Svartárkot 1932.

Endurminningar úr Svartárkoti

Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna skjalið E-496/10 Endurminningar úr Svartárkoti eftir Jón Frímann Einarsson bónda í Reykjahlíð. Jón Frímann var fæddur 11. maí 1871 og lést 20. mars 1950. Faðir Jóns, Einar Friðriksson, flutti í Svartárkot vorið 1871. Þar bjuggu þau fram til 1894 er þau seldu Svartárkot og keyptu hluta Reykjahlíðar í Mývatnssveit.

Jón Frímann Einarsson.

Jón Frímann Einarsson.

Í endurminningunum rifjar Jón Frímann m.a. upp heimaslátrun í Svartárkoti:

Venjulega var slátrað á haustin, sauðum, en eftir að farið var að selja þá á fæti var minna um að þeim væri slátrað heima. Haustið 1878 var fyrst selt fé á fæti á Úlfsbæ, þá var þó slátrað heima:

8 sauðum sem gerðu að meðaltali 30 kg ket og 9 kg mör.
2 ám geldum —-II—- 29,5 kg —-II—- 10 kg —-II—-
4 lambáum —-II—- 27,5 kg —-II—- 8 kg —-II—-
6 ám mylkjum —-II—- 23,5 kg —-II—- 5,3 —-II—-

Sennilega hefur verið slátrað fleiru þetta haust þó ég hafi ekki skýrslu um það. Þegar sauðir voru valdir úr til heimaslátrunar var þreifað á þeim framan undir bógnum hvað tuggan væri mikil því eftir því var talið að mörinn væri. Þegar slátrað var átti að vanda sig við það að taka sem stærsta magála. Mörinn var settur saman volgur í sérstakan skjöld úr hverri kind og geymdur stundum dálítið lengi og ekki talið saka þó hann væri farinn að freyra þegar hann var bræddur og hamsinn yrði þá minni.

Þegar farið var að vaka við ljós á kvöldin fóru piltarnir að brytja mörinn, að því búnu kom bræðsludagurinn og var það hátíðardagur fyrir okkur krakkana sem minnti á jólin því þá voru Jólakertin steypt og líka hlökkuðum við til að fá hamsann. Kertinn voru steypt þannig: lykkja úr ljósagarni var látin á prón sinn á hvern enda hans. Þessum lykkjum var svo dýpt ofan í tólgarpottinn til skiptis þangað til kertin þóttu vera orðin nógu væn. Á milli þess sem lykkjunum var drepið ofan í tólgina voru þær hengdar upp á rá sem var yfir pottinum. Tvö kerti voru á hverjum prjón og þeir hafðir svo margir sem tala kerta var sem steypa átti. Móðir mín var vanalega sjálf við að steypa þau.

Þegar búið var að bræða var tólgin látin í ærbelgi (af vænum ám) og þeir flattir sem mest út. Þegar búið var að láta í þá og binda fyrir svo þeir færu sem best í klyfjum eða sleða. Vanalega var látið í 2 til 3 belgi og mun hver hafa verið 60 – 65 kíló. Alla bótuggur og huppa svo og önnur feiti innan úr skrokknum var brytjað og haft í blóðið til að spara mörinn svo tólgin yrði sem mest(ur), því hann var þá þýðingarmikið verslunarinnlegg.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.