Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Geislandi kona við Birkimel

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Fríða Kragh á svölum á íbúð þeirra hjóna að Birkimel 6.

Borgarskjalasafn hefur á undanförnum árum sérstaklega leitast eftir að fá til varðveislu skjalasöfn kvenna, enda hafa færri skjalasöfn kvenna varðveist í gegn um tíðina.

Eitt af áhugaverðum skjalasöfnum sem hafa borist er safn Hólmfríðar Ólafsdóttur Kragh og Kristjáns bróður hennar. Hólmfríður var í daglegu tali kölluð Fríða Kragh og fæddist 29. ágúst 1913 í Reykjavík. Skjalasafnið nær yfir árin 1908 til 199 og er fjölbreytt að efni, meðal annars sendibréf, ljósmyndir og fleira efni.

Hólmfríður giftist árið 1933 Hans Kragh, tæknifulltrúa hjá Símstöðinni í Reykjavík. Hans hóf ungur störf hjá Landsímanum og því eru margar ljósmyndir í safninu tengdar ferðalögum vegna starfs hans.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Oft var gestkvæmt hjá þeim þeim Fríðu Kragh, Kristjáni bróður hennar og Hans manni Fríðu. Hér er kjöt og nýjar kartöflur á boðstólum í október 1961.

Hólmfríður og Hans bjuggu megnið af sínum hjúskap á Birkimel 6B, 3. hæð til hægri. Kristján bróðir hennar bjó hjá þeim þar til hann keypti íbúð í sama húsi, 1. hæð til vinstri. Það var því mikill samgangur á milli þeirra systkinanna og Hans. Fjölbýlishúsið Birkimelur 6 var byggt af Byggingarfélagi símamanna og í safninu er mikið af skjölum sem tengjast byggingu hússins, fjármögnun og samningum um kaup á íbúðunum.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Birkimelur 6 í byggingu, byggt af Byggingarfélagi símamanna.

Í safni þeirra er töluvert af ljósmyndunum af húsinu að Birkimel og fögru heimili þeirra hjóna. Í gegnum minningargreinar um Fríðu má lesa hversu ástfangin og samhent hjónin voru. Fríða var heimavinnandi og gekk Hans í hverju hádegi Suðurgötuna meðfram gamla kirkjugarðinum til að hitta Fríðu, borða með henni og ræða málin.

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6

Vinkonur í eldhúsinu að Birkimel 6.

Fríðu er þannig lýst í minningargreinum að hún hafi haft yfir sér heimsborgaralegt yfirbragð og framkoma hennar verið “elegant” og fáguð. Hún hafi verið geislandi falleg, brosmild og jákvæð.

Í ljósmyndum sem fylgja safninu er töluvert af ljósmyndum af þeim hjónunum og heimili þeirra að Birkimel 6 og má sjá nokkrar þeirra hér.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Vinkonur fá sér kaffisopa. Heimili Fríðu og Hans að Birkimel 6 þótti fallegt og þar var oft gestkvæmt.

Varðveisla á skjalasöfnum einstaklinga er mikilvæg, sérstaklega ef þau eru heilleg og þau gefa aðra sögu af lífi fólksins í borginni en opinberu skjölin.

Fríða Kragh lést þann 22. júní 1997.

Höf: Svanhildur Bogadóttir.

Heimildir

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur.