Læknishúsið á Sauðárkróki – Lundur

Læknishúsið og Sauðá Mynd: KCM 213 - Hsk

Það var á Sauðárkróki árið 1901 sem virðulegt timburhús reis í suðurenda bæjarins við Suðurgötu. Húsið fékk nafnið Lundur og stóð það við árbakka Sauðár sem rann austan við húsið og út í sjó. Það var Sigurður Pálsson héraðslæknir sem lét reisa húsið en hönnuður og yfirsmiður þess var Steindór Jónsson og var þetta fyrsta húsið af mörgum sem Steindór reisti, en hann stundaði húsasmíðar á Sauðárkróki um langt skeið. Hörður Ágústsson segir í Íslenskri byggingararfleifð (1998, bls. 167) að húsið sé hreinræktað sveiserhús að utan en innskipan sé af eldri gerð. Hörður segir jafnframt að húsið gefi góðan vitnisburð um hæfileika Steindórs til húsagerðar.

Fyrsta mynd sem til er af húsinu 1901-1910 Mynd: Hsk

Fyrsta mynd sem til er af húsinu 1901-1910 Mynd: Hsk.

Grunnteikning Steindórs Jónssonar af húsinu mynd: Hsk-KB. 20, fol.

Grunnteikning Steindórs Jónssonar af húsinu mynd: Hsk-KB. 20, fol.

Sigurður héraðslæknir bjó fyrstur í húsinu ásamt konu sinni Þóru Gísladóttur og dóttur þeirra Láru Michelínu. Sigurður starfrækti þar einnig lyfjabúð og hafði skrifstofu í norðvesturenda hússins. Húsið gegndi því tvíþættu hlutverki líkt og mörg önnur hús sem voru reist á Sauðárkróki á þessum tíma. Á næstu áratugum eða allt til ársins 1956 hýsti þetta hús héraðslækna hreppsins ásamt fjölskyldum þeirra og vinnufólk.

Mynd: KCM 428 - Hsk

Mynd: KCM 428 – Hsk.

Læknishúsið eins og það er jafnan kallað í daglegu tali, stendur enn, þó um tíma hafi jafnvel staðið til að rífa húsið vegna mikillar niðurníðslu. Húsinu hefur verið mikið breytt í gegnum tíðina og jafnframt verið flutt af upprunalegum grunni sínum við Suðurgötu. Það var árið 1985 sem húsið var flutt að Skógargötu 10b en það hefur verið einkennandi fyrir húsasögu bæjarins hversu mörg hús hafa verið flutt á milli staða.

Læknishúsið flutt á Skógargötu Mynd: Hsk

Læknishúsið flutt á Skógargötu Mynd: Hsk.

Læknishúsið hefur verið mikið endurbætt síðan það fluttist á Skógargötu og hefur auðsjáanlega verið leitast eftir því að færa húsið í upprunalegan stíl. Í gegnum tíðina hefur fjöldi fólks átt fasta búsetu í Læknishúsinu og haldið þar blómleg heimili með fjölskyldur sínar og er það svo enn þann daginn í dag, 116 árum eftir byggingu þess.

Heimildir

  • Brunavirðingabók Sauðárhrepps. (1916-1917). Reykjavík: Brunabótafélag Íslands.
  • Hörður Ágústsson. (1998). Íslensk byggingararfleifð I – Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.
  • Kristmundur Bjarnason. (1969). Saga Sauðárkróks – Fyrri hluti: fram til ársins 1907. Akureyri: Sauðárkrókskaupstaður.
  • Feykir, 5. tölublað (07.03.1984), Blaðsíða 4.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.