Laufás

Laufás

Laufás, sem stóð við Austurveg 5, var eitt fallegasta hús í Vestmannaeyjum. Það var eitt af þeim fjölmörgu, merku og sögulegu húsum sem fóru undir hraunið í eldgosinu í Eyjum árið 1973. Húsið Laufás stóð við Austurveg 5 þar sem að áður stóð vestasti-Hlaðbær á Vilborgarstöðum.

Hjónin Þorsteinn Jónsson (1880-1965), en hann var einn af upphafsmönnum vélbátaútgerðar í Eyjum, og Elínborg Gísladóttir (1883-1974) fluttu að Laufási árið 1905 og keyptu lítið íbúðarhús sem þá stóð þar og Jón Ágúst Kristjánsson, söngstjóri Principalkórsins á árunum 1903-1905 hafði byggt. Sjö árum síðar, árið 1912, lét Þorsteinn rífa húsið og byggði nýtt hús sem stóð fram að gosi 1973.

Þorsteinn var dugmikill skipstjóri og er jafnframt þekktur fyrir bækur sínar, Formannsævi í Eyjum, sem er ævisaga hans og Aldahvörf í Eyjum, sem er útgerðarsaga Vestmannaeyja til ársins 1930.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Virðing (fasteignamat fyrir Laufás). Fasteignamatsbók fyrir Vestmannaeyjasýslu 1916-1919.

Laufás var timburhús á steyptum kjallara með rúmgóðu risi og er til nákvæm lýsing á því úr fasteignamatsbók Vestmannaeyja frá 1918. Laufás var vinalegt hús málað með gulum hlýjum lit og hafði hvítmálaða gluggaröð á móti suðri. Yfirsmiður hússins var Magnús Ísleifsson frá London. Aðfararnótt 23. mars 1973 varð Laufás hrauninu að bráð.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.