Lágafelsshúsið

Lágafellshúsið – Þinghúsið – Lágamýri 6

Lágafellshúsið. Engin kennileiti úr sveitinni er að sjá, það hefði þá kannski helst verið hlaðan á Blikastöðum sem sést á myndinni en hún var byggð árið 1920. Því er möguleiki á því að myndin sé frá fyrsta áratug 20. aldar. Myndin er tekin úr turni kirkjunnar. Líklega má ætla að sr. Magnús Þorsteinsson sé presturinn sem sést ganga frá húsinu, en hann var prestur í Lágafellssókn á árunum 1904-1922.

Lágafellskirkja var byggð árið 1888 og vígð árið eftir 1889. Talið er að prestbústaðurinn að Lágafelli hafi verið byggður árið 1884.

Í Sögu Kjalarnesprófastsdæmis segir að presturinn sr. Jóhann Þorkelsson hafi flutt að Lágafelli árið 1885 og búið í eigin húsi og sama hafi gengt um eftirmann hans, sr. Ólafs Stephensen sem þjónaði Mosfellingum á árunum 1890-1904. Árið 1898 gerði sr. Ólafur samning við Lestarfélag Lágafellssóknar um viðbyggingu við hús sitt. Viðbyggingin var fest við húsið með langri járnslá sem lá þvert í gegnum það.

  • Samningur milli Einars Guðmundssonar frá Miðdal fyrir hönd Lestrarfélags Lágafellssóknar og sr. Ólafs Stephensen prests á Lágafelli um kaup Lestrarfélagsins á skika austan við prestsetrið til að byggja hús fyrir félagið, dagsettur 8. maí 1898.
    Samningur milli Einars Guðmundssonar frá Miðdal fyrir hönd Lestrarfélags Lágafellssóknar og sr. Ólafs Stephensen prests á Lágafelli um kaup Lestrarfélagsins á skika austan við prestsetrið til að byggja hús fyrir félagið, dagsettur 8. maí 1898.

Árið 1909 keypti Mosfellshreppur hluta Lestrarfélagsins og var það kallað Þinghúsið eftir það. Kirkjan og þinghúsið voru einu samkomustaðir sveitarinnar. Á árunum 1898-1922 fór öll félagsstarfsemi Mosfellinga fram í Þinghúsinu eða þangað til húsið að Brúarlandi var tekið í notkun árið 1922. Hreppsnefndin fundaði í húsinu, Búnaðarfélag Mosfellshrepps átti afdrep í húsinu og í sögu bókasafnsins segir að íþróttamannslegir drengir hafi notað slána til ýmissa æfinga um leið og þeir sóttu sér lesningu á bókasafnið.

  • Á myndinni sem tekin er frá Lágafelli, yfir kirkjuna, bæjar- og útihúsin, má sjá að búið er að setja ofn í kirkjuna.
    Á myndinni sem tekin er frá Lágafelli, yfir kirkjuna, bæjar- og útihúsin, má sjá að búið er að setja ofn í kirkjuna. Það var gert árið 1923. Einnig má sjá að Thor Jensen er búinn að reisa Korpúlfsstaði sem var gert árið 1929. Þannig að myndin er tekin einhvern tíma eftir 1929.

Húsið var flutt árið 1968 á þann stað þar sem það stendur nú. Er það var flutt gerði Pétur Hjálmsson uppdrátt sem sýnir staðsetningu hússins. Einn íbúi býr í hluta hússins sem er í hans eigu. Hinn hluta hússins á Mosfellsbær. Ástand hússins er lélegt og þarfnast mikillar viðgerðar. Lágafellshúsið er aldursfriðað skv. Minjastofnun Íslands.

Heimildir

  • Magnús Guðmundsson: Bókasafn í 100 ár. Saga Lestrarfélags Lágafellssóknar og Héraðsbókasafns Kjósarsýslu 1890-1990, Héraðsbókasafn Kjósarsýslu 1990.
  • Jón Þ. Þór: Saga Kjalarnesprófastsdæmis, Kjalarnesprófastsdæmi 2000.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.

 

Birta Fróðadóttir við smíðar.

Birta Fróðadóttir innanhússarkitekt

Birte Brow Sørensen fæddist 17. október 1919. Hún ólst upp í Lyngby, rétt utan Kaupmannahafnar ein sjö barna þeirra Gerdu og Frode Sörensen. Frode var landbúnaðarhagfræðingur og lektor við Landbúnaðarháskólann og rak stóra garðyrkjustöð í Emdruphøj í Lyngby. Gerda var kennslukona og starfrækti lítinn heimaskóla.

Í apríl árið 1943 lauk Birta sveinsprófi í húsgagnasmíði með glæsibrag og hlaut svokallaða bronsmedalíu fyrir sveinsstykkið sitt. Haustið eftir hóf hún nám í innanhússarkitektúr við Skolen for indendørsarkitektur, sem í dag hluti af Konunglegu dönsku listakademíunni, þar sem hún lauk námi árið 1945.

Birta kvæntist Jóhanni Kr. Jónssyni í október 1943 en þau höfðu kynnst er Jóhann var í námi við landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og vann á garðyrkjubúi föður Birtu. Þau urðu innlyksa fram yfir stríð en komu til Íslands með fyrsta skipi eftir stríð, Birta þá ólétt af þeirra fyrsta barni, en börnin urðu alls átta. Birta kaus sjálf að gangast undir íslenskar nafnavenjur og tók upp nafnið Birta Fróðadóttir þegar hún fékk íslenskan ríkisborgararétt.

  • Dalsgarður í byggingu ca. 1957-1959.
    Dalsgarður í byggingu ca. 1957-1959.

Í byrjun bjuggu þau á Stýrimannastíg en ári seinna fluttu þau í Mosfellsdalinn og hófu búskap sinn í Reykjahlíð þar sem Jóhann starfaði fyrir Garðyrkjustjóra Ríkisins. Þeim áskotnaðist síðar braggi sem þau settu upp á bökkum Suðurár fyrir miðjum dalnum. Þar hóf Jóhann uppbyggingu á sinni eigin garðyrkjustöð sem fékk nafnið Dalsgarður. Við byggingu einbýlishússins að Dalsgarði fékk Birta til liðs við sig danskan arkitekt, Jørgen Rosenkjær sem hannaði húsið í anda funksjónalisma. Fjölskyldan flutti inn í húsið árið 1959. Birta sá alfarið um innanhússhönnunina og teiknaði og smíðaði innréttingar inn í sérhvert rými til þess að nýta allt pláss á sem bestan veg. Sérstaklega var vandað til verks og vals á efnivið sem var sterkur og endingargóður og fagurlega samsettur. Þau húsgögn sem vantaði sótti Birta til Danmerkur og kom iðulega heim með það nýjasta í hönnun þess tíma, m.a. lampa Pouls Henningsen og stóla eftir Arne Jacobsen.

Á sínum fyrsta vetri á Íslandi kynntist Birta Auði Sveindóttur Laxnes og urðu þær miklar vinkonur og nábýlingar í Mosfellsdal. Auður fékk Birtu í lið með sér að innrétta Gljúfrastein, þá nýbyggðan. Birta teiknaði sérstakt skrifpúlt og innréttingar í herbergi skáldsins auk þess að leiðbeina við skipulag rýma, uppröðun húsgagna, efnis- og litaval, hönnun á textíl og val á húsbúnaði.

Birta lést árið 1975 aðeins 55 ára að aldri.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.