Kvíabekkur 1921. Mynd: Ljósmyndasafn Þingeyinga

Kvíabekkur

Kvíabekkur heitir efsta húsið í skrúðgarðinum á Húsavík. Torfbær upphaflega, reistur 1893 af hjónunum Baldínu Hallgrímsdóttur og Jósep Kristjánssyni. Ekki eru til heimildir um byggð á þessum stað fyrr og samkvæmt fasteignarmati frá 1930 samanstendur torfbærinn af þremur burstum. Íveruhús með baðstofu og eldhúsi, bæði alþiljuð og með timburgólfum, gangur og geymsluhús og óþiljaðar bæjardyr, fjárhús fyrir 30 kindur og heyhlaða eru áföst bænum. Þessar tvær burstir eru úr torfi og með þaki úr borðum og járni. Um er að ræða frekar “hefðbundinn” alþýðu burstabæ frá þeim tíma. Tekið er fram að íveruhúsið er úr torfi, veggir og þak og tvær stafnhyrnur úr timbri. Þetta útlit má glögglega sjá á ljósmynd af Kvíabekk frá árinu 1921 (sjá mynd að ofan).

Framhúsið og tóftir við það eru mjög áhugaverð heimild um byggingarsögu húss á Íslandi. Húsið er sennilega eitt af fáum framhúsum sem eftir standa í Þingeyjarsýslum og það eina sem enn stendur á Húsavík.

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951

Kristinn Tómasson og fjölskylda í Kvíabekk 1951.

Búið var í húsinu til ársins 1979, en sveitafélagið keypti húsið um það leyti og gerði það að hluta af Skrúðgarðinum sem var stofnaður árið 1975. Framkvæmdir við að gera upp Kvíabekk hófust 2011. Hugmyndir um að gera upp Kvíabekk höfðu lengi verið undirliggjandi í hugum starfsmanna Skrúðgarðsins en fóru fyrst verulega að formast upp úr 2010. Til að tryggja að heimildir myndu varðveitast um útlit húsanna áður en endurgerð hófst voru alla byggingar sem þá stóðu mældar upp og teiknaðar vorið 2011. Vorið 2014 var sótt um leyfi hjá Minjastofnun til að taka niður og síðan endurbyggja torf- og grjótveggi fjárhús- og hlöðurústanna. Minjavörður Norðurlands eystra veitti leyfi til að taka veggina niður. Í framhaldi af því voru þeir mældir og myndaðir, og síðan um sumarið voru rústirnar teknar niður og bílskúrinn rifinn.

Kvíabekkur um 1975

Kvíabekkur um 1975.

Kvíabekkur 2015

Kvíabekkur 2015.

Verkefnið hefur að stórum hluta verið fjármagnað af Norðurþingi, en verkefnið hefur í tvígang hlotið styrk frá Minjastofnun Íslands.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.