Bernskuheimili Selmu Jónsdóttur

Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.
Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.

Selma Jónsdóttir. Ljósmyndari Kaldal.

Selma Jónsdóttir (1917-1987) listfræðingur fæddist og ólst upp í Borgarnesi í húsi sem kallast Kaupangur og er við Suðurneskletta sem liggja út að Brákarsundi. Kaupangur er nú elsta hús Borgarness, reist árið 1877 af Jóni Jónssyni kaupmanni (Akra-Jóni). Húsið er stórt og reisulegt byggt úr viði sem fluttur var frá Noregi. Í dag er þar rekið gisti- og kaffihús.

Kaupangur.

Kaupangur.

Foreldrar Selmu voru kaupmannshjónin Jón Björnsson frá Bæ og Helga María Björnsdóttir frá Svarfhóli og var hún fjórða og yngsta barn þeirra. Eldri voru Björn Franklín f. 1908, Guðrún Laufey (Blaka) f. 1910 og Halldór Haukur f. 1912.

Húsin undir Suðurnesklettum. Frá vinstri: Íbúðarhúsið, fyrir framan það sést hesthúsið, síðan kemur verslunarhúsið og pakkhúsið. Lengst til hægri er sláturhúsið. Ljósmyndari: Danskur landmælingarmaður árið 1910.

Húsin undir Suðurnesklettum. Frá vinstri: Íbúðarhúsið, fyrir framan það sést hesthúsið, síðan kemur verslunarhúsið og pakkhúsið. Lengst til hægri er sláturhúsið. Ljósmyndari: Danskur landmælingarmaður árið 1910.

Mikill gestagangur var á heimilinu sem var í þjóðbraut. Bæði var mikið um að fólk kæmi víðsvegar úr Borgarfjarðarhéraði til að reka verslunarerindi sín hjá Jóni Björnssyni og co. eða Verslunarfélagi Borgarfjarðar eins og verslunin hét síðar. Eins var fólk að koma eða fara með farþegaskipinu og dvöldu gestir jafnvel í nokkra daga þegar þannig stóð á ferðum.

Mæðgurnar Selma, Helga María og Blaka.

Mæðgurnar Selma, Helga María og Blaka.

Í bréfasafni sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar koma fram mikil og góð tengsl á milli Selmu og foreldra hennar og systkina. Þar sem hún var yngst þurfti hún að sjá eftir systkinum sínum sem fóru snemma að heiman til að mennta sig en Jón faðir þeirra lagði sig fram um að tryggja börnum sínum góða menntun og reynslu hérlendis og erlendis. Á sumrin komu syskinin heim og gjarnan með vini sína meðferðis og var þá enn meira líf og fjör á kaupmannsheimilinu en endranær.

  • Bréf frá Selmu (Demmu) 9 ára til Blöku systur.
    Bréf frá Selmu (Demmu) 9 ára til Blöku systur.

Selma varð ekki eftirbátur systkina sinna og stundaði nám í Englandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Hún var fyrst Íslendinga til að ljúka námi í listfræði og starfa við fræðigrein sína hérlendis og hún varð fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands, árið 1960. Selma varð forstöðumaður Listasafns Íslands árið 1950 til dánardags.

Selma giftist Sigurði Péturssyni gerlafræðingi árið 1955. Þau voru barnlaus.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.