Skeggstaðir í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu

Sveitabær árið 1935

Mynd að ofan: Skeggstaðir í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu.

Bruno Schweizer fæddist 3. maí 1897 í Dissen við Ammervatn í Bæjaralandi. Hann stundaði nám í germönskum fræðum við háskólana í Munchen, Innsbruck og Freiburg og lauk doktorsprófi í þjóðfræði árið 1925.

Á árunum 1927-1931 starfaði hann við Sprachatlas málvísindastofnunina í Marburg en 1931 sneri Bruno aftur á heimaslóðir og starfaði við háskólann í Munchen. Á árunum 1935-1936 ferðaðist Bruno á eigin vegum um Ísland þar sem hann gat stundað þjóðfræðirannsóknir. Í ferðunum tók hann yfir 1000 ljósmyndir, sem margar hverjar eru einstakar í sinni röð, enda lýsa þær samfélagi sem var á hverfanda hveli, en tæknibyltingin hafði þegar hafið innreið sína í íslenskar sveitir. Í ferðum sínum um Ísland kynntist hann konu sinni Þorbjörgu Jónsdóttur frá Heiðarseli á Síðu, Flutti Þorbjörg með manni sínum til Þýskalands og eignuðust þau tvo syni, Helga og Gunnar.

Ljósmyndir Brunos eru einstakar á margan hátt. Hann var nákvæmur þegar kom að því að taka myndir af fornum byggingum eða starfsháttum en hafði einnig auga fyrir myndbyggingu og skemmtilegum augnablikum. Mannamyndir hans eru sterkar og svipbrigðin njóta sín vel ekki síst í myndum af börnum.

Auk ljósmyndanna gerði hann uppdrætti af torfbæjum, einkum í Austur-Húnavatnssýslu, sem sýna vel innra skipulag bæjanna.

  • Sigvaldi Björnsson (1891-1947) á Skeggstöðum í Svartárdal
    Sigvaldi Björnsson (1891-1947) á Skeggstöðum í Svartárdal.

Myndir Brunos bera með sér að hann hugðist nýta þær í kynningu á Íslandi og íslenskri menningu, þess vegna eru landslagsmyndir nokkuð fyrirferðamiklar. Hann lét handlita nokkrar filmur og hélt ófáa fyrirlestra um Ísland í Þýskalandi þar sem myndirnar voru sýndar.

Sonur Brunos, Helgi, gaf Héraðsskjalasafni Skagfirðinga myndirnar um mitt ár 2006. Um ævi og störf Brunos má lesa frekar í stórvirkinu: Úr torfbæjum inn í tækniöld III. bindi, sem bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út árið 2003 og bárust myndirnar safninu fyrir milligöngu Örlygs Hálfdanarsonar bókaútgefanda. Nánari upplýsingar um myndirnar er að finna á þessari vefslóð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.