Blönduós 1898.
Frá vinstri á myndinni er Blönduóskirkja vígð 1895, við ströndina eru bræðsluskúrar Höephnerverslunarinnar þá er hús verslunarstjóra Höephnerverslunar reist 1882 stendur enn, nefnist Hemmertshús, endurbætt en það brann uppúr 2000. Þá er pakkhús sömu verslunar reist 1877 og stendur það einnig enn og nefnist Pétursborg. Fyrir aftan húsin er svo verslunarhúsið, reist 1881, síðar rifið og viðurinn notaður í íbúðarhús á Blöndudalshólum. Fremst er hús sem nefndist síðar Böðvarshús og var lengi pósthús. Húsið var rifið þegar 1968 og byggt þar hús fyrir brauðgerðina Krútt. Húsið var reist af Bjarna Hallgrímssyni 1898 en hann fluttist vestur um haf næsta ár.
Gengið frá Hemmertshúsi.
Á árbakkanum er fyrst íbúðarhús sem Thomas J Thomsen reisti 1876 og var það jafnframt fyrsta byggingin ásamt verslunarhúsinu sem er þar til hægri. Íbúðarhúsið brann 1913 og verslunarhúsið brann 21.12.1914. Þar sem íbúðarhúsið var reisti Evald Sæmundsen sér síðan hús sem stendur enn. Á grunni verslunarhússins var reist samkomuhús.
Vestan við verslunarhúsið eru útihús Möllers kaupmanns, en sunnan undir veggnum er sumarskrifstofa Möllers. Þá kemur Bræðsluhús Möllers sem síðar varð íbúðarhús og nefndist Lágafell þar fyrir austan er hús sem nefndist Kista (Líkkistan) vegna byggingarlagsins en þar var jafnframt fyrsta sjúkraskýlið á staðnum. Þar fyrir aftan er Hillebrandtshús sem flutt var frá Skagaströnd 1877 og reist hér. Það er talið vera að stofni til frá 1733 og þá eitt fyrsta hús lausakaupmanna á Skagaströnd. Húsið stendur enn og er annað af tveimur elstu byggingunum hér sem reistar voru á fyrsta og öðru ári hins nýja kaupsstaðar. Þar fyrir framan er hús, en ekki eru menn á einu máli um hvaða hús það er, en það gæti hafa verið hús starfsmanna Möllers verslunar. Við Hillebrandtshús er hús sem nefndist Langiskúr, en það var upphaflega reist sem fiskverkunarhús og saltgeymsla Möllers og seinna var það gert að íbúðarhúsi. Lengst til hægri á myndinni er hús sem Möller kaupmaður lét reisa fyrir lækna en hérðslæknisembættið var flutt á Blönduós 1897.
Vert er að veita því athygli að fjaran og ósinn eru síbreytileg og er þetta eitt formið. Sandströndin er hinsvegar fyrir löngu horfin.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu.