Í Aðalstræti í Reykjavík. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Listamaðurinn Guðjón Samúelsson

Eins og flestir sem þekkja til íslenskrar byggingarsögu vita markaði Guðjón Samúelsson (1887-1950) arkitekt djúp spor í hönnunarsögu Íslands. Allir þekkja byggingar hans eins og Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands. Guðjón lauk námi í byggingarlist árið 1919, fyrstur Íslendinga. Hann markaði sér sérstöðu með tilvísunum í íslenska náttúru eins og sjá má í verkum hans.

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt skjalasafn Húsameistara ríkisins, þar eru fjölmargar teikningar Guðjóns auk annarra gagna sem tengjast starfi hans. Guðjón gegndi starfi húsameistara frá 1920 til dauðadags og handverk hans má sjá á allmörgum byggingum sem reistar voru á því tímabili. Guðjón sat einnig í skipulagsnefnd ríkisins frá upphafi árið 1921 og hafði hann því sem slíkur mikil áhrif á þróun byggðar á Íslandi og hannaði skipulag flestra bæja á Íslandi oft þó í samstarfi við aðra aðila.

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson.

Guðjón var einnig liðtækur vatnslitamálari. Árið 2015 afhenti Arkitektafélag Íslands Þjóðskjalasafninu nokkrar vatnslitamyndir eftir Guðjón. Myndirnar höfðu verið í eigu Ólafar Vernharðsdóttur ráðskonu Guðjóns. Myndirnar sem hér eru sýndar eru annars vegar frá Reykjavík og hins vegar frá Eyrarbakka, báðar gerðar árið 1912.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Verkamannabústaðir við Hringbraut.

Byggingafélag verkamanna í Reykjavík

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur má finna mörg áhugaverð gögn sem má nýta til rannsóknar á sögu húsa í Reykjavík. Þar má meðal annars finna áhugaverð skjöl varðandi byggingu fyrstu verkamannabústaðanna á árunum 1931-37, en Byggingafélag verkamanna var stofnað árið 1929. Héðinn Valdimarsson var flutningsmaður frumvarpsins um lög um verkamannabústaði, en hann var einnig formaður Byggingafélags verkamanna í Reykjavík til ársins 1946.

Upphaflega hét félagið „Byggingafélag verkamanna í Reykjavík“, en síðar var því breytt í „Byggingafélag alþýðu“ og að lokum í „Húsfélag alþýðu“. Í öllum tilfellum tengdist nafnabreytingin breyttum lögum um verkamannabústaði. Félagið byggði 172 íbúðir í Vesturbænum í þremur áföngum á árunum 1931 til 1937, þar til lögum um verkamannabústaði var breytt árið 1939, sem varð til þess að félagið fékk ekki lengur lán úr byggingasjóði verkamanna.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.  Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Verkamannabústaðir úr III áfanga við Hofsvallagötu. Húsin í III áfanga voru reist af sömu aðilum á árunum 1936-1937.
Við byggingu þeirra var vikið frá fyrri hugmyndum um lokaðan húsareit. Nú skipti meira máli að tryggja gott sólarljós í allar íbúðir og garða, og voru því húsin byggð í stallaðri röð.

Húsameistarar ríkisins, Guðjón Samúelsson og Gunnlaugur Halldórsson teiknuðu húsin, ásamt Einari Erlendssyni. Skipulag húsanna og fyrirkomulag þeirra á reitnum var á sínum tíma mjög í samræmi með ríkjandi hugmyndir í skipulagsmálum, sem gerði ráð fyrir samfelldum röðum tveggja og þriggja hæða steinhúsa meðfram flestum götum, víða með stóru aflokuðu svæði í miðju húsareitanna. Á lokaða svæðinu milli húsanna var gert ráð fyrir sameiginlegum barnaleikvelli og almenningssvæði. Einnig var gert ráð fyrir litlum bakgarði við hvert hús. Fjórar íbúðir voru í hverju húsi, með sameiginlega þvotta- og þurrkaðstöðu í kjallara. Við byggingu verkamannabústaðanna var gert ráð fyrir ýmsum nútímaþægindum, eins og rafmagnseldavél og baðherbergi. Einnig var fjarhitun í íbúðunum í gegnum tvær miðstöðvar og þar með heitt rennandi vatn í krönum. Fyrir verkamenn á 4. áratugi 20. aldar voru þetta ótrúleg nútímaþægindi, sem hingað til höfðu ekki þekkst hjá þeim efnaminni.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Húsin við Hofsvallagötu og leikvöllurinn í III byggingaáfanga, séð frá Hringbraut.

Skipulag verkamannabústaðanna var í anda fúnkisstefnunnar. Þeir arkitektar sem fylgdu henni, vildu bæta þjóðfélagið með góðri hönnun og útrýma heilsuspillandi húsnæði. Markmið fúnkisma var að útrýma óþarfa skrauti og flúri og hafa hreinleika og nýtingu að leiðarljósi.

Á Borgarskjalasafninu má finna fundargerðarbækur félagsins allt frá árinu 1930 til ársins 2002, bréf, reikninga, kaupsamninga og aðrar upplýsingar er tengjast Byggingafélagi verkamanna í Reykjavík.

Höfundur: Margrét Hildur Þrastardóttir

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.