Í Aðalstræti í Reykjavík. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Listamaðurinn Guðjón Samúelsson

Eins og flestir sem þekkja til íslenskrar byggingarsögu vita markaði Guðjón Samúelsson (1887-1950) arkitekt djúp spor í hönnunarsögu Íslands. Allir þekkja byggingar hans eins og Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands. Guðjón lauk námi í byggingarlist árið 1919, fyrstur Íslendinga. Hann markaði sér sérstöðu með tilvísunum í íslenska náttúru eins og sjá má í verkum hans.

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara

Lauslegur uppdráttur Guðjóns af safnhúsi fyrir verk Einars Jónssonar myndhöggvara.

Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt skjalasafn Húsameistara ríkisins, þar eru fjölmargar teikningar Guðjóns auk annarra gagna sem tengjast starfi hans. Guðjón gegndi starfi húsameistara frá 1920 til dauðadags og handverk hans má sjá á allmörgum byggingum sem reistar voru á því tímabili. Guðjón sat einnig í skipulagsnefnd ríkisins frá upphafi árið 1921 og hafði hann því sem slíkur mikil áhrif á þróun byggðar á Íslandi og hannaði skipulag flestra bæja á Íslandi oft þó í samstarfi við aðra aðila.

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson

Á Eyrarbakka. Vatnslitamynd eftir Guðjón Samúelsson.

Guðjón var einnig liðtækur vatnslitamálari. Árið 2015 afhenti Arkitektafélag Íslands Þjóðskjalasafninu nokkrar vatnslitamyndir eftir Guðjón. Myndirnar höfðu verið í eigu Ólafar Vernharðsdóttur ráðskonu Guðjóns. Myndirnar sem hér eru sýndar eru annars vegar frá Reykjavík og hins vegar frá Eyrarbakka, báðar gerðar árið 1912.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.