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

 

Birta Fróðadóttir við smíðar.

Birta Fróðadóttir innanhússarkitekt

Birte Brow Sørensen fæddist 17. október 1919. Hún ólst upp í Lyngby, rétt utan Kaupmannahafnar ein sjö barna þeirra Gerdu og Frode Sörensen. Frode var landbúnaðarhagfræðingur og lektor við Landbúnaðarháskólann og rak stóra garðyrkjustöð í Emdruphøj í Lyngby. Gerda var kennslukona og starfrækti lítinn heimaskóla.

Í apríl árið 1943 lauk Birta sveinsprófi í húsgagnasmíði með glæsibrag og hlaut svokallaða bronsmedalíu fyrir sveinsstykkið sitt. Haustið eftir hóf hún nám í innanhússarkitektúr við Skolen for indendørsarkitektur, sem í dag hluti af Konunglegu dönsku listakademíunni, þar sem hún lauk námi árið 1945.

Birta kvæntist Jóhanni Kr. Jónssyni í október 1943 en þau höfðu kynnst er Jóhann var í námi við landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og vann á garðyrkjubúi föður Birtu. Þau urðu innlyksa fram yfir stríð en komu til Íslands með fyrsta skipi eftir stríð, Birta þá ólétt af þeirra fyrsta barni, en börnin urðu alls átta. Birta kaus sjálf að gangast undir íslenskar nafnavenjur og tók upp nafnið Birta Fróðadóttir þegar hún fékk íslenskan ríkisborgararétt.

 • Dalsgarður í byggingu ca. 1957-1959.
  Dalsgarður í byggingu ca. 1957-1959.

Í byrjun bjuggu þau á Stýrimannastíg en ári seinna fluttu þau í Mosfellsdalinn og hófu búskap sinn í Reykjahlíð þar sem Jóhann starfaði fyrir Garðyrkjustjóra Ríkisins. Þeim áskotnaðist síðar braggi sem þau settu upp á bökkum Suðurár fyrir miðjum dalnum. Þar hóf Jóhann uppbyggingu á sinni eigin garðyrkjustöð sem fékk nafnið Dalsgarður. Við byggingu einbýlishússins að Dalsgarði fékk Birta til liðs við sig danskan arkitekt, Jørgen Rosenkjær sem hannaði húsið í anda funksjónalisma. Fjölskyldan flutti inn í húsið árið 1959. Birta sá alfarið um innanhússhönnunina og teiknaði og smíðaði innréttingar inn í sérhvert rými til þess að nýta allt pláss á sem bestan veg. Sérstaklega var vandað til verks og vals á efnivið sem var sterkur og endingargóður og fagurlega samsettur. Þau húsgögn sem vantaði sótti Birta til Danmerkur og kom iðulega heim með það nýjasta í hönnun þess tíma, m.a. lampa Pouls Henningsen og stóla eftir Arne Jacobsen.

Á sínum fyrsta vetri á Íslandi kynntist Birta Auði Sveindóttur Laxnes og urðu þær miklar vinkonur og nábýlingar í Mosfellsdal. Auður fékk Birtu í lið með sér að innrétta Gljúfrastein, þá nýbyggðan. Birta teiknaði sérstakt skrifpúlt og innréttingar í herbergi skáldsins auk þess að leiðbeina við skipulag rýma, uppröðun húsgagna, efnis- og litaval, hönnun á textíl og val á húsbúnaði.

Birta lést árið 1975 aðeins 55 ára að aldri.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.