Óskarsbraggi á Raufarhöfn.

Óskarsbraggi/Óskarsstöð á Raufarhöfn

Óskarsbraggi er staðsettur á fallegum stað nálægt höfninni, með útsýni yfir hafið og Höfðann. Óskar Halldórsson síldargrósser reisti fyrsta hluta þessa húss 1949 og lauk byggingunni 1950. Timbrið kom með skútu í eigu Óskars. Mögulega er þetta síðasta húsið sem sótt er með seglskipi til Noregs eins og tíðkast hafði með mörg íslensk stórhýsi allt frá miðöldum. Í húsinu voru um 22 svefnherbergi (fyrir 2-6), því má ætla að 80-100 manns hafi haft þar aðsetur þegar síldarumsvifin voru mest á Raufarhöfn. Árið 2008 var húsið orðið lélegt og hætt að þjóna hlutverki sínu sem í seinni tíð hafði verið hrognkelsavinnsla og veiðafærageymsla, þá er það að nokkur hópur áhugamanna tekur húsið að sér til að bjarga því frá glötun. Það mikla verk hefur staðið óslitið síðan. Húsið er að fullu klætt að utan og allir nýir gluggar komnir í það en eftir að setja fög og falda í síðasta áfanga að utan. Hugmyndin er að nýta húsið á fjölbreytilegan hátt undir gestavinnustofur, sýningahald, námskeið og fleira tengt listum.

Óskar Halldórsson er talinn er að einverju leyti fyrirmynd Bersa Hjálmarssonar (Íslandsbersa) í Guðsgjafaþulu Halldórs Laxness. Í bókinni Til fundar við skáldið Halldór Laxness, sem kom út 2007, segir Halldór um bókina Guðsgjafaþula:

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Halldór Laxness og Óskar Halldórsson á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1920. Mynd: Mbl.is.

Bókin er skáldskapur en ég hef aldrei farið í launkofa með það að þegar ég sauð saman Íslandsbersa hafði ég til fyrirmyndar víða í Guðsgjafaþulu gamlan kunningja minn, Óskar Halldórsson, útgerðarmann og síldargróssera, sem ég kynntist allvel í Kaupmannahöfn á ungum árum mínum. En þetta er vitaskuld ekki ævisaga Óskars Halldórssonar. Óskar var afskaplega flott maður og stór í sniðum, alltaf sama stórmennið hvort sem gekk vel eða illa í síldarbraskinu. Hann var höfðingi á alla lund, hafði mikla risnu og bjó aldrei á lágt standandi hótelum. Hann var bunandi mælskur og sannfærandi, hafði mikla en dálítið framandi geislun og veittist auðvelt að töfra fólk í návist sinni. Ýmislegt keimlíkt má segja um Íslandsbersa. Menn mega þó ekki slá því föstu að það sem drífur á daga Íslandsbersa í Guðsgjafaþulu hafi endilega komið fyrir Óskar, þann stóra mann.

Þegar Halldór er spurður hvort Bersi sé ekki líkur Óskari á margan hátt svarar hann:

Þeir voru báðir miklir áhættumenn sem höfðu unun af spákaupmennsku og veðmálum. Þetta voru sannir síldarkóngar, milljónerar einn daginn, blásnauðir þann næsta. Þeir áttu það sammerkt að hafa farið margsinnis á höfuðið í síldartöpum en komist á fæturna að nýju í hvert sinn. Báðir lentu í stóra krakkinu sem kallað var, verðhruninu á síldinni 1920. Einstakt lán að ég skyldi kynnast persónulega svo stórbrotnum manni sem Óskari á þeim dögum. Ég skil enn ekki hvernig hann kom upp í hendurnar á mér; við hrærðumst sinn í hvorum heiminum. Ég var varla samboðinn svona stórlaxi, auralaus og allslaus, – átti varla túskilding með gati!

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.